föstudagur, 19. september 2014

Föstudagsraus

Raus segi ég af því ég hef svo sem ekkert sérstakt fram að færa. Langaði bara að blogga :) Með réttu hefðum við hjónin átt að vera í Reykjavík þegar þetta er skrifað en Fröken Vefjagigt kom í veg fyrir það. Greinilega ekki búin að sleppa af mér hendinni skömmin sú atarna. Nei, eins og Valur segir, vefjagigtarsjúklingum batnar víst aldrei, þeir eiga betri daga og betri tímabil en svo kemur alltaf að skuldadögum. Og eins og hann segir líka (réttilega) þá hef ég verið eins og drusla síðan 30. ágúst en þá fór ég á árgansmót. Þannig að þetta eru orðnar þrjár vikur núna ... Ég hef reyndar verið mis-hress eða öllu heldur mis-léleg en já ekki góð!!  
Síðustu 2-3 vikurnar hef ég líka verið á fullu að leita að haustfríi fyrir okkur Val og það hefur tekið ótrúlega mikið á taugarnar. Byrjaði ósköp sakleysislega samt. Jæja, ef ég byrja alveg á byrjuninni, þá vorum við upphaflega að spá í góða ferð til "Langtíburstistan" eins og t.d. Bali eða Taílands, í tilefni þess að ég verð fimmtug núna í nóvember. Ýmissa hluta vegna hættum við samt við þær fyrirætlanir og ákváðum í staðinn að fara í styttri ferð.  
Þá kom Hrefna með þá hugmynd að við gætum samtvinnað heimsókn til þeirra við fríið okkar og flogið áfram á áfangastað frá Kaupmannahöfn. Sem er náttúrulega hin besta hugmynd því þá fær Valur að sjá bæði nýju íbúðina þeirra og það sem mikilvægara er, að hitta Erik Valdemar Egilsson, son þeirra (og já ég er orðin amma og það á eftir að verða alveg sérstök bloggfærsla um það). Alla vega, þá byrjaði nú fjörið fyrir alvöru, því ekki var það einfaldast í heimi að ákveða með áfangastað. Við vorum að spá í Dubai, Madeira og fleiri staði en flugið þangað tók yfirleitt a.m.k. sex tíma og við vorum ekki að nenna að eyða tveimur heilum dögum í ferðalög. Svo var spurning að fara þá eitthvert einfalt eins og t.d. á sólarströnd í Afríku eða Kanarí ... en nei það var bara einhvern veginn ekki að höfða til okkar. Og sumir áfangastaðir eins og t.d. Lissabon eða Istanbúl voru komnir með of mikla rigningu/kulda á þeim tíma sem við vorum að hugsa um. 
Þannig að ég hélt áfram að hanga á netinu í tíma og ótíma til að skoða þetta og á endanum komst niðurstaða í málið. Við ætlum að fljúga til Malaga á Spáni og taka þar bílaleigubíl og keyra upp í fjöllin í Andalúsíu. Þar erum við búin að panta gistingu í 9 nætur í litlum póstkorta-fallegum bæ sem heitir Gaucin. Bærinn er nálægt öðrum bæ sem heitir Ronda og er samkvæmt Hrund (bróðurdóttur Vals sem bjó á Spáni í nokkur ár og fer þangað stundum sem fararstjóri) mjög skemmtilegur. Það var reyndar henni að þakka að ég pantaði íbúð á þessu svæði og við erum orðin mjög spennt að fara :-) 
Jamm og jæja, þetta föstudagsraus varð bara býsna langt hjá mér, og ég held ég láti gott heita. Þá er bara að finna einhverja fallega mynd til að láta fylgja þessum pistli ... 

miðvikudagur, 10. september 2014

Ferðasaga - Höfn í Hornafirði

Það var ekki fyrr en um miðjan júlí að við Valur komumst loks í fyrstu hjólhýsaferð sumarsins. Það var farið að taka á taugarnar að horfa á hjólhýsið úti á götu vikum saman án þess að geta notað það. En sem sagt, mánudagsmorguninn 14. júlí lögðum við í hann. Reyndar tók smá stund að græja allt sem taka þurfti með, en við vorum komin af stað um hádegisbilið minnir mig. Tókum stefnuna austur á bóginn, enda veðurspáin best þeim megin á landinu. Við stoppuðum á Egilsstöðum og fengum okkur kaffi en ókum síðan yfir Öxi til þess að spara okkur smá tíma, en komumst reyndar að því að það er ekkert sérlega sniðugt að aka með hjólhýsi yfir grófa fjallvegi;).  Enda þurfti að herða lausar skrúfur innan dyra og þvo að hjólhýsið að utanverðu eftir það ævintýri. Og á meðan Valur þvoði þá tók ég nokkrar myndir.


Við ætluðum að gista á Djúpavogi (þar sem myndirnar hér að ofan eru teknar) en þar var þoka og súld, sem var í sjálfu sér í góðu lagi, en tjaldstæðið var svo blautt eftir miklar rigningar að ekki var hægt að fara með hjólhýsið inná það. Þannig að við fengum okkur fisk og franskar í staðarsjoppunni og ókum svo áfram til Hafnar í Hornafirði. Það var svo flott veður á leiðinni, hæfilega þykk þoka og blankalogn, og okkur dauðlangaði að taka myndir en það var ekki hægt að stoppa á þröngum veginum með hjólhýsið í eftirdragi. 
Við gistum 4 nætur á tjaldstæðinu á Höfn. Fyrsta daginn vöknuðum við í þokkalegu veðri og sólin skein meira að segja til að byrja með. Eftir morgunmat drifum við okkur í smá útsýnis-rúnt um bæinn, sem er afskaplega snyrtilegur og umhverfið allt hið fallegasta.

Fljótlega fór samt að rigna og eftir það notuðum við tímann mestmegnis í afslöppun og notalegheit. Við fengum okkur að borða á veitingastað í hádeginu, fórum á listasafn og bókasafnið. Um kvöldið eldaði Valur mat í hjólhýsinu og síðan fórum við í langan göngutúr í rigningunni. Það stytti reyndar upp þegar nær dró miðnætti og þá mátti sjá þessa fallegu fjallasýn frá tjaldstæðinu.
Á miðvikudeginum var mun betra veður og við ókum aftur til baka, á þær slóðir sem okkur hafði fundist svo fallegt á, þegar við vorum á leiðinni milli Djúpavogs og Hafnar. Myndavélarnar voru með í för og við stoppuðum lengi á nokkrum stöðum, nutum útiverunnar og tókum fullt af myndum. Við erum búin að venja okkur á að taka alltaf með nóg af nesti í svona dagsferðir og það er alltaf jafn gott að taka sér nestispásur :-) Eins og ég sagði hér að ofan þá tók ég fullt af myndum og hér kemur smá sýnishorn:








Það blés nú býsna hraustlega á köflum og gott að það varð ekki ennþá hvassara. Einhver lét þó hvorki íslenskan sumar„hita“ né rok hafa áhrif á sig og dreif sig í sjóbað. Ég stóðst ekki mátið að taka mynd af manninum úr fjarska. 
Góður dagur endaði aldeilis vel því um kvöldið eldaði Valur aftur mat, í þetta sinn fjallableikju með glænýjum hornfirskum kartöflum, sem bragðaðist dásamlega. 
Á fimmtudeginum var yndislegt veður, sól og blíða. Við fórum nokkuð snemma af stað og vorum á flakki lungann úr deginum. Mamma er fædd og uppalin að Rauðabergi á Mýrum og við byrjuðum á því að skoða heimaslóðir hennar. Mamma fæddist í torfkofa en einhverjum árum síðar byggði fjölskyldan steinhús, þetta sem sést hér á myndinni. Það er löngu farið í eyði en nýrri bær er rétt við hliðina á því. Þar býr enginn eins og er.




Þarna til hægri má sjá upp að Haukafelli en þar er nú skógrækt mikil og útivistarsvæði. Við fórum ekki þangað, en þegar mamma var ung þá fóru þau á engjar á þetta svæði (ef ég man rétt). Þar til vinstri handar er svo Fláajökull, en hann hefur hopað töluvert frá því sem var þegar mamma var ung. 
Eftir að hafa skoðað Rauðaberg fórum við næst að Jökulsárlóni. Við stoppuðum reyndar á leiðinni á stað sem ég man ekki hvað heitir, en þar var svo fallega grá-blá-lituð jökulá og fallegt umhverfi.

Við Jökulsárlón var margt um manninn eins og við mátti búast. Ég hef ekki komið þangað síðan ég var um tvítugt og mig minnti einhvern veginn að lónið eða umhverfið hefði litið allt öðru vísi út. Skrítið hvernig minnið getur svikið mann. En þarna er mikil ferðamanna-útgerð og nóg að gera við að fara með ferðafólk í siglingar um lónið.



Þetta litla hús til vinstri er eina þjónustuhúsið á svæðinu. Þar er kaffihús og salerni og heil tvö klósett fyrir konur, enda var löng biðröð eftir að komast á klósettið. 
Eftir að hafa skoðað okkur um við Jökulsárlón ókum við aftur í áttina til Hafnar. Fyrst stoppuðum við að Hala í Suðursveit, þar sem nýlega er búið að reisa safn til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni. Við vorum svo ókúltiveruð að við slepptum því að skoða safnið, en létum okkur nægja að kaupa okkur kaffi og köku og setjast niður á kaffihúsinu. Safnið er skemmtilega hannað, að minnsta kosti séð utan frá.
Næsta stopp var svo uppi við Fláajökul. Við sáum afleggjara frá aðalveginum og fylgdum honum, nánast alveg upp að jökulbrúninni. Þar er greinilega búið að vinna mikið í að gera svæðið aðgengilegt og skemmtilegt fyrir ferðafólk, og meðal annars merktar gönguleiðir með fræðsluskiltum. Fyrst var þarna ungt par í viðbót við okkur en svo fóru þau og við vorum alein á svæðinu. Það er algjör lúxus í nútíma ferðamennsku að geta verið aleinn einhvers staðar, bara í náttúrunni og heyra ekkert nema hljóðin í vindinum eða einstaka fugli.

Við vorum töluverða stund þarna við jökulinn og borðuðum meðal annars nestið okkar sitjandi í skottinu á jeppanum, því þrátt fyrir sól á köflum þá blés svo hraustlega að það var gott að leggja bílnum upp í vindinn til að hafa skjól meðan við borðuðum.  
Síðasta stopp þennan dag var í Eskey, en það varð mjög stutt þar sem ég var orðin skelfilega þreytt eftir daginn. Meðfylgjandi mynd er tekin þar úti en horft er upp í átt að Mýrunum.
Um kvöldið byrjaði svo að rigna aftur og þar sem það var bara rigning í kortunum þá ákváðum við að fara aftur heim til Akureyrar í stað þess að halda áfram suður á bóginn. Enda kannski eins gott því bensínið var alveg búið á tankinum hjá mér og eftir 5 daga ferðalag þurfti ég 5 daga hvíld og gott betur. 
Jæja þetta varð sannkölluð maraþon-bloggfærsla og kannski ekki skrítið að ég hafi þurft langan tíma í þetta verkefni. Hugsanlega hefði verið gáfulegra að skipta þessu niður í styttri búta, en ég held ég nenni ekki að hugsa um það núna ... ;-)

þriðjudagur, 9. september 2014

Færðist of mikið í fang

Eftir svona langt hlé þá kastar maður greinilega ekki nýjum pistli framúr erminni eins og ekkert sé ;-) Í gær lofaði ég því að í dag kæmi ný bloggfærsla og ég sat með sveittan skallann við að skrifa ferðasögu frá því í sumar, en náði ekki að klára. Var bara orðin þreytt í höfðinu, með vöðvabólgu og öll stíf og ómöguleg, svo ég ákvað að segja þetta gott í bili. Það sem tekur svona langan tíma er að finna myndir og setja á bloggið. Ég tók nefnilega svo margar myndir og þá þarf að velja úr fjöldanum, vinna þær aðeins, flytja þær út úr myndvinnsluforritinu og inná bloggið ... og þetta tekur bara ótrúlega langan tíma allt saman. Þannig að ég bara verð að klára dæmið á morgun. 

mánudagur, 8. september 2014

10 ára bloggafmæli

Í byrjun ágúst voru liðin 10 ár síðan ég byrjaði að blogga. Í tilefni þessara tímamóta - og ekki síður vegna þess hve illa ég hef staðið mig í blogginu á árinu sem er að líða - hef ég ákveðið að hleypa af stokkunum átakinu „Lífi blásið í bloggið“. 
Það verður reyndar að viðurkennast að ég hef ekki alveg hugsað þetta átak til enda, þ.e.a.s. hvernig ég ætla að standa að því, en nú verður tekið á því! 
Hinn möguleikinn hefði verið að hætta alveg að blogga en ég finn að mig langar til að halda þessu áfram. Finn það líka að þegar ég skrifa ekkert á þessum vettvangi þá vantar mig einhvern stað til að tjá mig á. 
Ég veit samt ekki hvað gerðist með mig og bloggið núna á þessu ári. Eins og ég hef í raun þurft á því að halda að skrifa, þá hef ég haldið aftur af mér og einhvern veginn ekki „þorað“ að tjá mig. Sem sagt einhver óútskýranleg hræðsla í gangi. Hugsanlega vegna þess að það hefur svo margt verið að gerast í kringum mig og í kollinum á mér þetta síðasta ár. 
Alla vega, ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í þetta sinn, en LOFA annarri bloggfærslu á morgun :-)