föstudagur, 17. ágúst 2012

Smá lífsmark


Ég held ég sé að setja nýtt met í bloggleti - og það er kannski ekki neitt sem ég ætti að vera að státa mig af. En svona til að sýna að ég er enn á lífi þá kemur hér mynd sem ég tók í Lystigarðinum snemma í sumar. Vinkona mín átti fimmtugsafmæli nú í vikunni og þá vann ég þessa mynd aðeins í myndvinnsluforriti og sendi ég vinkonu minni með afmæliskveðjunni á facebook. Ég er bara nokkuð ánægð með þessa mynd, eða að minnsta kosti litina í henni. 

Ég er byrjuð að vinna aftur eftir 3ja vikna rólegheita-sumarfrí. Við vorum svo lánsöm að hafa gesti megnið af tímanum sem ég var í sumarfríi og mér fannst það voða notalegt. Áður en ég fór í sumarfrí komu reyndar Palli bróðir og Sanne kærastan hans. Síðan kom Hrefna frá Köben og hálfum mánuði síðar kom Egil kærastinn hennar. Síðust kom svo Anna systir og stoppaði hún í tæpa viku.

Annars er það helst í fréttum að Andri er að flytja að heiman nú um helgina. Úff það verður skrítið að vera bara þrjú eftir í húsinu og við eigum eftir að sakna hans. En þetta er víst gangur lífsins og bara ánægjulegt þegar börnin manns fara að standa á eigin fótum. Valur er búinn að leigja kerru og ætlar að aðstoða soninn við flutningana. Þeir feðgar stefna að því að keyra suður á sunnudaginn. Andri var í smá aðgerð á hné, þannig að hann má ekki reyna á fótinn og heppilegt að Valur er í sumarfríi og getur skutlast með honum.

Glöggir lesendur taka kannski eftir því að þessi pistill er skrifaður um miðja nótt... Það hefur loðað við mig í gegnum tíðina að eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin, og sérstaklega þegar mikið er um að vera. Þá fer kollurinn á mér á einhvern yfirsnúning og ég næ ekki að slaka á þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir í þá áttina. Núna er klukkan að verða þrjú og ég er búin að gera þrjár tilraunir til að fara inn í rúm að sofa. Eigum við ekki bara að segja að það takist í næstu tilraun ;o)

2 ummæli:

Kristín S. Bjarnadóttir sagði...

Myndin er alveg hreint ofurflott!

Og úff já skil vel að þetta verði viðbrigði þegar Andri verður farinn... er hann að fara í nám?
Bið að heilsa honum :)

bk Kristín

Guðný Pálína sagði...

Já Andri er að fara í atvinnuflugmannsnám hjá Keili. Ég skila kveðju til hans :)