þriðjudagur, 10. september 2013

Sumir kunna þá list að heilsa fólki fagnandi


List segi ég, því þetta er ekki öllum gefið. Sumir virðast fæðast með þennan hæfileika, en ég er því miður ekki ein af þeim. En vegna þess að mér finnst svo gaman þegar aðrir heilsa mér fagnandi, þá langar mig að vera flinkari í því að heilsa fólki á þennan hátt. Það er svo góð tilfinning þegar einhver brosir út að eyrum við það eitt að sjá þig, og síðan fylgir glaðlegt/hlýlegt ávarp. Já ég er ekki frá því að maður fái orkubúst við það eitt að hitta svona fólk.

Í morgun kom ég í sund og var einmitt heilsað svona fagnandi af tveimur konum sem voru í búningsklefanum. „Þú færð engar skammir (fyrir að vera svona léleg að mæta í sund), við erum bara svo glaðar að sjá þig“. Þetta sögðu þær brosandi út að eyrum, með ósvikna gleði í röddinni. Og þá varð ég náttúrulega rosa glöð líka :-)

Það er reyndar alltaf ósköp notalegt að hitta fastagestina, þetta er jú fólk sem ég hef hitt í sundi í mörg ár og er farin að kannast mjög vel við. Ekki þekki ég nöfnin á öllum, né veit önnur deili á þeim, en það myndast ákveðin samkennd meðal fólksins sem mætir á sama tíma í sund, dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár.

Talandi um sundið þá gerði ég eitt í morgun sem ég hef ekki gert langa lengi. Ég synti flugsund - næstum því heila ferð. Það var svaka gaman. Fyndið hvernig það er með sundið eins og hjólið, ef maður hefur einu sinni lært það þá býr maður að tækninni æ síðan.

En já það var þetta með að heilsa fólki fagnandi. Það eru ákveðnir einstaklingar sem búa yfir þessum hæfileika og manni hlýnar alltaf um hjartarætur við að hitta þá eða heyra í þeim. Nokkrar vinkonur mínar eru svona og fleira fólk sem ég þekki. Ég held reyndar að þetta snúist ekki um mig persónulega (það er ekki SVONA gaman að hitta mig), heldur snýst þetta um fólkið sjálft. Það nær einhvern veginn að gefa meira af sér í einu ávarpi, heldur en sumir aðrir.

Mergurinn málsins er sá að það geta jú allir heilsað glaðlega, með hlýju í röddinni, maður þarf kannski bara að verða aðeins meðvitaðri um raddbeitingu og tón. Hér með set ég mér það markmið að reyna að verða meiri gleðigjafi í samskiptum mínum við aðra (hehe, ekkert smá markmið!!).

2 ummæli:

Anna Sæmundsdottir sagði...

Það er heilmikið til í þessu Guðný mín :-)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já er það ekki bara ;)