þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Vantaði buxur í fjósið

Ég fór í Hagkaup í gær að svipast um eftir jólafötum á Ísak. Mér datt nefnilega í hug að vera einu sinni tímanlega í þessu, er yfirleitt á síðustu stundu með allt sem tengist jólunum. Nema hvað, þar sem ég stend og skoða jakkaföt, skyrtur, vesti ofl. kemur fjölskylda aðvífandi og mamman segir við son sinn að nú sé upplagt að skoða föt fyrir jólin. Hann er ca. 7-8 ára gamall og tekur vel í það. Sér fyrst standinn með flauelsjakkafötunum og fer að skoða dökkbláar flauelsbuxur vel og vandlega, svona eins og hann væri fæddur skraddari og væri að athuga hvort efnið væri nógu vandað og saumarnir nógu sterkir. Svo gellur allt í einu í honum "Mamma, þessar væru fínar í fjósið, mig vantar líka fjósbuxur". Hér mættust augu mín og mömmunnar og báðar brostu út í annað því tónninn í rödd stráksa var alveg óborganlegur. Það var eins og hann hefði fundið gull og gleðin eftir því. Sú gleði stóð reyndar ekki lengi því mamman var fljót að kippa honum niður á jörðina aftur og benda honum á að nú væru þau að leita að jólafötum. Hvernig þessu lyktaði veit ég ekki, kannski hafa þau keypt flauelsbuxurnar og komist að samkomulagi um að þegar þær væru búnar að gegna hlutverki sínu sem sparibuxur fengju þær nýtt hlutverk sem fjósbuxur ;O)

Engin ummæli: