laugardagur, 3. janúar 2009

Blundur með Birtu og Mána

var helsti viðburður dagsins hjá mér. Úff, ég hef ekki gott af því að slappa svona mikið af.

Og ég hef ekki heldur gott af því að borða þessar smákökur sem bíða mín inni í búri. Á tímabili langaði mig mest til að henda þeim öllum út í tunnu en ekki gat ég nú gert öðru heimilisfólki þá skráveifu. En hafi ég efast um að glúten- og sykurlaust mataræði væri rétt fyrir mig þá efast ég svo sannarlega ekki lengur. Er aftur byrjuð á mínu "skemmtilega" magaveseni (útbelgd af lofti og ropa eins og mér sé borgað fyrir það) og það er engum öðrum en sjálfri mér að kenna. Vandamálið er að þegar ég er einu sinni sprungin á limminu þá á ég svo rosalega erfitt að komast aftur á beinu brautina. En svo ég segi nú eitthvað jákvætt líka þá hef ég reynt vera dugleg að borða salat og grænmeti með jólamatnum - en hef hins vegar ekki verið nógu dugleg að hreyfa mig. Nóg um það.

Aðrir fjölskyldumeðlimir eru bara í nokkuð góðum gír held ég:

Ísak er loks að skána af kvefpestinni sem hefur hrjáð hann síðan fyrir jól. Þó fær hann ennþá þvílíku hóstaköstin en ekki er seinna vænna því skólinn fer að byrja aftur.

Andri er byrjaður að læra undir próf sem byrja hjá honum í næstu viku. Við foreldrarnir munum vart eftir því að hafa séð slíka takta hjá drengnum áður og raunar var það einu sinni svo að hann lærði nánast ekki neitt fyrir próf - en batnandi mönnum er best að lifa.

Hrefna er á Akureyri en þau Erlingur halda reyndar til heima hjá foreldrum hans svo við sjáum minna af þeim skötuhjúum. Svo er líka brjálað að gera hjá Hrefnu í félagslífinu því þær vinkonurnar úr MA hafa mikið verið að hittast yfir jólin. En þau Erlingur fara sem sagt aftur út í byrjun næstu viku og þá styttist víst í próf hjá skvísunni.

Valur stendur vaktina á "hælinu" þessa helgina og hefur líka staðið eldhús-vaktina í Vinaminni yfir hátíðarnar sem og endranær. Hann fékk nýjan giftingarhring í jólagjöf, hafði týnt þeim gamla enda alltaf að taka hann af sér í vinnunni. Eini gallinn er sá að nýi hringurinn er ekkert líkur mínum hring þrátt fyrir að minn hringur væri sá sem gullsmiðurinn sá og átti að smíða eftir. Þannig að núna sjáist að við erum bæði gift (sem sagt bæði með hring á baugfingri), þá er ekki augljóst að við séum gift hvort öðru. Ætli það endi ekki með því að ég láti breyta mínum hring, svo við verðum í stíl ;-)

Engin ummæli: