Er ekki kominn tími til að tengja?
Eða með öðrum orðum, er ekki kominn tími á bloggfærslu? Ég held ég hafi sett persónulegt met með því að blogga aðeins einu sinni í síðasta mánuði.
Síðasta hálfa árið hefur reynt býsna mikið á mig. Ég man ekki hvort það var í október eða nóvember sem við Sunna ákváðum að loka Pottum og prikum á nýju ári. Í hönd fór síðan jólavertíðin með öllu sínu annríki og andlega séð fannst mér það mjög erfitt að halda haus, panta vörur og afgreiða viðskiptavini, vitandi það að búðin væri að hætta. Á sama tíma var Ásgrímur maðurinn hennar mömmu orðinn mjög veikur af magakrabbameini, og ljóst að það myndi bara enda á einn veg.
Í byrjun janúar var dreginn úr mér endajaxl og ég var ansi lengi að jafna mig eftir það. Á sama tíma var vörutalning í búðinni en eftir hana fór ég suður að heimsækja mömmu og Ásgrím, og var mjög fegin því en tæpri viku síðar var hann látinn. Seinni partinn í janúar auglýstum við svo að Pottar og prik væru að loka, og við tóku við hálf brjálaðar tvær vikur, þar sem við náðum að selja nánast allt úr búðinni. Það voru langir og mjög erilsamir dagar fyrst eftir að auglýsingin birtist, og ég var því orðin mjög þreytt þegar við Valur fórum til Danmerkur í lok mánaðarins til þess að vera við útskrift Hrefnu úr læknadeildinni.
Febrúarmánuður fór í að hnýta alls kyns lausa enda í tengslum við lokin á rekstrinum + bókhaldsvinnu hjá mér. Ég reyndi líka að hugsa aðeins um sjálfa mig, lesa bækur og taka myndir, því þreytan ætlaði mig lifandi að drepa eins og svo oft áður ... Í lok febrúar fórum við Valur suður í smá frí. Gistum í orlofsíbúð, hittum ættingjana og fórum með Andra og Freyju út að borða í tilefni þess að Andri var að klára atvinnuflugmanninn. Við komum heim á þriðjudegi og á miðvikudegi hringdi Dísa tengdadóttir Ásgríms með þær fréttir að mamma hefði dottið og mjaðmarbrotnað. Þetta var 5 mars.
Síðustu átta vikurnar hafa verið mjög erfiðar. Fyrst var ég hjá mömmu í tæpa viku eftir aðgerðina, kom heim og var í massívu gigtarkasti í hálfan mánuð, fór svo aftur suður þegar mamma útskrifaðist af sjúkrahúsinu og var hjá henni í viku. Sú vika var ansi strembin því mömmu leið alls ekki vel. Svaf illa á nóttunni og fékk slæm verkjaköst í tvígang. En svo kom Anna systir og tók við keflinu í eina viku, sem reyndar endaði á því að mamma var lögð inn vegna verkja og átti að verkjastilla hana.
Þegar hér var komið sögu hafði Anna reyndar látið vita að henni litist ekkert á að mamma gæti séð um sig sjálf þegar hún (Anna) færi aftur til Noregs. Við Valur ákváðum þá að bjóða mömmu að koma norður til okkar, amk yfir páskana og eitthvað lengur. Daginn áður en hún átti að útskrifast var síðan tekin röntgenmynd af mjöðminni, sem sýndi hreyfingu á naglanum sem festur hafði verið í mjaðmakúluna. Hér var komin skýring á þessum verkjaköstum sem mamma hafði verið að fá. Hins vegar var á þessum tímapunkti ákveðið að sjá til hvort þetta myndi lagast af sjálfu sér (beinið að gróa og naglinn festast).
Mamma kom því norður á skírdag og má það heita hálfgert kraftaverk. Dísa sótti hana á sjúkrahúsið í Keflavík, ók henni til Reykjavíkur og kom henni í flug. Ég var rosalega fegin því þá slapp ég við að fara enn eina ferðina suður. Hins vegar kom fljótt í ljós að ekki var nú gott ástandið á konunni. Fyrst héldum við að hún væri kannski svona eftir sig eftir ferðalagið en að liðnum tveimur sólarhringum sáum við að það var meira en svo. Það kom reyndar einn þokkalegur dagur þar sem hún var skárri af verkjunum en síðan byrjaði ballið aftur og fimmti og sjötti sólarhringurinn voru skelfilegir. Hún náði aldrei verkjalausri hvíld í meira en 15 mín. og svaf mjög illa sökum þess. Valur hafði verið búinn að ráðfæra sig við bæklunarlækni og á sjötta degi ákvað Valur að ekki væri hægt að una við þetta lengur og í kjölfarið var mamma lögð inn á Bæklunardeildina hér á Akureyri.
Bæklunarlæknarnir vildu samt enn bíða og sjá hvort ástandið myndi lagast og það þurfti sífellt að gefa mömmu meiri verkjalyf því henni bara versnaði. Sem leiddi til þess að fimm dögum síðar var hún orðin afskaplega þrekuð, bæði andlega og líkamlega, og okkur var alveg hætt að lítast á blikuna. En þá var líka ákveðið að hún færi í aðra aðgerð þar sem „gamli“ naglinn væri fjarlægður og nýr settur í staðinn. Okkur létti mikið við þetta og 30. apríl fór mamma loks í aðra aðgerð. Nú miðar henni aftur í rétta átt og er mun skárri af verkjunum, sem betur fer. Við höldum bara áfram að vona allt hið besta.
Í dag 7. maí var svo tekin röntgenmynd sem sýnir að allt lítur vel út (amk enn sem komið er) með þessa nýju neglingu. Í framhaldinu var ákveðið að mamma hefði ekkert lengur að gera á Bæklunardeildinni, og þar sem ekki er laust pláss fyrir hana í endurhæfingu á Kristnesi, mun hún verða send aftur til Keflavíkur. Þá vitum við það ... Það var talað um að hún yrði útskrifuð héðan í kringum næstu helgi en þótti líklegra að það yrði á mánudaginn. Byrjar þá ballið aftur ... Nei ég segi svona. Það sem ég á við er að enn eitt óvissutímabilið byrjar, þ.e.a.s. ekki vitað fyrirfram hversu lengi mamma mun vera á sjúkrahúsinu, hvernig ástandið á henni verður þegar hún mun útskrifast o.s.frv. Ég er bara dauðfegin að vera ekki í vinnu, segi ekki meir...
Jæja þetta var nú aldeilis langloka. Spurning hvort ég dett aftur í blogg-gírinn við þetta ;-)
1 ummæli:
Úúúfff.
Kær kveðja.
Skrifa ummæli