mánudagur, 8. janúar 2007

Mikið rosalega sem mig langaði að sofa lengur

í morgun. Vaknaði við bröltið í eiginmanninum frammi í eldhúsi og fór næstum því í vont skap þegar ég áttaði mig á því að það væri virkur dagur og ég þyrfti að fara á fætur innan stundar.  Það er spurning hvort ég verð ekki að auka skammtana í dagsbirtulampanum mínum? En eins og lög gera ráð fyrir þá fór ég á fætur og dreif mig í sund eftir að hafa dröslað drengjum tveim á fætur líka. Sem betur fer segi ég nú bara því annars hefði ég misst af þessu fína hrósi í búningsklefanum eftir sund. Fyrst spurði ein konan hvernig stæði á því að ég væri ekki að auglýsa örtrefjahandklæðin í sundinu, þetta væru svo frábær handklæði (hún var nýbúin að fá sér svoleiðis) og þá kom sú næsta og sagði að fiskibeinaplokkarinn sem ég hefði selt sér væri mjög góður, það mætti alveg mæla með honum. Síðan blandaði sú þriðja sér í umræðurnar og sagði að hún hefði komið þrisvar í búðina fyrir jólin og hún væri sérlega ánægð með burstann til að þrífa vínkaröflur. Þegar hér var komið sögu sagði sú fjórða að það væri alveg ljóst, hún yrði að fara að drífa sig í Potta og prik!

Já, þetta var virkilega skemmtileg byrjun á deginum og gaman hvað fólk er jákvætt út í búðina. Nokkuð sem setur náttúrulega enn meiri pressu á okkur að standa okkur í að koma stöðugt með nýjar vörur og vandaðar en það er hið besta mál.

Engin ummæli: