mánudagur, 25. júní 2012

Vonbrigði = Væntingar - Raunveruleiki


Ég hef ekki verið í bloggstuði undanfarið. Eftir 10 daga tímabil þar sem ég var ótrúlega spræk, helltist þreyta yfir mig aftur, með tilheyrandi vonbrigðum. En ég er reyndar ekki ein um það að verða fyrir vonbrigðum þegar slíkt gerist.

Catherine Eide Vesterby, er norsk kona sem þjáist af síþreytu, og bloggar um líf sitt. Hún er nýkomin heim úr 3ja vikna fríi í Egyptalandi, þar sem öll líðan hennar var svo miklu betri. Eins og þá vill gerast, fór hún á fullt að hugsa um alla hlutina sem hún ætlaði að gera þegar hún kæmi heim og væri með meiri orku en venjulega. EN - við heimkomuna hrundi hún því miður aftur tilbaka í sitt þreytu- og veikindaástand. Bloggfærslan hennar "Antiklimaks" fjallar einmitt um þetta. Og svo sannarlega er þetta eitthvað sem ég kannast við, þó ég sé ekki jafn veik og Cathrine, sem betur fer.

Það er þetta með væntingarnar, raunveruleikann og vonbrigðin. Innan markaðsfræðinnar er lögð áhersla á að reyna að stýra væntingum fólks rétt, því ef of mikið bil er á milli væntinga og upplifunar, þá verður viðskiptavinurinn fyrir vonbrigðum.

Ég er núna að lesa bókina Emotional Equations, eftir Chip Conley. Í henni setur hann tilfinningar upp sem stærðfræðiformúlur, og viti menn, þar kemur fyrir jafnan:

Vonbrigði = Væntingar - Raunveruleiki

Hér er þá málið að reyna að hafa áhrif á annað hvort væntingar, eða skynjaðan raunveruleika. Gera sér minni eða raunhæfari væntingar, án þess þó að leggjast í svartsýni fyrirfram. Varðandi raunveruleikann, þá snýst ekki málið alltaf um stöðuna sjálfa, heldur það hvernig við túlkum hana, og hvernig okkur finnst að líf okkar "ætti" að vera. Ef það er skoðun mín að ég eigi alltaf að vera full af orku og geti bara þannig verið ánægð með lífið, þá er hætt við því að ég verði fyrir vonbrigðum. Í ljósi sögunnar þá ætti ég að vita að þreyta er búin að vera minn fylgifiskur það lengi, að ólíklegt er að hún hverfi nokkurn tímann alveg.

Chip Conley vitnar í bók sinni í hinn þekkta eðlisfræðing Stephen Hawking, sem er með Lou Gehrigs sjúkdóm og að stærstum hluta lamaður. Það hefur samt ekki hindrað hann í vísindastörfum sínum, enda hefur hann sagt:
 "Einbeittu þér að því að gera þá hluti sem fötlun þín hindrar þig ekki í að gera vel. Syrgðu ekki þá hluti sem fötlunin kemur í veg fyrir að þú getir gert.

Og einnig:
" Væntingar mínar urðu að engu þegar ég var 21 árs. Allt sem gerst hefur síðan þá er bónus."

Þannig að ... nú er málið að reyna að sitja á sér hvað væntingar varðar og hætta að ímynda mér að ég sé "að verða frísk" í hvert skipti sem ég er aðeins hressari í nokkra daga

Já og vera þakklát fyrir allt sem ég get þó gert!! Ég get t.d farið út í garð þó ég sé þreytt og tekið myndir af sumarblómunum :-) 

2 ummæli:

Anna Sæm sagði...

En hvað er orðið langt síðan þú varst síðast "ótrúlega spræk" í 10 daga???? :-)

Guðný Pálína sagði...

Góður punktur Anna !! Það er MJÖG langt síðan. Þú manst væntanlega hvað ég var léleg þegar ég kom út til þín fyrir rúmu ári síðan, svo þetta er virkilega jákvæð framför :)