þriðjudagur, 16. janúar 2007

Ísak hefur verið í fríi

frá skólanum síðustu daga og þess vegna hef ég látið það eftir mér að sofa lengur á morgnana. Sem hefur þau áhrif að ég verð hálf skrýtin öll eitthvað, líklega af því ég byrja ekki daginn á því að fara í sund eins og ég er vön. Í morgun t.d. svaf ég til níu og þegar ég kíkti á hitamælinn og sá að það var 14 stiga frost úti þá nennti ég alls ekki að labba niður í sundlaug. Hafði nefnilega verið svo "góð" að leyfa Val að fara á bílnum í vinnuna - og þrátt fyrir að hafa oft gengið heim úr sundi með blautt hárið í miklu frosti þegar ég var krakki (og leikið mér að því að sjúga klakadrönglana sem mynduðust í hárinu) - og þrátt fyrir undur nútímans, hárþurrkuna, þá nennti ég samt ekki í sund. Vissi líka sem var, að ég hafði verk að vinna, nefnilega að baka köku. Í dag eru foreldraviðtöl í Lundarskóla og sú hefð hefur myndast að sjöttubekkingar sjái um kaffisölu til að safna fyrir Reykjaferð næsta haust. Hafði ég fengið þau fyrirmæli að baka "eitthvað sætt". Ég var samt ekki að nenna því að baka og íhugaði mjög alvarlega að kaupa bara köku í næsta bakaríi. Einhvern veginn fannst mér það samt ekki raunhæfur möguleiki, ég var jú í fríi heima og hafði ekkert betra að gera en baka. Ákvað að baka eitthvað sem væri afar einfalt og fljótlegt. En það var alveg sama hvernig ég fletti uppskriftabókunum mínum, mig langaði ekki að baka neitt af því sem ég sá. Var á tímabili að spá í að gera bara muffins, en endaði svo loks á því að baka þessa fínu súkkulaðiköku, sem ég tími varla að fara með í skólann... En nú þarf ég að drífa mig í sturtu svo ég komist á réttum tíma í foreldraviðtalið :-)

Engin ummæli: