þriðjudagur, 17. október 2006

Það reyndist erfiðara en ég hélt

að finna garn og uppskrift að peysu. Það eru þrjá verslanir á Akureyri sem selja slíkar vörur og ég komst að því í gær að þær eru með nánast sama úrval af garni og uppskriftablöðum. Fann ekkert sem mig langaði í, a.m.k. enga uppskrift að peysu á mig. Fann fallegar smábarnauppskriftir en þar sem ég á ekkert lítið barn og mér vitanlega er ekkert slíkt á leiðinni hjá öðrum fjölskyldumeðlimum þá voru þær uppskriftir ekki alveg að gera sig fyrir mig. Ein vinkona mín á reyndar lítið barn en hún erfir prjónafatnað í stórum stíl frá frænkum sínum svo ekki vil ég bæta á það.

Það var ekki fyrr en mér datt í hug að fara á netið (já já hefði sjálfsagt átt að byrja á því, liggur í augum uppi) að ég fann peysuuppskrift sem mér líst á. Þær má finna í hundraðatali inni á Garnstudio.com og Anna systir var örugglega búin að segja mér frá því einhvern tímann en ég og mitt gullfiskaminni náðum ekki að muna eftir því. Alla vega, ég fann peysu og Anna er búin að lýsa sig reiðubúna að kaupa viðeigandi garn í Noregi þannig að nú er mér ekkert að vanbúnaði.

Í leit minni að prjónauppskriftum (sem byrjaði inni á síðu Vestanpóstsins) þá rakst ég á mörg skemmtileg prjónablogg og verða bara að segja: "Mikið ósköp sem margar konur eru duglegar!"

Engin ummæli: