Nú er enn ein helgin runnin upp. Veðrið sýnir sínar allra bestu hliðar, ég þarf ekki að vinna í dag, og gaman væri að geta t.d. unnið í garðinum eða skroppið í ljósmyndaferð. Af hverju geri ég það þá ekki? Af því ég er búin með alla innistæðuna í orkubankanum.
Þessi skýringarmynd hér að neðan lýsir vel því ferli sem ég fer í gegnum, viku eftir viku, eftir viku. Bara það að vinna mína 4-5 tíma á dag virka daga, gerir það að verkum að ég fer framúr sjálfri mér, svona getulega séð, og helgin fer að mestu leyti í hvíld.
Eftir að hafa hvílt mig yfir helgi er ég búin að ná að safna mér aðeins saman og er þokkalega hress mánudag og þriðjudag. Á miðvikudegi finn ég að farið er að halla undan fæti, sem sést best á því að ég veigra mér við að fara á fundi í ljósmyndaklúbbnum sem haldnir eru á miðvikudagskvöldum. Þetta er frábær félagsskapur en það dugar sjaldnast til að draga mig út úr húsi. Mér tekst þó að harka af mér og halda nokkurn veginn haus á fimmtudegi en föstudagar eru oftast erfiðir. Þá finn ég hvernig ég næ ekki lengur að berjast á móti þreytunni og veit hvað bíður mín.
Á laugardagsmorgni vakna ég yfirleitt eins og keyrt hafi verið yfir mig. Mig verkjar í skrokkinn og er skelfilega stíf og stirð, en það er samt ekki það versta. Yfirgnæfandi þreytan er enn verri. Það er eins og það vanti allan kraft í vöðvana. Við þetta bætist eyrnasuð, skelfilegt óþol fyrir hávaða, hjartsláttartruflanir og almenn vanlíðan. Bara svo ég nefni það helsta ... ;-)
Að ekki sé minnst á andlegu hliðina. Ég fer á fullt að rífa sjálfa mig niður. Get ekki sætt mig við að eyða fríhelgunum mínum í endalausa hvíld. Fæ móral yfir því að taka ekki meiri þátt í heimilisstörfunum. Langar að gera svo margt.
Lengi vel neitaði ég að láta vefjagigtina stjórna lífi mínu. Ég dældi í mig sætindum og kaffi til að fá tímabundna orku og og með þessa orku að láni á okurvöxtum, gat ég þjösnast áfram og gert það sem mig langaði, hvort sem það var að fara út að taka myndir, eða taka til í skápum.
Nú er ég nánast hætt þessu. Því var eiginlega sjálfhætt þegar öll orkan var búin bæði af aðal- og varatanki. Eftir stendur samt pirringurinn yfir því að geta ekki verið fullgildur þátttakandi í lífinu. Mér hefur ekki enn tekist að sætta mig við þetta ástand og mér ætlar að reynast ótrúlega erfitt að finna leiðir til að lifa með því þannig að vel fari.
En svo ég vísi aftur í skýringarmyndina hér að ofan, þá er hún fengin af bandarískum vef, sem tileinkaður er fræðslu fyrir fólk með síþreytu og vefjagigt. Réttara sagt þá er myndin sem slík fengin af fræðslumyndbandi sem lýsir vel þessu Push & Crash ferli, sem margir ef ekki allir vefjagigtarsjúklingar þekkja svo vel af eigin raun.
Og svo ég snari þessu ferli yfir á ástkæra ylhýra móðurmálið þá lítur það einhvern veginn svona út:
Of mikil áreynsla án þess að taka tillit til eigin takmarkana => Aukin einkenni => Hvíld => Pirringur yfir öllu því sem maður getur ekki framkvæmt á meðan maður hvílir sig => Of mikil áreynsla þegar maður er hressari af því þá fer maður alveg á fullt ... og koll af kolli.
Jæja, þetta er ekki akkúrat skemmtilegasta bloggfærslan mín, en eitthvað sem ég þurfti að koma frá mér. Og nú ætla ég að fara út í garð og annað hvort gera það sjálf, eða horfa á Val setja sumarblóm í ker.
5 ummæli:
Rakst á þessa síðu, en ekki búin að skoða nógu vel til að vega og meta gæðin http://www.drlam.com/articles/adrenal_fatigue.asp
kk
Takk Anna mín, alltaf að hugsa um litlu systur ;) En já ég horfði á þetta myndband og mér sýnist þetta lýsa ástandinu á mér í hnotskurn. Svo er bara spurning hvað er hægt að gera í málinu, amk hér á landi þar sem læknavísindin styðjast að mestu við hefðbundnar aðferðir.
Og já ég hlakka svo mikið til að sjá þig í sumar 2. - 10. ágúst :)
Var að velta fyrir mér hvort þú hefðir ekki ábyggilega kynnt þér starfsemina hjá Þraut - vefjagigtarmiðstöðinni. Býst nú við að þú hafir gert það, en datt í hug að nefna þetta. Kveðja, Þórdís.
Já þakka þér fyrir ábendinguna Þórdís, ég hef vissulega spáð í þetta hjá þeim í Þraut. Hins vegar hefur það hindrað mig að ég er á Akureyri og þau í Reykjavík... plús að það er held ég ársbiðtími en vissulega er þetta eitthvað sem mætti skoða betur.
Skrifa ummæli