þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Það styttist í Barcelonaferðina

og í dag fékk ég ábendingu frá "innfæddum" um tvær verslanir sem selja svipaðar vörur og við í Pottum og prikum, svo það er um að gera að kíkja þangað. Spurning hvort Valur og strákarnir geti ekki farið að skoða fótboltavöll á meðan (eða eitthvað...). En þetta var nú annars svolítið fyndið. Það komu tvær konur í búðina sem voru að skoða Pulltex vínvörurnar og spurðu hvaðan þær vörur væru. Frá Spáni sagði ég (samskiptin fóru fram á ensku). Þær voru eitthvað efins um það og þá mundi ég eftir því að í vörubæklingi sem við eigum er skrifað nafn sölumanneskjunnar og undir því stendur Barcelona. Ég sýndi þeim bæklinginn og þegar þær sáu hann sögðu þær báðar "Aaa, Barþelona" með þvílíka spænska hreimnum, brostu og sögðu svo: "We are from Barcelona". Þá stóðst ég ekki mátið og svaraði: "And next saturday I am going to Barcelona". Það fannst þeim skemmtileg tilviljun og fóru sem sagt að segja mér frá tveimur búðum þar sem ég skyldi endilega skoða. Þær skrifuðu niður nöfnin á búðunum og staðsetningu, svo ég myndi nú örugglega finna þetta. Og áður en þær fóru létu þær mig hafa nöfn sín og símanúmer og okkur er velkomið að hafa samband við þær ef við þurfum einhverja aðstoð eða upplýsingar. Ekkert smá indælar.

mánudagur, 27. ágúst 2007

Nokkuð skemmtilegt gerðist í vinnunni í dag

Inn í búðina kom útlent par og þegar ég spurði hvort ég gæti aðstoðað sögðust þau bara vera að skoða. Stuttu síðar rak maðurinn auga í mæliskeiðar frá Dalla Piazza og spurði hvernig þær væru að seljast. "Bara ágætlega" svaraði ég og þá sagðist hann hafa hannað þær. Ég var nú eiginlega alveg hissa en tókst svona í grófum dráttum að halda andlitinu. Við spjölluðum töluvert saman og þau skoðuðu allt í búðinni, tóku myndir af sumu (með mínu leyfi) og keyptu líka nokkrar vörur. Alveg á fullu í vinnunni þó í fríi væru. Hann á vöruhönnunarfyrirtæki í New York og er núna að hanna vörulínu fyrir kokka. Það var rosa gaman að spjalla við þau og smá krydd í tilveruna að fá að hitta "hönnuðinn bak við vöruna". Hann hrósaði líka búðinni og úrvalinu hjá okkur, sagði að þetta væru "high end" vörur, svo ekki spillti það nú fyrir :-)

sunnudagur, 26. ágúst 2007

Gaman þegar vel gengur

Já, Ísak og félagar í 5. flokki KA gerðu sér lítið fyrir og komust áfram á Íslandsmótinu og keppa því við FH um Íslandsmeistaratitilinn í Reykjavík um næstu helgi. Það er aðeins einn galli á gjöf Njarðar, fyrirliðinn sjálfur er að fara til Barcelona með foreldrum sínum og því lítur allt út fyrir að hann geti ekki keppt úrslitaleikinn. Fyrst átti leikurinn að fara fram á fimmtudegi en var frestað til helgarinnar en nákvæmur leiktími er enn ekki á hreinu.

En hvernig sem úrslitin verða þá eru strákarnir þegar sigurvegarar í mínum huga því þeir unnu Völsung í gær (sem þeir höfðu áður tapað fyrir) og í dag kepptu þeir við Fylki (sem þeir töpuðu fyrir 1-5 á föstudaginn) og börðust eins og ljón allan tímann og voru ráðandi aðilinn í leiknum sem endaði með jafntefli. Það var mikil gleði ríkjandi á KA vellinum þegar ljóst var að strákarnir voru komnir í úrslit, kátir strákar og stoltir foreldrar sem samglöddust afkvæmunum. Þjálfararnir sjá nú fram á að þurfa að snoða sig - höfðu víst heitið því ef svona færi ;-)

En það er svo merkilegt með það að þegar við pöntuðum ferðina út héldum við að hún myndi ekki rekast á neitt nema skólann hjá Ísak en eins og staðan er núna þá missir Andri af æfingabúðum á Selfossi í handboltanum og Ísak missir hugsanlega af því að leika með liðinu sínu. Nú er bara að vona að æfingabúðunum verði frestað og fótboltaleikurinn verði snemma á laugardeginum (flugið til Barcelona fer kl. 16.40) ...

laugardagur, 25. ágúst 2007

Byrjaði daginn á því að liggja í leti

eða allavega vera löt, þó ég lægi kannski ekki í rúminu nema til klukkan níu. Ísak var að fara að spila fótboltaleik og ég nennti ekki að gera neitt gáfulegt þar til leikurinn byrjaði. Hélt reyndar að það væri um ellefuleytið en þegar betur var að gáð þá hófst hann ekki fyrr en 12.50. Þannig að ég hafði nægan tíma í mínu letikasti. Gáði til veðurs áður en ég fór á leikinn og sá engin rigningarský nema langt í burtu í norðrinu, svo ég sleppti því að fara í regnjakka og lét leðurjakkann duga. Veðurspárhæfileikar mínir reyndust hins vegar frekar endasleppir í þetta sinn, þegar leikurinn var um það bil hálfnaður skall á kröftug norðanátt og úrhellisrigning og regnjakkinn hefði komið í góðar þarfir. En KA strákarnir létu rigninguna ekki slá sig út af laginu, voru aldeilis í essinu sínu í leiknum og skoruðu 10 mörk, þar af skoraði Ísak tvö. Þannig að þeir eru komnir í áttaliða úrslit í Íslandsmótinu og keppa við Völsung í fyrramálið kl. tíu.

Annars hafði ég mælt mér mót við vinkonu mína seinnipartinn, við ætluðum að kíkja á dagskrá Akureyrarvöku, sem við og gerðum. Þá var að vísu hætt að rigna en ég dúðaði mig í flíspeysu og regnjakka þrátt fyrir það. Við röltum um miðbæinn, frekar stefulaust og kíktum inn þar sem okkur datt í hug. Það var svo sem ekkert sérstakt sem vakti athygli mína öðru fremur og vinkonan varð fljótt þreytt því hún er með brjósklos í bakinu. Þannig að við fórum heim til hennar og spjölluðum yfir kaffi/tebolla í góða stund.

Ég átti samt eftir að fá meiri félagsskap því um kvöldmatarleytið hringdi síminn og kona spurði mig hvort ég vissi hver hún væri. Mér heyrðist þetta vera Didda, mamma stráks í bekknum hans Ísaks, en ekki var það nú rétt hjá mér. Kannski ekki skrýtið að ég skyldi ekki þekkja röddina því þetta var hún Helga (sem bjó í Tromsö um leið og við en býr nú á Sauðárkróki) og ég hef ekki hitt hana nema ca. þrisvar síðustu 12 árin. En hún var sem sagt stödd á Akureyri og kíkti í heimsókn. Það var virkilega gaman að fá hana og við röbbuðum lengi saman. Þegar við bjuggum í Tromsö þá komu hinir Íslendingarnir í stað stórfjölskyldunnar og samskiptin voru mikil en rofnuðu því miður eftir að heim kom. En þrátt fyrir að langur tími líði á milli þá er alltaf jafn gaman að hittast og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Ef einhvern skyldi undra að ég hef hvergi minnst á eiginmanninn í tengslum við þessa upptalningu á viðburðum dagsins þá er það vegna þess að hann er farinn í síðustu veiðiferð sumarsins og verður fram á mánudag.

Hér með læt ég þessu maraþonbloggi lokið og sleppi því að birta nokkrar ljósmyndir í þetta sinn :-)

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Ég fór í einn eina göngu/ljósmyndaferðina í gær


Síðdegi, originally uploaded by Guðný Pálína.

og prófaði aðra linsu en ég hef verið með. Átti í smá erfiðleikum með að nota hana til að byrja með en svo gekk það smám saman betur. Í þetta sinn fór ég uppá Glerárdal og gekk aðeins uppí brekkurnar, svona eins og ég væri að fara að ganga á Súlur. Þar var hellingur af aðalbláberjum og ég stóðst ekki mátið og tíndi í munninn en hafði því miður ekkert ílát undir þau. Spurning að drífa sig aftur fljótlega áður en þau klárast öll. Þegar ég var að fara var kona komin í berjamó.

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Sit hér og færi bókhald

en það er nokkuð sem mér hefði aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að sinna. Fannst bókhald ein af leiðinlegri námsgreinunum í háskólanum og þar fyrir utan þá var okkur bara kenndur ákveðinn grunnur og allt saman fært í höndunum, þannig að mér fannst ég eiginlega ekki kunna neitt að áfanganum loknum. En eitthvað hefur þó greinilega setið eftir og hluti vinnunni minni felst í að færa bókhaldið fyrir Potta og prik. Svona er þetta víst, engin veit sína ævina fyrr en öll er :-)

Handan götunnar hamast iðnaðarmenn við að reisa nýtt menningarhús okkar Akureyringa, með tilheyrand hávaða og látum. Hávaðinn er mismikill en ég tók eftir því áðan þegar allt hljóðnaði (þeir hafa farið í hádegismat) hvað hann er samt alltaf í bakgrunninum. Svolítið lýjandi stundum.

Annars er Hrefna að fljúga út til Danmerkur í dag og er smá taugatitringur í gangi vegna þess. Það er pínu erfitt að yfirgefa fjölskylduna og föðurlandið en það gengur nú örugglega fljótt yfir þegar hún er komin út og byrjuð í skólanum aftur.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Vinstra megin - ekki hægra megin

Andri var svo góður að benda mömmu sinni á að hún hafði ruglað saman hægri og vinstri í pistlinum hér á undan. Tenglarnir á mataruppskriftirnar eru sem sagt vinstra megin á síðunni ásamt öðrum tenglum en ekki hægra megin eins og ég sagði. Einhverra hluta vegna geri ég stundum þessa vitleysu, þ.e. rugla saman hægri og vinstri, skil ekkert í því.

sunnudagur, 19. ágúst 2007

Sumarið senn á enda...

eða þannig. Sumarfríið er amk. á enda hjá mörgum, skólinn byrjar hjá fótboltastráknum á þriðjudaginn, læknaneminn fer aftur út til Köben á miðvikudaginn og þrátt fyrir hlýindi í dag þá er að verða hálf haustlegt eitthvað (æ, eða kannski fannst mér það bara í norðanáttinni sem hefur verið ríkjandi undanfarið). Sumar plöntur í garðinum eru þó enn í fullum blóma og minna mann á að það er misjafnt hvenær plöntur (og fólk) blómstra. Sumir eru bara seinni til en aðrir og það þarf ekki að vera neitt slæmt.

Valur hefur verið á fullu við að prófa nýjar uppskriftir í sumar og í kvöld fáum við mexíkóskar kjötbollur. Það er alltaf gaman að prófa nýja rétti og hann hefur auglýst eftir uppástungum frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Kjötbollurnar voru sem sagt eiginlega mín hugmynd, Hrefna er búin að koma með uppskrift að afrískum kjúklingarétti, Valur sjálfur hefur komið með marga nýja rétti en Andri og Ísak eiga ennþá eftir að leggja sitt af mörkum. Í tilefni af þessum endurnýjaða matreiðsluáhuga setti ég inn nokkra tengla á matarvefi hér til hægri. Kannski maður finni eitthvað sniðugt þar?

föstudagur, 17. ágúst 2007

Friðsæld


Friðsæld, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hundatjörn (held ég að hún heiti) í Krossanesborgum.

Hef verið dugleg að fara út að ganga undanfarið

og finn hvað það gerir mér gott. Samt svolítið skrýtið eiginlega, að það hefur mun meiri/betri áhrif á mig að ganga úti á víðavangi heldur en t.d. á göngustígunum í Kjarnaskógi. Skil það ekki alveg því maður er jú úti í náttúrunni í báðum tilvikum. Ég fór reyndar í Kjarnaskóg í gær en gekk uppá klettana fyrir ofan skóginn og vappaði þar um í góða stund. Um daginn fór ég upp í Fálkafell og í morgun fór ég í Krossanesborgir. Nú vantar mig bara uppástungur að fleiri gönguleiðum hér í nágrenni bæjarins :-) Þetta væri þó ennþá betra ef skrokkurinn á mér væri ekki alveg svona mikill gallagripur. Hægra hnéð hefur verið að hrella mig í sumar (alveg frá því ég gerði tilraunir með að fara út a skokka) og er núna bólgið (að aftan, takið eftir því, finnst það hálf undarlegur staður).

Annars er ég í vinnunni, rólegt akkúrat í augnablikinu, en búin að hafa nóg að gera í dag og í gær við að selja Magnaða moppuskaftið. Við auglýstum það í síðustu Extra sjónvarpsdagskrá og fengum þvílíku viðbrögðin. Aldeilis ánægjulegt. En nú er best að hætta þessu rausi og fara að vinna.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Eltingaleikur


Eltingaleikur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Það var rosa stuð hjá þeim :-)

Hrafnaflug


Hrafnaflug, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór út að ganga í dag á meðan Valur var að elda matinn (ég er sem sagt alveg eins og kallarnir í gamla daga sem mættu bara á svæðið þegar maturinn var tilbúinn). Langaði að komast út í náttúruna og ákvað að ganga upp í Fálkafell. Fór ekki beinustu leið heldur vappaði á milli þúfna og tók myndir af ýmsu sem fyrir augu bar. Reyndar tókst mér að gleyma húfu og vettlingum heima en var svo heppin að hitta konu sem ég vann með í Heimahjúkrun fyrir tuttugu árum síðan og hún lánaði mér eyrnaband og bjargaði mér alveg. Það var nefnilega ansi napurt í norðanáttinni því hitinn var ekki nema 8 gráður. En sem sagt, þarna átti ég bara góða stund með sjálfri mér og myndavélinni (sem var nú að stríða mér, fæstar myndirnar voru í fókus, það sá ég þegar heim var komið).

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Afrekaði að sofa til klukkan ellefu

(ef afrek skyldi teljast) og hef verið eins og klessa það sem af er degi af þeim sökum. Var undirlögð í skrokknum og voða lúin eitthvað og nennti engan veginn að keyra á Krókinn til að vera viðstödd seinni mótsdaginnn. Fékk svo samviskubit yfir því, þannig að það var svolítið erfitt að vera til í smá tíma í dag. Ákvað að rífa mig upp úr þessum aumingjaskap og dreif mig í sund þó ég nennti því engan veginn. Það var samt virkilega gaman því þar hitti ég stelpu (hm, eða konu, allt eftir því hvernig á það er litið) sem ég æfði með sund í gamla daga. Hef ekki séð hana síðan þá, held ég bara. Mér tókst með herkjum að synda minn venjulega skammt og kom uppúr lauginni ögn hressari en ég fór ofan í hana. Kom heim og borðaði skyr með miklum rjóma og linsoðið egg (spurning hvort það er ellimerki - hef aldrei getað hugsað mér að borða linsoðin egg fyrr en núna nýlega) og tók svo góðan skurk í eldhúsinu. Tók úr uppþvottavélinni, setti í hana aftur, þurrkaði af borði og bekkjum og á bara eftir að ryksuga. Þurfti smá pásu áður en ég vind mér í þá iðju. Það þarf nefnilega að ryksuga alla efri hæðina, ekki bara eldhúsið. Meira hvað þetta ryk skal alltaf koma aftur og aftur...

laugardagur, 11. ágúst 2007

Vinna, Króksmót og lengri leiðin heim

var þema dagsins hjá mér. Ísak lagði af stað á Króksmót (fótboltamót sem haldið er á Sauðárkróki eins og nafnið gefur til kynna) fyrir sjö í morgun en hvorugt okkar foreldranna fylgdi honum þá. Valur var að fara að veiða í Fnjóská og ég var að fara að vinna. Mér fannst samt ótækt annað en sjá einhverja leiki, svo ég fékk hana Önnu (sumarafleysingakonu hjá okkur) til að leysa mig af í vinnuni klukkan hálf eitt. Áður en ég lagði af stað á Krókinn kom ég við í hverfisbúðinni á eyrinni (sem ágætur Pólverji er búinn að blása lífi í að nýju) og keypti mér orkudrykk og pólkst sælgæti, einhvers konar afbrigði af Prins pólói, nema hvað þetta var með karamellubragði. Þetta bjargaði mér reyndar alveg á leiðinni því ég hafði smurt mér nesti en tókst að gleyma því í vinnunni... alltaf jafn "bright".
Ísak var glaður að sjá mömmu sína og ég horfði á tvo leiki og þeir þá unnu báða. Eru efstir í sínum riðli eftir daginn. Svo gerði ég tilraun til að heimsækja konu sem ég þekki á Króknum en hún var ekki heima og þá lagði ég í hann aftur til Akureyrar. Datt í hug að það gæti verið gaman að keyra aðra leið heim og fór sem sagt Fljótin og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Það var rigning og súld á leiðinni en samt svakalega fallegt um að litast og ég saknaði þess að hafa ekki myndavélina meðferðis. Á Ólafsfirði gerði ég aðra misheppnaða tilraun til að heimsækja vinafólk en þegar það tókst ekki hélt ég áfram og í gegnum göngin. Þar var brjáluð traffík og ég komst að því að einbreið göng virka ekkert rosalega vel í mikilli umferð, var á taugum alla leið í gegn. Á Dalvík var allt troðið af fólki og bílum enda Fiskidagurinnn mikil nýafstaðinn og ég sniglaðist þar í gegn. Svo gekk nú umferðin betur til Akureyrar og heim er ég kommin í tómt hús, tja ekki alveg tómt reyndar, kettirnir fögnuðum mér eins og þeim einum er lagið :-)

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Svaf frameftir í morgun

og var bara ekkert eftir mig eftir gönguferðina (smá strengir í lærunum teljast varla með). Var að vinna seinni partinn en eftir kvöldmat fórum við Valur að vinna í garðinum við að reita arfa og snyrta svolítið til. Öll rigningin um daginn hafði afar vaxtarhvetjandi áhrif á arfann og tími til kominn að ráðast á hann. Mikið sem það er nú gott fyrir sálina að vinna í garðinum :-) Annars hefur þetta verið tíðindalítill dagur - er það ekki þannig að engar fréttir séu góðar fréttir?


Þessi mynd var tekin við upphaf gönguferðarinnar í gær, að bænum Hrauni í Öxnadal. Spurning hvort það mætti ekki snyrta grasið aðeins?

mánudagur, 6. ágúst 2007

Lét mig hafa það í dag

að lufsast upp að Hraunsvatni ásamt bóndanum. Ég var frekar þreytt þegar við lögðum af stað og þurfti virkilega að hafa fyrir því að hreyfa annan fótinn fram fyrir hinn megnið af leiðinni. Við fórum upp hjá bænum Hrauni í Öxnadal, beint af augum upp þúfur, hóla og hæðir og það tók okkur töluverðan tíma að komast að vatninu. Valur var með GPS tæki með sér og mældi leiðina, ég ætlaði varla að trúa því að þetta hefðu bara verið 2,6 kílómetrar en það er náttúrulega ekki sama hvort gengið er á jafnsléttu eða í hæðóttu landslagi.

Annað sem kom okkur á óvart var magn mýflugu á leiðinni og meira að segja Valur sem er öllu vanur í þeim efnum kommenteraði flugurnar oftar en einu sinni. En hann stóð sig eins og hetja að bíða eftir "gömlu" konunni sinni og sem sagt, við komumst alla leið. Fórum reyndar ekki alveg niður að vatninu, þar var hópur fólks og vð vorum svo mikilir félagsskítar að við nenntum ekki að hitta það.

Það varð úr að við gengum niður að Hálsi (mun styttri leið, tæpur kílómetri) og fengum okkur kvöldverð á veitingastaðnum Halastjörnunni. Í og með vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að ganga eitt skref til viðbótar en einnig vegna þess að Valur hefur í allt sumar hugsað sér gott til glóðarinnar að borða þarna. Það var vel tekið á móti okkur, jafnvel þó við útskýrðum að við værum peningalaus, bíllinn með peningaveskinu væri á næsta bæ, og við fengum afskaplega ljúffengan mat. Eftir matinn skutlaði veitingamaðurinn Val yfir að Hrauni á meðan ég beið og drakk te. Svo gerðum við upp skuldir okkar og ókum heim í kvöldsólinni.

Á Hjalteyri


Matching red, originally uploaded by Guðný Pálína.

Við Valur fórum í ljósmyndaferð út á Hjalteyri í gærdag. Hann var með þrífót og gerði alls kyns tilraunir inni í yfirgefnu verksmiðjuhúsi en ég var á ferðinni úti við þar sem ég tók m.a. þessa mynd. Það var algjör tilviljun að rauðklædd kona birtist hjá vitanum einmitt þegar ég var að taka myndir af honum, en rauði jakkinn hennar tónar flott við rauða litinn á vitanum :-)

föstudagur, 3. ágúst 2007

Gaman í vinnunni

Það hefur verið stríður straumur fólks í Potta og prik undanfarnar vikur og ekkert nema jákvætt um það að segja. Margir eru að koma í fyrsta skipti en svo erum við líka komnar með svokallaða fastakúnna, þ.e. trygga viðskiptavini, og það er alveg frábært. Og það er svo skemmtilegt að vera í vinnunni þegar er mikið að gera. Maður fær tækifæri til að spjalla við fullt af fólki og fyrir manneskju eins og mig, sem hefur gaman af því að hitta fólk, þá er þetta draumastarf :-)

Tíminn flýgur víst ekki alveg svona hratt...

Ég bætti við einu ári í gær þegar ég sagði að við hjónin hefðum verið gift í 18 ár, þau eru víst bara 17. Miðaði við aldurinn á Andra og fannst allt í einu sem sonurinn væri orðinn ári eldri en hann er. Heilastarfsemin ekki alveg uppá sitt besta...

Annars var afmæliskaffi í gærkvöldi og við steingleymdum að taka myndir. Þetta er náttúrulega engin frammistaða! En þar voru bóndanum færðar ýmsar gjafir og má segja að hæst hafi borið ullarsokkar og gúmmískór sem Kiddi og Sunna færðu honum :-)

Og svo ég fari nú úr einu í annað þá er ég að reyna að herða mig upp í að taka morgunskammtinn af lýsi. Ég er tiltölulega nýbyrjuð á því, tók reyndar fyrst fiskiolíu frá sama fyrirtæki en ætlaði svo að færa mig yfir í lýsið. Hryllir bara svo mikið við því að mér verður eiginlega hálf óglatt bara að hugsa um að taka það. Spurning að færa sig aftur yfir í fiskiolíuna, hún er ekki alveg jafn slæm á bragðið.

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Önnur mynd af afmælisbarninu...


Þessi er tekin í Rússlandi og mikil er hamingjan að vera úti í náttúrunni og veiða :-)

Hann á afmæli í dag,


Valur, originally uploaded by Guðný Pálína.

hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli hann Valur,
hann á afmæli í dag.

Til hamingju með afmælið minn kæri :-)

Hér sést eiginmaðurinn á þeim stað sem hann kann best við sig, þ.e. úti í náttúrunni. Að vísu ekki við veiðiá, heldur er myndin tekin rétt hjá Hraunhafnartangavita á Melrakkasléttu, í dagsferð þangað í ágúst 2005.

Já, og svo eigum við hjónin víst 18 ára brúðkaupsafmæli í dag, það sem tíminn flýgur!