sunnudagur, 7. janúar 2007

Gæti sjálfsagt sofið endalaust

svona í myrkasta skammdeginu ef mín biðu ekki ýmis verkefni virka daga s.s. að koma strákunum á fætur og mæta sjálf í vinnu. Um helgar eru færri verkefni sem bíða þannig að ég leyfi mér að sofa frameftir þó ég viti að ég hafi í rauninni ekki sérlega gott af því. Var t.d. að vakna núna, klukkan orðin hálf tíu og mér líður eins og stór trukkur hafi keyrt yfir mig. Valur farinn í sína vinnu (en ætti reyndar að koma heim fljótlega aftur ef ekkert sérstakt er í gangi), úti er dimmt og smá él, strákarnir sofa báðir ennþá og ég hefði gott af því að drífa mig í sund en er varla að nenna því þessa stundina. Kettirnir eru hins vegar vel vakandi, búnir að fá mat í magann en treystu sér ekki út þegar þeim var boðið það. Eru samt fullir orku og fá útrás fyrir hana með því að pirra hvort annað.

Þetta var stöðuskýrsla úr Stekkjargerði 7 klukkan 9.40 sunnudagsmorguninn 7. janúar 2007.

Engin ummæli: