miðvikudagur, 11. október 2006

Kostir og gallar

fylgja nánast öllu, þ.e. yfirleitt er hægt að finna bæð eitthvað jákvætt og neikvætt við flesta hluti.

Þar sem ég byrja oft ekki að vinna fyrr en milli kl. 9 og 10 og stundum ekki fyrr en kl. 14 þá þarf ég ekki lengur að drífa mig í sund jafn snemma og ég gerði í fyrravetur. Þá stefndi ég yfirleitt að því að vera komin út úr húsi í síðasta lagi kl. 7.40 en núna er ég 20-30 mínútum seinna í því.

Kosturinn er sá að núna hef ég laugina nánast út af fyrir mig (a.m.k. heila braut alein). Það er gott því þá get ég synt flugsund en núna reyni ég alltaf að enda á því að taka nokkrar flugsundsferðir. Ástæðan? Jú, það styrkir bæði maga- og rassvöðva. Ég áttaði mig nefnilega á því að síðan ég byrjaði að synda reglulega (skriðsund með froskalappir) styrktust lærvöðvarnir all verulega en ýmsir aðrir vöðvar ekki neitt. Þannig að ég keypti mér líka "blöðkur" á hendurnar til að styrkja handleggsvöðvana og svo fattaði ég að flugsundið væri gott fyrir áðurnefnda vöðva. Tel mig ná að dekka það helsta með þessu...

Gallinn er sá að núna missi ég af því að hlusta á konurnar skvaldra í búningsklefanum, þær eru flestar farnar þegar ég kem uppúr.

Þannig að nú þarf ég að velja hvort ég met meira, að sleppa við að synda í braut með 2-3 öðrum (hver og einn á sínum hraða), eða að hafa félagsskap skemmtilegra kvenna. En það viðurkennist hér með að ég sakna þess ótrúlega mikið að hlusta á konurnar spjalla saman og taka þátt í samræðunum þegar svo ber undir. Þannig að líklega kem ég til með að vakna aðeins fyrr á morgnana og færa sundtímann fram um ca. 20 mínútur :-)

Fyrir utan flugsundið er ein önnur nýjung hjá mér í sundinu, ég tók upp á því að fara alltaf í kalda sturtu á eftir heita pottinum og gufunni. Mikið rosalega sem það er hressandi!

Engin ummæli: