sunnudagur, 17. júlí 2011

Hvað er helst í fréttum?

Hrefna kom og fór... Hún stoppaði reyndar í heilar tvær vikur og það var voða notalegt að hafa hana heima. Við enduðum á því að fara öll fjölskyldan saman í keilu síðasta kvöldið hennar heima og það var virkilega gaman. Ég hefði sjálfsagt fengið skammarverðlaun, hefðu þau verið í boði, þvílík var frammistaðan... en mér tókst ekki að einbeita mér nógu vel nema rétt um miðbik leiksins.

Mamma og Ásgrímur komu líka í heimsókn. Erindi þeirra norður í land var að fara í jarðarför og þau ákváðu að bæta smá "sumarfríi" inn í ferðina, úr því þau voru farin af stað á annað borð. Við náðum því að borða öll saman einu sinni, þ.e.a.s. við þessi venjulegu hér heima (ég, Valur, Andri og Ísak) og Hrefna, mamma og Ásgrímur, svo það var nú aldeilis ágætt. Það er gaman að hafa líf og fjör í húsinu og notalegt að hafa fólkið sitt í kringum sig.

Við Valur fórum í dagsferð austur á Melrakkasléttu. Þetta varð reyndar langur dagur og við ókum um 500 kílómetra, en við höfum alltaf gaman af að koma þarna. Það var töluverður vindur þegar við lögðum af stað en við ákváðum að láta það ekki á okkur fá. Við stoppuðum á Húsavík og fengum okkur kaffi í nýju kaffihúsi, sem ég man ekki hvað heitir. Þar fengum við þær stærstu tertusneiðar sem við höfum fengið, og sögðust konurnar vera að reyna að finna út hvaða stærð á sneiðum væri heppilegust þannig að fólk fengi mátulega mikið.

Áfram keyrðum við austur og stoppuðum ótal sinnum á leiðinni til að taka myndir.  Enn bætti í vindinn og þegar við komum á sléttuna þá lagði ég ekki í að ganga út að Rauðanúp/Núpskötlu í þessu svakalega roki. Okkur gekk líka hálf illa að finna stað til að borða nestið okkar, en við enduðum á að keyra að eyðibýlinu Skinnalóni og sitja inn á milli gamalla tófta þar sem við fundum smá skjól. En við vorum vel klædd (ég var í hnausþykkri flíspeysu, hlífðarbuxum og utanyfirjakka, með vettlinga, húfu og bæði hettuna af flíspeysunni og jakkahettuna á höfðinu (hm, kannski frekar ruglingslega orðað hjá mér) og vorum þónokkra stund þarna og tókum myndir. Þarna eru tvö hús og gamlar tóftir, og hægt að ganga niður að sjónum þar sem mikill rekaviður liggur í fjörunni. Við höfum gjarnan tekið myndir af báðum húsunum, en nú brá svo við að byrjað er að lagfæra annað þeirra. Búið að glerja og loka því, þannig að Valur vildi ekki taka myndir af því húsi, en einbeitti sér að hinu. Það hús finnst mér samt ekki jafn ljósmyndavænt en það er mitt vandamál. Valur tekur flottar myndir af því þó mér takist það ekki.

Eftir Skinnalón ókum við til Raufarhafnar. Mér fannst það pláss alveg hræðilega síðast þegar ég kom þangað en fékk ekki alveg sömu tilfinningu núna, þó þetta sé svo sannarlega lítið og eyðilegt. Eiginlega dáist ég að fólkinu sem hefur þrautsegju til að búa á svona stöðum. Frá Raufarhöfn ókum við nýja veginn í áttina að Kópaskeri (man ekki hvað leiðin heitir en þessi vegur styttir leiðina all verulega) og síðan fórum við í Ásbyrgi. Þar ókum við eins langt inn og hægt er og borðuðum nestið okkar í skógarrjóðri. Nú brá svo við að þar var blankalogn (enda kannski ekki skrítið þegar landfræði staðarins er höfð í huga) og sólin kom fram úr skýjunum einmitt meðan við vorum að borða. Á eftir gengum við svo inn að Botnstjörn, svona úr því við vorum komin þetta langt. Það er gaman að koma þangað og við vorum eina fólkið þarna ótrúlegt en satt.

Svo héldum við heim á leið, með endalausum stoppum því ég var alltaf að sjá eitthvað myndefni og biðja Val að stoppa og bakka. Heim vorum við komin milli tíu og hálf ellefu um kvöldið eftir langt en gott ferðalag.


2 ummæli:

Fríða sagði...

Nýja leiðin heitir Hófaskarðsleið, en Hófaskarðið sjálft er reyndar á ekki á leiðinni til Raufarhafnar því hún er fyrir norðan það. Maður fer hinsvegar Hófaskarðið ef maður ætlar til Þórshafnar.

Guðný Pálína sagði...

Takk Fríða, gott að vita :)