þriðjudagur, 31. ágúst 2010

Að komast aftur í rútínu eftir frí

Er bæði gott og slæmt. Það er að segja, aðallega gott reyndar. Ég er til dæmis búin að afreka að fara í sund tvo daga í röð og það er nú eiginlega afskaplega jákvætt. Eftir þetta síþreytuástand mitt sem varaði alveg frá janúar fram í maí/júní er líkamlegt form mitt orðið enn lélegra en það var, og var nógu slæmt fyrir. Þannig að það er hið besta mál að drífa sig í sund. Ég fór líka í sjúkranudd í gær og það var nú eiginlega pínu fyndið. Ég var að hitta þennan nuddara í fyrsta skipti en hún hafði afboðað tíma áður vegna veikinda. Þegar ég pantaði þann tíma var ég svo stíf og stirð í skrokknum að ég átti erfitt með að klæða mig í sokka á morgnana. Svo í gær sagði ég við hana að ég væri nú miklu betri en ég hefði verið. Nema hvað, þegar hún fór yfir sviðið og kannaði ástand vöðva, sagði hún að það væri nánast sama hvar hún bæri niður, alls staðar væru miklar bólgur í vöðvunum. Og ég sem kemst auðveldlega í sokka núna ;) En hún ætlar að hitta mig einu sinni í viku til að byrja með og mælti með því að ég kæmi svo reglulega eftir það, til að viðhalda árangrinum. Svo kom í ljós að hún hefur unnið mjög mikið með vefjagigtarkonur og lumar á ýmsum fróðleik og góðum ráðum, þannig að þetta er hið besta mál.

Ég er eiginlega búin að setja mér það markmið að hugsa betur um sjálfa mig í vetur heldur en ég hef gert undanfarið. Ekki bara hvað hreyfingu snertir heldur líka að vera duglegri að gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað sem nærir mig og færir mér orku til að takast á við hverdaginn. Svo er bara spurningin hvað það á að vera. Mér finnst gaman að syngja svo ein hugmyndin er að byrja í kór (ef ég kemst einhvers staðar inn...). Ég hef gaman af því að sauma en hef ekki gert það í mörg ár. Svo þarf ég reyndar að fara að elda matinn oftar, því sú mikla breyting verður hjá okkur í vetur að Valur mun vinna í Noregi að hluta. Það er að segja, hann fer niður í ca. 20% vinnu á sjúkrahúsinu hér, og fer á ca. 6 vikna fresti til Tromsö og vinnur þar í 2 vikur í senn. Það verða viðbrigði fyrir okkur lúxusdýrin (mig, Andra og Ísak) sem erum vön því að hann kokki ofan í okkur, en á hinn bóginn þá höfum við bara gott af því að þurfa að hugsa aðeins um okkur sjálf að þessu leyti. Mér finnst t.d. ekkert leiðinlegt að elda og þeir bræður þurfa líka að æfa sig aðeins í þessu.

Hrefna er komin til Kenya í Afríku þar sem hún verður næstu þrjá mánuðina ásamt vinkonu sinni. Þær verða í bæ sem heitir Busia og verða að vinna á sjúkrahúsinu þar. Þetta er sjálfboðastarf en þær vinna sem læknanemar. Þetta verður án efa mjög fróðlegt fyrir  þær og lærdómsríkt, þó vissulega sé hætta á menningarsjokki fyrst í stað. Ég heyrði aðeins í Hrefnu áðan en þá voru þær stöllur staddar í Nairobi, á leið til Busia. Í nótt sváfu þær í einhvers konar strákofa og voru að drepast úr kulda. Þar komu íslensku lopapeysurnar sterkar inn. Hrefna var kvefuð, kalt og illa sofin en það rætist vonandi úr því öllu þegar þær komast á áfangastað.

Andri tekur sér frí frá námi í vetur. Það finnst mér vera þjóðráð því bæði hefur hann þjáðst af námsleiða í mörg ár og eins hefur hann ekki hugmynd um það hvað hann langar að læra. Þannig að það er bara gott að taka sér aðeins hlé og hugsa málið. En þá er líka vonandi að hann fái vinnu.

Ísak er byrjaður í 10. bekk, síðasta árið hans í grunnskóla. Og nú fór ég eina ferðina enn að hugsa um það hvað tíminn líður hratt... Ekki orð um það meira.

Engin ummæli: