sunnudagur, 31. júlí 2011

Þriðjudagur í Noregi

snérist aðallega um ferðina mína á Lilleström helseklinikk. Þar hafði ég fengið tíma eftir nokkurra mánuða bið og nú var komið að því. Anna systir tók ekki annað í mál en að keyra mig og var ég þakklát fyrir það. Ferðin þangað tók ca. 45 mín. minnir mig og gekk mjög vel. Anna hafði verið búin að skoða leiðina á korti og var með þetta allt á hreinu. Við komum samt svo snemma að við gátum sest inná kaffihús í smá stund.

En svo var komið að því. Ég tilkynnti komu mína og fékk í hendurnar spurningalista sem ég átti að svara meðan ég beið. Ég var hálf stressuð fyrir og þetta bætti ekki úr skák, því ég hélt að ég ætti að vera búin að svara listanum þegar ég kæmi inn til læknisins. Og þetta voru flóknar spurningar um hin ýmsu einkenni og alvarleika þeirra, fyrri sjúkdóma, fjölskyldusögu ofl. Ég var sem sagt ekki nema ca. hálfnuð með listann þegar ég var kölluð inn til læknisins. Sem var kona, að mér fannst í yngri kantinum (já já smá fordómar í gangi hérna...) en almennileg. Hún sagði þá að það gerði ekkert til þó ég væri ekki búin að svara spurningunum, ég kæmi bara með þetta útfyllt næst. Það fannst mér pínu skrítið því ef ég hefði mátt ráða, þá hefði ég viljað vera búin að fá þennan spurningalista sendan í tölvupósti fyrir tímann, svo ég hefði getað svarað honum í ró og næði, og þá hefði ég líka haft hann til að styðjast við í viðtalinu. Hm, þetta síðasta voru sem sagt bara mínar pælingar, en ég sagði ekkert við hana.

En já, hún spurði mig samt mjög ítarlega út úr og fékk upplýsingar um mína "sjúkrasögu". Eftirá að hyggja var ég frekar stressuð, það var skelfilega heitt þarna inni, og já minnið hjá mér er nú ekki það gott fyrir, svo ég hef smá áhyggjur af því að ég hafi örugglega getað komið öllu á framfæri sem ég vildi sagt hafa. Hún spurði mig t.d. um það hvaða fimm einkenni hefðu verið verst þegar ég var "bara" með vefjagigtina, og hvaða fimm einkenni væru verst hjá mér núna - en ég gat eiginlega ekki svarað henni. Það eina sem ég mundi var að verkir og stífleiki hefðu verið verst, en núna væri það þessi yfirgnæfandi óendanlega þreyta eða örmögnun.

Mér fannst ég eiginlega vera rétt komin þarna inn (var samt inni í ca. klukkutíma) þegar hún tók fram blað og sagðist ætla að panta þessar og hinar prufur og sjá svo hvað kæmi út úr þeim. Það sem átti að skoða var m.a. að taka blóðprufur sem myndu sýna hvort um einhvern sjúkdóm væri að ræða, hormónatruflanir, ofnæmi eða gigtarsjúkdóma. Eins átti að skoða hvort mig vantaði einhver vítamín s.s. B12, D ofl. sem ég man ekki. Svo hvort um einhverjar sýkingar væri að ræða og já hvort ónæmiskerfið væri að virka eins og það á að gera og hvort ég væri með ofnæmi/óþol gagnvart einhverjum matartegundum. Rúsínan í pylsuendanum er að ég á svo að skila hægða- og munnvatnsprufum. Þær verða sendar til Bandaríkjanna og þar er m.a. verið að skoða hvort það sé ofvöxtur af einhverjum bakteríum eða öðrum sníkjudýrum, hvort það séu bólgur í meltingarvegi, glúteinóþol ofl.

Ég spurði hvort mætti ekki frekar taka fleiri en færri prufur, þar sem ég byggi nú á Íslandi og væri ekki alltaf á ferðinni til að gera frekari rannsóknir. En nei, það fannst henni óþarfi miðað við þá mynd sem hún hafði gert sér af ástandinu hjá mér. Hún gat að sjálfsögðu ekki lofað því að neitt kæmi út úr þessum prufum, en hélt samt að það kæmi eitthvað. Til dæmis tengt maganum og mataræðinu. Svo kom hún aðeins inná það að streita væri líklega stór þáttur í mínu ástandi - og satt best að segja þá situr akkúrat það svolítið í mér. Ég veit að streita er minn aðal óvinur, en ég klikkaði alveg á að spyrja hana nánar út í málið. Hvaða ferli færi í gang og hvernig væri þá best að snúa því við. Yfirhöfuð þá var ég alls ekki nógu dugleg að spyrja hana spurninga. Hefði þurft að hafa skrifað hjá mér um hvað ég ætlaði að spyrja, því það var ekkert nema þoka í höfðinu á mér.

Svo sagði hún mér að það tæki 7-8 vikur að fá niðurstöður úr þessum rannsóknum og þá vildi hún helst að ég kæmi aftur til hennar svo hægt væri að fara í gegnum niðurstöðurnar augliti til auglitis. Síðan var tappað af mér slatta af blóð og þá var heimsókninni lokið.

Ég var gjörsamlega púnkteruð eftir þetta. Það var heitt úti og heitt inni á læknastofunni og svo var líka töluvert spennufall að vera loks búin að tjá mig um ástandið á mér við einhvern sem ætti að skilja um hvað ég er að tala. En tilfinningin var samt svolítið eins og að hafa verið í prófi. Maður hefur talið sig vera vel lesinn, en svo voru áherslurnar ekki þær sömu og maður hafði búist við. Eða eitthvað í þá áttina. Ég var að minnsta kosti ekki fullkomlega ánægð. Hugsanlega vegna þess að um leið og farið var að tala um að streita eigi hugsanlega þátt í mínu heilsuleysi, þá fer mér að finnast að þetta sé allt mér að kenna, bara af því ég sé svo asnalega innréttuð að geta ekki unnið úr streitu. Hm, ætli sé ekki bara best að bíða og sjá hvað kemur út úr þessu öllu saman áður en ég fer á fullt í sjálfs-niðurrif.

Anna bjó til dýrindis salat handa okkur í kvöldmat. Við sátum á svölunum í þessu líka fína veðri og ekki spillti fyrir að fá smá hvítvínstár með :-)Já, við erum sem sagt bara tvær að borða, vegna þess að Kjell-Einar og Sigurður voru á ferðalagi uppi í Þrændalögum þessa vikuna.

Engin ummæli: