Ég hangi fyrir framan tölvuna á meðan Valur hleypur út og inn. Hann var að grilla hamborgara handa Hrefnu og vinkonum hennar sem hún var að bjóða heim. Úr stofunni berast hlátrasköll og skvaldur og greinilegt að engum leiðist þar. Ísak lætur fara lítið fyrir sér í næsta herbergi og Andri lætur fara enn minna fyrir sér niðri í sjónvarpsherbergi. Til þess að bæta smá spennu í þessa frásögn ber þess helst að geta að vaskurinn í eldhúsinu er stíflaður eina ferðina enn, þannig að ekki er hægt að vaska upp, hvorki í uppþvottavélinni né uppá gamla mátann.
Við Valur fórum með Ísak í foreldraviðtal í skólanum í morgun og svo byrjar skólinn af fullum krafti í fyrramálið. Sem þýðir að frúin þarf að vakna klukkan sjö (hm eða hálf átta) í fyrsta skipti í marga daga. Úff, púff.
miðvikudagur, 26. ágúst 2009
Meira blogg um ekki neitt
sunnudagur, 23. ágúst 2009
Það er líklega ekki mjög gáfulegt
Í gær var ég hálf slöpp og drusluleg eitthvað og hélt að ég væri komin með svona heiftarlegt vefjagigtarkast. Í nótt vaknaði ég með þvílíku beinverkina og höfuðverkinn að ég hélt að ég væri komin með flensu. Í dag hef ég bara verið slöpp. Undarlegt fyrirbæri svo ekki sé meira sagt. En fegin er ég ef þetta er hvorki gigtin né flensan! Verð vonandi orðin sprækari á morgun.
Í vikunni byrjar Ísak aftur í skólanum og á föstudaginn fer Andri í útskriftarferð með MA. Þann 31. flýgur svo Hrefna aftur til Köben. Það er hætt við því að það verði heldur tómlegt í kofanum þegar það verður. Það hefur verið svo mikið fjör hjá okkur í sumar með gesti og ekkert nema gott um það að segja.
föstudagur, 21. ágúst 2009
Skýjum ofar
Ég tók þessa mynd þegar við Valur vorum stödd á Þingeyri fyrr í sumar. Þokan læddist inn Dýrafjörðinn en við ókum uppá Sandafell (ca 370 mtr) þar sem við vorum nógu hátt uppi til að horfa ofan á þokuna.
mánudagur, 17. ágúst 2009
Aftur komin í frí - bara lúxus :)
Valur er líka kominn aftur í frí og er sprækur sem lækur :) Í gær gekk hann á Herðubreið án þess að blása úr nös, og spurning hvað hann gerir næst. Reyndar gæti verið að við myndum skreppa suður í einn eða tvo daga en það er allt óákveðið ennþá.
Hrefna er ennþá hér heima og verður fram til loka ágúst. Skólinn hjá henni byrjar í september og þá fer hún í einhverja daga en svo er frí fram í seinni partinn í október. Undarlegt fyrirkomulag svo ekki sé meira sagt. Jólafríið er hins vegar mjög stutt að þessu sinni.
Ísak tók það upp hjá sjálfum sér að fara að synda nánast daglega og fer bara einn og syndir. Lengst hefur hann synt 50 ferðir í einu og það finnst mér nú mjög gott hjá honum. Fótboltaáhuginn er hins vegar verulega á niðurleið og náði lágmarki eftir 5-2 tap gegn Dalvíkingum á laugardaginn var.
Mamma og Ásgrímur eru farin aftur heim til sín, fóru á laugardaginn og óku yfir Kjöl. Það var gaman að fá þau þó þau stoppuðu ekki lengi.
Ég sjálf er eitthvað andlaus þessa dagana. Var orðin yfir mig þreytt eitthvað og það er nú einu sinni þannig með mig að ef það er eitthvað að mér líkamlega þá er það ansi fljótt að smita yfir á andlegu hliðina (smá hönnunargalli...). En eins og ég hef áður sagt, þegar botninum er náð liggur leiðin bara uppá við :)
þriðjudagur, 11. ágúst 2009
Lata Guðný
Titillinn vísar sem sagt til bloggleti minnar, ég get ekki sagt að ég sé mjög löt að öðru leyti þessa dagana. Ég er t.d. að vinna frekar mikið þar sem Sunna er í sumarfríi og Andri í prófalestri - en það fer nú að taka enda sem betur fer - þ.e. Andri fer í próf á morgun og Sunna kemur aftur í vinnu í næstu viku. Valur á eftir tvær vikur í sínu sumarfríi og ég hugsa bara að ég verði í fríi með honum part af tímanum. Um að gera að nýta sem mest starfskrafta Andra áður en hann stingur af til útlanda í útskriftarferð með bekknum sínum.
Áðan var ég að koma úr 100 ára afmæli, hvorki meira né minna. Og það sem meira er, afmælisbarnið er svo ern og hress að það er með ólíkindum. Til dæmis ók hún bíl þar til hún var 96 ára. Þetta var heljarinnar veisla og voru mörg börn, barnabörn og barnabarnabörn, auk annarra gesta. Mamma og Ásgrímur komu norður til að samfagna afmælisbarninu á þessum tímamótum og stoppa væntanlega í einhverja daga. Mér finnst þau vera mjög dugleg að keyra norður, komin á þennan aldur.
Aaaa, geisp, ég vaknaði klukkan fimm í morgun og gat ekki sofnað aftur. Sjálfsagt einhver streita í gangi. Þannig að núna er ég alveg að drepast úr þreytu en ætla alls ekki að leggja mig svona seint því þá sofna ég ekki á réttum tíma í kvöld.
Annars bara gengur lífið sinn vanagang. Það styttist í að skólarnir byrji aftur og manni finnst óttalega lítið eftir af sumrinu þó enn sé þetta fína fína veður úti. Hefur sennilega eitthvað að gera með að daginn er farið að stytta.
Og nú held ég að ég láti þessu bragðdaufa bloggi lokið í bili. Myndin sem fylgir er tekin á Hjalteyri þegar við Anna, Ísak og Sigurður fórum til Dalvíkur og tókum smá krók á heimleiðinni og fórum til Hjalteyrar.
laugardagur, 1. ágúst 2009
Blogg-uppfærsla
- Anna systir og Sigurður systursonur eru búin að vera hjá okkur í ca. 2 vikur núna. Það er búið að vera virkilega notalegt að hafa þau í heimsókn en því miður fara þau á morgun.
- Ég hef verið að vinna megnið af tímanum sem þau hafa verið hér en átti samt frí um síðustu helgi og tók svo auka frídag í vikunni sem leið.
- Um síðustu helgi fórum við (ég, Valur, Anna, Sigurður og Ísak) austur í Öxarfjörð á föstudagseftirmiðdegi. Þar borðuðum við í Lundi og fórum svo í sund á sama stað og svo í smá bíltúr. Sváfum líka í Lundi um nóttina. Á laugardeginum fórum við á okkar fjallabíl að Hafragilsfossi + Dettifossi + Möðrudal þar sem við borðuðum nesti + að Öskju og Víti + í Herðubreiðarlindir þar sem við hituðum hakk og spaghetti á prímus og borðuðum + í jarðböðin og svo heim.
- Á miðvikudaginn fórum við Anna og strákarnir til Dalvíkur. Þar skoðuðum við Byggðasafnið og vakti þáttur Jóhanns risa sérstaka athygli strákanna. Á eftir fórum við í sund þar sem við Anna suðum okkur niður í heita potti laugarinnar en strákarnir ærsluðust eins og þeirra er von og vísa. Svo var það Kaffi Veró með nýbökuðum vöfflum og volgu kaffilatté. Farin lengri leiðin heim, með viðkomu á Hjalteyri og ekin bæði Kræklingahlíðin og Lögmannshlíðin.
- Svo hefur sundlaugin verið óspart notuð þennan tíma en þar kemst ég ekki með tærnar þar sem Anna hefur hælana, því hún hefur synt bæði 80 ferðir (4 kílómetra) og 100 ferðir (? marga kílómetra...) á meðan ég druslast mínar hefðbundnu 30 (eða jafnvel ekki nema 20 einstaka sinnum).
- Vinnan hefur verið skemmtileg eftir sumarfrí, nóg að gera og nóg af viðskiptavinum. Ferðafólkið lætur sjá sig, bæði innlent og erlent og það væri óskandi að þetta væri svona fjörugt árið um kring :-)
- Andri er að vinna í Pottum og prikum í sumar og stendur sig bara vel strákurinn. Hann er svo að fara í útskriftarferð með MA núna í haust.
- Hrefna og Erlingur komu frá Köben en við sáum frekar lítið af þeim framan af þar sem þau gistu heima hjá foreldrum hans. Nú er hann reyndar farinn út aftur en dóttirin komin heim í gestaherbergið í kjallaranum svo við sjáum meira af henni. Hún byrjar ekki nærri strax í skólanum en hann þurfti hins vegar að mæta í vinnu.
- Valur er líka byrjaður að vinna aftur eftir sumarfrí en svo á hann tvær vikur eftir. Spurning í hvað þær verða notaðar. Það stóð nú alltaf til að mála húsið í sumar en ekki er enn fundinn litur svo það veit enginn hvernig það fer. Ætli það endi ekki bara með því að það verður málað aftur í sama lit - eða ekki málað yfir höfuð.
- Ísak er búinn í vinnuskólanum í sumar. Þetta var nú ekki sérlega mikil vinna en þó betra en ekki neitt. Svo hefur hann verið að æfa fótbolta en tognaði á kálfa og gat ekki verið með ansi lengi vegna þess. Og þegar hann er loks búinn að jafna sig þá er fótboltinn í smá fríi - týpískt!
- Máni og Birta hafa bara verið nokkuð ánægð með sumarið. Sérstaklega sólskins-kaflann mikla. En Máni lenti í slagsmálum og fékk þvílíka sýkingu í höfuðið og þurfti að fara í aðgerð til að hreinsa sárið. Svo tók við sýklalyfjagjöf í 10 daga hér heima en hann hefur jafnað sig vel eftir þetta. Meira segja byrjaður að vaxa smá hárdúnn á skallablettinn aftur.
- Valur á afmæli á morgun, meira hvað tíminn líður alltaf hratt. Mér finnst svo stutt síðan ég var að kaupa fimmtugsafmælisgjöf handa honum. En það er víst komið ár síðan...
- Og nú fer ég að hætta þessu og brjóta saman þvott, hengja upp þvott, taka úr uppþvottavélinni, ryksuga og kannski, bara kannski, skúra gólfið. Ætli það verði nú samt ekki frekar gert í fyrramálið :-)