mánudagur, 14. nóvember 2005

Er komin með

nýtt vinnuskrifborð hér heima - vá þvílíkur munur! Það er reyndar svolítið stórt, fyllir næstum upp í herbergið (bara næstum...) en það er L-laga og með yfirdrifnu plássi. Borðið sem ég var með var gamalt eldhúsborð, keypt í IKEA í Noregi fyrir ansi mörgum árum en það var nú búið að duga vel. Svo eftir að ég fékk nýtt skrifborð í vinnunni þá fann ég hvað var mikill munur að vera með svona almennilegt borð og ákvað að drífa bara í því að fá nýtt borð hérna heima líka. Nú vantar bara betri skrifborðsstól, sá sem ég sit á núna var keyptur á sama stað og eldhúsborðið og þjónaði því hlutverki að vera skrifborðsstóll Hrefnu lengi framan af. Hann er reyndar orðinn svo lélegur að maður fær í bakið innan nokkurra mínútna frá því maður sest í hann og Valur var kominn á fremsta hlunn með að henda honum í síðustu ferð á haugana.... En þetta kemur allt með kalda vatninu, gallinn er bara sá að það getur reynst þrautin þyngri að finna stól við hæfi, sérstaklega þar sem hann þarf helst að þola ketti (þeir halda nefnilega að skrifborðsstólar með ullaráklæði séu hugsaðir til að brýna klær á þeim). Þegar rétti stóllinn kemur í leitirnar þá er líka meiningin að unglingurinn á heimilnu noti þessa aðstöðu til að læra - og hætti þá að skilja skólabækurnar sínar eftir á stofuborðinu ;o)

Engin ummæli: