fimmtudagur, 30. ágúst 2012

Góð ferð vestur á Strandir (1. hluti)

Um miðja síðustu viku rann það allt í einu upp fyrir mér að nú væri Valur að verða búinn með sitt 5 vikna sumarfrí. Og það eina sem við höfðum gert saman í þessu langa fríi, var að fara í 3ja daga ferð austur á land, en svo ekki söguna meir. Að minnsta kosti höfðum við ekki farið í fleiri ferðalög, hvorki innanlands né utan. Þar að auki hafði ég verið býsna þreytt/illa upp lögð í ferðinni austur, svo hún varð ekki alveg eins góð og vonir stóðu til. Þannig að nú var að duga eða drepast ef við ætluðum að ferðast meira áður en fríinu hans lyki. Mér datt í hug að gaman gæti verið að fara á Strandirnar, svona ef veðurspáin væri þokkaleg. Það var hún og eftir að hafa viðrað hugmyndina við bóndann og gengið þannig frá hnútum að ég fengi frí úr vinnu á föstudeginum, hófst ég handa við að hringja út um víðan völl og kanna með gistingu fyrir okkur.

Það varð úr að eftir vinnu hjá mér á fimmtudeginum byrjuðum við að pakka og mig minnir að við höfum lagt af stað úr bænum um sexleytið. Fyrsta stopp var í Varmahlíð, þar sem okkur datt í hug að fá okkur kvöldmat á hótelinu. Þar fengum við afskaplega ljúffengan saltfisk en þurftum að bíða dálítið lengi eftir honum, og því var þetta rúmlega klukkutíma stopp með öllu. Þá var stefnan sett á Hólmavík en þar hafði ég pantað gistingu um nóttina. Vegurinn frá Staðarskála var frekar leiðinlegur og eftir að það var orðið dimmt gekk ennþá hægar að keyra, svo við vorum ekki komin til Hólmavíkur fyrr en að nálgast hálf tólf um kvöldið.

Hótelið sem við gistum á heitir Hótel Finna og fengum við ágætis herbergi á efri hæð, nýlega uppgert. Á hæðinni var líka eldhús, svo við gátum geymt matinn okkar í ísskáp og fengið okkur morgunmat sjálf daginn eftir. Það er pínu áskorun að ferðast þegar maður (kona) borðar ekki mjólkurvörur, hveiti né egg og nokkuð ljóst að hefðbundinn morgunverður á hóteli hentar ekki. Eftir morgunmatinn tókum við smá rúnt um plássið, en fórum svo í Kaupfélagið að versla. Það var nú bara eitthvað smálegt sem við keyptum því við vissum að það væri líka verslun í Norðurfirði, þar sem við ætluðum að gista. Svona eftirá að hyggja, þá hefði auðvitað verið skynsamlegra að versla meira á Hólmavík, því þar var mun meira úrval, en það er önnur saga. Veðrið var svona allt í lagi, frekar grár himinn, vindur og hitastigið ca. 7-8 gráður.

Svo lögðum við í hann. Ákváðum að fara lengri leiðina til Norðurfjarðar og skoðuðum m.a. Drangsnes en þar var nú ekki mikið líf að sjá. Sáum samt konu sem var úti að ganga með tvo litla kjölturakka í hífandi roki, og ég var nú mest hissa á því að hundarnir fykju hreinlega ekki. Eftir að hafa ekið í einhvern tíma fundum við okkur afdrep niðri í lítilli fjöru og borðuðum nesti. Það var ennþá hvasst en við gátum fundið skjól bakvið klett í fjörunni. Sólin skein meira að segja á meðan við borðuðum, svo þetta var bara mjög fínt.

Næsta stopp var í Djúpavík. Þar skoðuðum við ljósmyndasýningu eftir þýskan ljósmyndara, Claus Sterneck, sem haldin var í afmörkuðu rými í gömlu síldarverksmiðjunni. Ekki er lengur hægt að skoða síldarverksmiðjuna sjálfa nema með leiðsögn og við slepptum því í þetta sinn.
Áfram héldum við og komum í Norðurfjörð um þrjúleytið. Þar hittum við á eldri konu (Áslaugu) sem lét okkur hafa lykilinn að smáhýsinu sem við gistum í en eigandinn var sjálfur staddur í Reykjavík. Það gekk nú ekkert alltof vel að komast inn í húsið, þrátt fyrir að hafa lykil... og var læsingin eitthvað að stríða okkur. En það hafðist nú fyrir rest. Þetta var ljómandi snoturt hús þó lítið væri. Allt leit út fyrir að vera glænýtt og mjög hreint og snyrtilegt. Eftir að hafa hent dótinu okkar inn brunuðum við í Kaupfélagið því Áslaug hafði sagt okkur að þar væri lokað um helgina. Það verður að segjast eins og er, að ekki var úrvalið mikið og t.d. einungis hægt að kaupa frosið kjöt og fisk. En við vorum svo heppin að finna frosnar laxasneiðar og nýjar kartöflur og gulrætur, svo við vorum í góðum málum.

Eftir að hafa síðan fengið okkur kaffi heima í húsi, drifum við okkur út í smá könnunarleiðangur um nánasta umhverfi. Fórum á bílnum og stoppuðum nálægt stakstæðum kletti sem við sáum niðri í fjöru. Þessi klettur heitir "30 dala stapi" og sagan segir að efst í honum hafi verið faldir 30 dalir, sem yrðu eign þess sem klifið gæti klettinn. Eyfirskur sjómaður varð fyrstur til þess í kringum árið 1900, en enga fann hann dalina.Hér er Valur að kanna hvar best sé að komast niður í fjöru :)

Við létum okkur hafa það að klöngrast niður frekar bratta urð til þess að komast niður í fjöru. Þar mynduðum við stapann í gríð og erg, og einnig ýmislegt annað tilfallandi, eins og ljósmyndara er háttur.

En þar sem við höfðum ákveðið að borða kvöldmat á Hótel Djúpavík, þá höfðum við ekki ótakmarkaðan tíma. Það er ríflega hálftíma akstur þangað og kvöldmatur aðeins framreiddur milli 19 og 21. Við vorum nú reyndar aðeins lengur á leiðinni því auðvitað þurftum við að stoppa og taka myndir þegar kvöldsólin lét allt í einu sjá sig.Við vorum reyndar frekar óheppin með það að lenda á eftir stórum hópi fólks, og það tók tímann sinn að elda ofan í þau, en að lokum fengum við okkar pönnusteikta þorsk sem bragðaðst alveg hreint ágætlega.

Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvernig væri í Djúpavík á veturna. Hótelið er opið árið um kring en hjónin sem eiga hótelið eru jafnframt eina fólkið sem býr í Djúpavík á veturnar. Veginum frá Hólmavík er ekki haldið opnum frá 6. janúar til 20. mars, en það er flogið á Gjögur tvisvar í viku, og þannig hafa íbúar Árneshrepps samband við umheiminn - ja þegar viðrar til flugs a.m.k.

Heim ókum við svo eftir ágætis máltíð og fórum fljótlega í háttinn.

Engin ummæli: