Í gærdag var ég að stressa mig yfir fyrirhugaðri tannlæknaheimsókn, enda vissi ég að það þyrfti að rótardrepa. Og þar sem það hafði gengið svo illa síðast (ég fékk ógurlegan verk í báða kjálkana) þá kveið ég fyrir. Í gærkvöldi ákvað ég svo að gefa þessu séns. Áhyggjur skila jú engu nema verri líðan og ég hugsaði með mér að kannski myndi þetta bara ganga vel. Gat meira að segja sofið ágætlega í nótt, þrátt fyrir allt.
Ég fékk nú samt dúndrandi hjartslátt þegar ég settist í stólinn og beið eftir því að tannlæknirinn kæmi. Þegar hann svo lét sjá sig, tók ég á móti honum með þeim orðum að nú værum við ekki í góðum málum. Útskýrði að ég hefði ekki getað tuggið vinstra megin síðan ég var hjá honum í nóvember og síðust vikur hefði verkurinn versnað til muna og væri ég með stanslausan seyðing vinstra megin í munninum og út í eyrað. Sagði honum líka að ég gerði mér grein fyrir því að það þyrfti að rótardrepa tönnina og af því mér hefði verið svo illt í kjálkunum síðast þá hlakkaði ég ekki beint til. Klykkti svo út með því að segja að ég væri með gigt og búin að vera í einu alls herjar gigtarkasti megnið af janúarmánuði, og þá versnuðu allir verkir til muna. Til dæmis ef ég rek hendina í, þá er það miklu sárara ef ég er í gigtarkasti, heldur en aðra daga. Ég hafði nú ekkert ætlað að fara út í þessa gigtar-sálma en hugsaði með mér að kannski myndi það hjálpa honum að sjá heildarmyndina.
Þá stakk hann uppá þeirri snilldarlausn að setja gúmmídúk utan um tönnina sem hann væri að vinna í. Dúkurinn og einhver stálgræja sem sett er utan um sjálfa tönnina sjá þá um að halda munninum hæfilega opnum og ég þarf ekki að gapa eins mikið. Plús að öll efnin sem hann er að vinna með, leka þá ekki ofan í kok á mér, með tilheyrandi óbragði. Þetta dugði til. Mér var nánast ekkert illt í kjálkunum og gat bara slakað á meðan hann gerði gat á nýju fínu fyllinguna, og opnaði niður í rótargöngin. Þar skrapaði hann ræturnar burt með þessum "skemmtilegu" grófu nálum sem tannlæknar nota og skellti svo bráðabirgðafyllingu í. Þvílíkur munur frá því síðast! Það lá við að ég færi bara glöð í bragði heim, hehe.
Í morgun hafði ég líka samband við manninn sem prentaði myndirnar fyrir sýninguna okkar, og bað hann um að prenta út nýtt eintak fyrir mig. Var búin að lýsa nýju myndina töluvert, svo hún kæmi (vonandi) betur út. Samt var ég ekki alveg viss um það hvort ég ætti að tíma því að prenta uppá nýtt en æi, ákvað nú samt að gera það.
Í gærkvöldi heyrði ég í Hrefnu minni á Skype. Það er búið að vera svo mikið að gera hjá henni í vinnunni núna í janúar að ég lítið heyrt í henni. Og af því Skype er svo frábært þá gat hún sýnt mér hvað allt er orðið huggulegt hjá þeim í íbúðinni. Já og nýju heimaskyrtuna sína. Hehe, ég keypti einu sinni köflótta flónelskyrtu þegar við bjuggum í Tromsö, og Hrefna fékk svo þá skyrtu og notaði sem heimaskyrtu í mörg ár. Núna hafði hún svo keypt sér nýja köflótta flónelskyrtu en hún er nú reyndar miklu fínni en sú gamla, enda tískuflík.
Jæja ætli ég segi þetta ekki gott í bili. Ciao!
P.S. Myndin er næstum því nákvæmlega 4ra ára gömul, tekin niðri við smábátabryggju í lok janúar 2009. Ég var eitthvað að hræra í litunum á henni því þeir voru svo skrítnir, með þeim afleiðingum að nú eru þeir enn skrítnari... hehe ;)