Já ég er ein af þessum manneskjum sem elska að búa til lista. O jæja, það er kannski fulldjúpt í árina tekið reyndar að ég elski það. En listar hjálpa mér að koma reiðu á óreiðuna í huganum á mér, ég held að það sé skýringin. Og ég hef líka tekið eftir því að um leið og það er komið á blað sem ég þarf/ætla að framkvæma, þá aukast líkurnar til mikilla muna á því að það verði virkilega framkvæmt. Samt tekur það vissulega mislangan tíma að verða að veruleika. Stundum langar mig líka til að gera meira en líkaminn getur í raun gert, eins og í dag. Ég er ennþá þreytt eftir æfinguna í gær + vinnuvikuna en langar samt að gera ótalmargt - en veit að ég mun aðeins gera sumt. Svo er bara spurningin hvað það verður. En alla vega... óskalisti dagsins hljóðar svona:
- Laga til í eldhúsinu og finna nýjan stað fyrir ýmsa hluti sem áttu áður heimili í skápnum fyrir ofan ísskápinn. Sá skápur, ja og ísskápurinn reyndar líka, er farinn vegna þess að nýr og hærri ísskápur er kominn á heimilið.
- Taka bækurnar mínar úr bókahillu í vinnuherberginu hans Vals, en þar hafa þær verið síðan þetta var vinnuherbergið mitt/okkar fyrir mörgum árum síðan.
- Setja rennilás í peysuna... úbs! ekki búin að því ennþá.
- Setja gamlar kiljur sem mig langar ekki að eiga lengur í kassa. Síðan ætla ég að gefa þær í Hertex eða Fjölsmiðjuna.
- Fara í gegnum stóran kassa með ungbarnafötum, sortera og gefa megnið af þeim.
- Klára að prjóna gormatrefilinn með öllum sínum 1600 lykkjum í umferð, áður en ég verð brjáluð.
- Fá brilliant hugmyndir að jólagjöfum. Allar ábendingar eru vel þegnar!
- Byrja á einhverju nýju prjónaverkefni.
- Hringja í tengdaforeldrana og mömmu.
Þetta var sem sagt óskalistinn. Nú er það listinn yfir hluti sem þarf að gera, ekki allt í dag samt:
- Færa bókhald. Það styttist í virðisaukauppgjör þann 5. des. og ég er ekki byrjuð á bókhaldinu fyrir þessa tvo mánuði sem eru til uppgjörs.
- Kaupa gjöf handa litla krílinu þeirra Hrundar og Sævars sem fæddist á afmælisdaginn minn.
- Bera olíu á stofuborðin og skenkinn og leðuráburð á borðstofustólana.
- Þvo eldhúsinnréttinguna að utan.
- Þvo gluggana að innan, svo hægt sé að setja jólaljósahringina í þá og það sjáist í ljósin fyrir skít...
- Fara með kettina í sprautu.
- Gera við sundbolinn minn.
- Þvo gólfmottuna í búrinu.
- Laga betur til í geymslunni niðri og helst henda ennþá meira dóti.
- Vera duglegri að hitta vinkonur mínar.
- Bjóða fólki í mat.
- Byrja að baka fyrir jólin.
Svei mér þá, ég held bara að mér detti ekki fleira í hug í bili. Að minnsta kosti ekki tengt mér sjálfri og heimilinu. En þar sem jólaannríkið er byrjað í vinnunni er alveg ljóst að margt af þessu mun bíða þar til eftir jól...