mánudagur, 26. janúar 2015

Mataræðis-pælingar


Annað slagið heyri ég sögur af fólki sem greinist með ofnæmi eða óþol fyrir glúteni og þarf að breyta mataræði sínu í kjölfarið. Þar sem ég hef sjálf gengið í gegnum svipað ferli datt mér í hug að setja hér inn smá samantekt á því hvernig þetta hefur gengið hjá mér.  
Eins og margir vita þá breytti ég mataræði mínu haustið 2011, í kjölfar ferðar til Noregs þar sem m.a voru teknar blóðprufur sem sýndu óþol gagnvart glúteni, mjólkurvörum og eggjum.  
Ég tók þetta föstum tökum og breytti mataræðinu nánast á einni nóttu. Það var ekki alveg einfalt mál, og vissulega óx mér þetta nokkuð í augum í byrjun, ekki síst vegna þess að á sama tíma var ég að prófa að borða samkvæmt High fat Low carb (mikil fita, lítil kolvetni) reglunum. Það flækti málið enn frekar að mega ekki borða egg þar sem þau eru oft notuð sem lyftiefni í glútenlaust brauð og kökur. Fyrstu vikurnar var þetta verulega flókið en svo smátt og smátt fann ég nýjar uppskriftir og nýjar leiðir við að gera hlutina. 
Varðandi glútenlausa mataræðið þá ákvað ég strax í upphafi að skipta ekki hveiti út fyrir annað fínmalað mjöl sem væri alveg jafn óhollt uppá blóðsykurinn að gera. Þannig að til að byrja með hætti ég að borða allt brauð og ef það eru t.d. hamborgarar í matinn þá sleppi ég brauðinu og borða bara „allsberan“ hamborgara ásamt beikoni, salati og dásamlega góðri sósu úr kasjúhnetum og spergilkáli. Þegar þau hin borða pasta þá gæti ég í sjálfu sér borðað glútenlaust pasta en ég ákvað að sleppa því bara alveg. Oftast borða ég þá bara salat og soðið grænmeti í staðinn, en einstaka sinnum nenni ég að búa til kúrbíts-spaghetti og það er mjög fínt. 
Það hefur verið aðeins meira bras að finna uppskrift að pítsudeigi sem ég er sátt við. Að vísu er hægt að kaupa tilbúna glútenlausa pítsubotna og ég hef stundum gert það, en finnst heimatilbúið alltaf betra. Þessi uppskrift hér, sem gerð er úr kínóa finnst mér sú besta sem ég hef prófað en hef að vísu bara gert hana einu sinni. 
Það sem mér fannst kannski erfiðast að passa uppá í sambandi við glútenið, er að það má finna í svo mörgu öðru en kornvörum. Glúten er innihaldsefni í ótrúlegustu tilbúnu matvörum og ef maður er virkilega viðkvæmur fyrir glúteni, þá þarf aldeilis að passa sig og lesa innihaldslýsingar. Allur tilbúinn pakkamatur, súpur, sósur, sósukraftur, lakkrís, meira að segja snyrtivörur geta innihaldið glúten. 
Ég saknaði þess að geta ekki borðað neitt með áleggi ofaná (maður er svo ótrúlega fastur í því að borða brauð með áleggi) og datt þá niður á það að baka frækex. Við Valur splæstum í þurrkofn og ég nota hann til að baka kexið en í raun er hægt að nota venjulegan bakaraofn. Í upphafi notaðist ég mikið við uppskrift sem er í bókinni hennar Kollu grasalæknis en núna er ég farin að grauta bara einhverju saman. Inni á vefsíðunni ljomandi.is er uppskrift að hrökkbrauði sem mér líst ágætlega á og hún notar bara venjulegan ofn. 
Eftir að hafa borðað frækex sem staðgengil fyrir brauð í rúmt ár, rakst ég á uppskrift að brauði á netinu sem ég prófaði og er enn að baka (ég nota glútenlaust haframjöl, passa það ef þið eruð með glútenóþol). Þessi uppskrift hentar mér mjög vel af því það eru hvorki egg né mjólkurvörur í henni. En þetta lítur út og smakkast eins og brauð ;) Upprunalega er þessi brauðuppskrift komin af bloggi sem heitir My new roots, og það er alveg svakalega flott blogg með alls konar heilsusamlegum uppskriftum og fallegum ljósmyndum, endilega kíkið á það. 
Morgunmaturinn var höfuðverkur í upphafi því ég var svo ákveðin í að taka út kolvetni að ég vildi ekki einu sinni borða haframjöl. Ég hafði verið byrjuð að borða egg og beikon í morgunmat (skv. lágkolvetna mataræðinu) þegar ég greindist með eggjaóþolið og til að byrja með þá skipti ég eggjunum út fyrir grænmeti. Steikti t.d. smá hvítkál og gulrætur og borðaði með beikoni. Þetta endist vel og lengi í maganum á mér af því ég passa uppá að steikja grænmetið uppúr kókosolíu og svo er jú fita í beikoninu. Það að fá næga fitu er mjög mikilvægt fyrir mig, minnkar þörfina fyrir sykur og ég er södd lengur. Og svona í „forbifarten“ af því margir þjást ennþá af óhóflegri hræðslu við að borða fitu, þá hef ég síðan haustið 2011 verið að borða nokkuð meiri fitu en nokkurn tímann áður og blóðprufur sem teknar voru af mér núna í haust sýna mjög góð kólesterólgildi. 
Á sumrin fæ ég mér mjög oft „búst“ á morgnana. Þá set ég frosin ber (hindber, skógarber, bláber, rifsber t.d.), hörfræolíu, kókosmjólk úr fernu eða möndlumjólk, hampfræ eða baunaprótein og kókosvatn í blandara og blanda þar til mjúkt. Þeir sem eru ekki með mjólkuróþol geta notað skyr eða mjólkurprótein í staðinn fyrir hampfræin/baunapróteinið. 
Ég fann líka uppskrift að kínóagraut sem ég borðaði á tímabili og var voða ánægð með hann eftir að ég vandist bragðinu. Núna er ég farin að borða glútenlaust haframjöl og þá fæ ég mér oft hafragraut á morgnana. Geri reyndar mína útgáfu af honum og blanda chiafræjum, hampfræjum, kasjúhnetum, kókosolíu, kanil og bláberjum saman við. Sannkallaður ofurgrautur ;) 
Varðandi morgunmat þá höfum við svo ótrúlega sterkar skoðanir á því hvað passar sem morgunmatur en í raun er þetta bara ein af þremur máltíðum dagsins og kornmatur (brauð, grautur, morgunkorn) þarf ekkert endilega að koma þar við sögu. Hér er t.d. hugmynd að 23 tegundum að morgunmat þar sem hefðbundið korn kemur ekki við sögu. Ef fólk er ekki í sérstöku lág-kolvetna-átaki þá er hægt að finna fullt af uppskriftum á netinu að glútenlausu brauði, kökum, kexi og alls konar gúmmelaði. 
Ég ákvað að líta jákvæðum augum á þetta með að breyta mataræðinu. Ekki bara hugsa það út frá því sem ég má ekki borða, heldur líta á þetta sem tækifæri til að borða hollan mat, með því að fókusera á það sem ég MÁ borða. Ég áttaði mig líka á því að með því að skoða uppskriftir sem flokkast undir t.d. hráfæði (alls konar girnilegar kökur t.d. og matur líka), grænmetisfæði (vegan), grainfree (ekkert korn), paleobasískt mataræði ofl. þá gat ég fundið alls konar mat sem ég mátti borða. Lágkolvetna mataræðið er oft með glútenlausar uppskriftir. 
Í heildina séð þá hef ég samt ekki verið nógu dugleg að gera eitthvað nýtt og spennandi, það verður að segjast eins og er. Netið er samt endalaus uppspretta hugmynda og síðan ég breytti mataræðinu hafa sprottið upp íslenskar bloggsíður þar sem hægt er að finna góðar uppskriftir. Café Sigrún er náttúrulega algjör snilld því þar er hægt að haka við innihaldsefni sem maður vill ekki nota og fá eingöngu fram uppskriftir sem eru án þeirra. Mér líst vel á ljomandi.isHeilsumamman.com er líka með glútenlausar (og mjólkurlausar) uppskriftir. Vanilla og lavenderLifðu til fullsGulurRauðurGrænnogSalt er með afskaplega girnilegar lágkolvetnauppskriftir sem ég þarf að skoða betur. 
Fyrsta árið eða svo var ég mjög hörð á því að fylgja mataræðinu og strax fyrstu mánuðina fann ég verulegan mun á mér. Sérstaklega skánaði ég af alls konar smá kvillum, sem þegar þeir safnast saman verða mjög hvimleiðir. Þetta eru einkenni eins og meltingartruflanir, bjúgur, svimi, stíflaðar nef- og kinnholur, slímmyndun,  sljóleiki yfir höfðinu (heilaþoka), eyrnasuð (kemur reyndar ennþá ef ég verð of þreytt) og hjartsláttartruflanir, svo eitthvað sé nefnt. Það er t.d. mikill munur að sjá ljósmynd af mér sem tekin var í desember, eftir að ég hafði fylgt þessu mataræði í ca. 3 mánuði, ég var öll frísklegri að sjá og ekki jafn bólgin, þrútin og líflaus í framan og ég hafði verið. 
Valur studdi mig 100% í þessu öllu og skipti það ekki litlu máli því hann sér um eldamennskuna á heimilinu. Það sem snýr mest að honum eru hlutir eins og að nota kókosolíu til að steikja uppúr (í staðinn fyrir smjör eða óhollari olíur), og kókosmjólk í staðinn fyrir kúamjólk/rjóma í súpur og sósur. Hann notar ekki lengur hveiti til að þykkja sósur en notar sósujafnara frá Himneskt. Við notum líka glútenfrían grænmetiskraft frá sama fyrirtæki. 
Síðustu tvö árin hef ég hins vegar slappast verulega í þessu öllu saman, því miður. Bæði vegna þess að það er flóknara að ferðast þegar maður er með svona sérþarfir, og svo ég er með sykurfíkn á háu stigi og um leið og ég sleppi mér lausri með bara t.d. eina kexköku eða tertusneið, þá er voðinn vís. Og samhliða sykri í kökum og sælgæti er ansi oft einnig að finna glúten, mjólkurvörur og egg, svo þá er ég að gúffa í mig öllu sem ég á ekki að vera að borða. Arg! 
Svo er það þannig að óþol virkar öðruvísi en ofnæmi. Ef ég væri með ofnæmi þá fengi ég tafarlaus viðbrögð við því sem ég er að borða en viðbrögð við mataróþoli koma oft ekki fyrr en 1-2 dögum síðar (eða enn seinna) og þá er erfiðara að tengja orsök og afleiðingu. Að vísu er það samt þannig að sykraðar mjólkurvörur orsaka uppþembu og rop samdægurs, og á tímabili klæjaði mig alltaf eftir að hafa borðað glúten, en ekki lengur. Það eru líka kenningar uppi um að glútenóþol valdi mun fleiri kvillum en bara meltingartengdum,  en það er erfiðara að átta sig á tengingunni milli þess að borða glúten og fá höfuðverk, eða verða þunglynd(ur) svo dæmi sé nefnt. 
Mig langar mikið að taka mataræðið fastari tökum á ný, því ég efast ekki um að það hefur töluvert að segja fyrir líðan mína. Ég er í heildina séð betri í skrokknum (minni vefjagigtarverkir) en þjáist enn af þreytu og er fljót að ofgera mér þó ég sé í raun „ekki að gera neitt“. Það væri gaman að geta orðið ennþá frískari og náð að byggja upp sterkan líkama. Andlega séð finnst mér ég líka vera stöðugri í skapi þegar ég borða 100% glútenlaust og lítinn sykur. Svo nú er bara að bretta uppá ermar og taka á því!!