mánudagur, 30. ágúst 2010

Gott að vera komin heim

Þó við Valur hefðum reyndar alveg verið til í að vera nokkra daga í viðbót í Toronto. Veit ekki með Ísak... En það tekur nokkra daga að jafna sig á tímamismuninum og það voru eiginlega síðustu þrír dagarnir sem voru bestir. Þá lét sólin líka sjá sig og við vorum þar að auki farin að rata betur um miðborgina. En það tekur greinilega smá tíma fyrir svona sveitafólk eins og okkur að venjast stórborginni, ég sé það. Til dæmis þá var varla hægt að hafa opið út á svalir í íbúðinni fyrir ógurlegum umferðargný. Svo var slökkviliðið endalaust í útköllum, hvað svo sem hefur valdið því, og hávaðinn í slökkvibílunum var kapítuli út af fyrir sig.

En sem sagt, þetta vandist allt og fólkið þarna var afskaplega kurteist og borgin ótrúlega hrein. Maður sá hvergi rusl, hvorki á götunum né annars staðar. Næstsíðasta daginn fórum við í skemmtigarð sem var eins konar tívolí en þar voru líka vatnsrennibrautir. Þar var fólk endalaust á ferðinni með sópa og fægiskóflur - nema hvað það var bara nánast ekkert rusl til að sópa.

Síðasta daginn fórum við svo upp í turninn, CN tower, sem er helsta kennileiti borgarinnar. Þetta var lengi vel hæsta bygging í heimi 553 mtr. ef ég man rétt. Þar uppi í 350 metra hæð er veitingastaður sem snýst í hringi, svona eins og Perlan í Reykjavík. Með því að panta borð á veitingastaðnum fær maður frábært útsýni ókeypis með en annars kostar slatta að komast þarna upp í turninn. Plús að maður sleppur við biðraðir svo það er vel þess virði að panta sér borð og taka sér góðan tíma í að njóta matarins og horfa á útsýnið.

Við gerðum ýmislegt annað okkur til skemmtunar í borginni. Fórum í bíó og á rokksöngleik. Einnig fórum við í skoðunarferð og siglingu yfir í Eyjarnar fyrir utan borgina. Þar leigðum við okkur hjól og hjóluðum um allt. Svo kíktum við aðeins í búðir en ég var bara alls ekki í neinu verslunarstuði þannig að ég keypti mér bara einar buxur og eina peysu. Valur gaf mér svo nýjan regnjakka því hann er orðinn eitthvað þreyttur á sjálflýsandi gulgræna regnjakkanum mínum...

En já ég þarf víst að fara að koma mér í vinnuna. Það gekk nú ekki sérlega vel að sofna í gær og við vöknuðum örugglega 12 sinnum í nótt, tímamismunurinn er að segja til sín, en það er 4ra tíma munur milli Íslands og Toronto. Og nú er ég farin :)

Engin ummæli: