miðvikudagur, 5. júní 2013

Litagleði náttúrunnar


Ég átti frí í dag og ákvað að taka daginn snemma í góða veðrinu. Dreif mig í sund um áttaleytið og naut þess að synda í sólinni. Eftir sundið fór ég heim og skellti í mig einum berja-búster en dreif mig svo út aftur.

Í þetta sinn fór ég í Lystigarðinn og tók myndavélina með mér. Var með makrólinsuna á, því ég hafði hugsað mér að taka blómamyndir. Sem ég og gerði. Reyndar ekkert óskaplega margar myndir en svo sat ég líka á bekk í smá stund og virti fyrir mér mannlífið.

Af nægu var að taka því ekki aðeins var Lystigarðurinn stappfullur af ferðafólki af skemmtiferðaskipum, heldur voru einhverjir leikskólar þar líka. Mér finnst eiginlega alltaf hálf fyndið hvað það er mikil ilmvatnslykt af konum á ferðalagi. Þær virðast svoleiðis úða á sig rándýrum ilmum og miðað við lyktina í Lystigarðinum, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig það hlýtur að vera í rútunum sem keyra fólkið um.

Svo hitti ég nokkrar litlar skottur sem gengu um og heilsuðu útlendingunum með eftirfarandi setningu: "Hello. What's your name?" og ég fékk sama ávarp, enda auðvelt að draga þá ályktun að ég væri útlendingur líka, með mína stóru myndavél.

En já ég stoppaði svo sem ekki lengi í Lystigarðinum en nógu lengi til að taka nokkrar myndir og svo dreif ég mig bara heim. Svo fór ég þangað aftur seinna í dag, að hitta tvær vinkonur mínar, og þá sátum við í sólinni í nærri tvo tíma. Sem var nú alveg hámarkstími fyrir óvana ...

Ljósmyndaklúbburinn er síðan að fara að hittast á eftir og spurning hvort ég verð í standi til að fara enn eina ferðina út úr húsi.

Myndin sem fylgir er samsett úr þremur myndum sem ég tók í dag. Til að gera svona samsetningu, nota ég forrit sem heitir Fotor og er hægt að fá ókeypis á netinu. Ég er búin að setja þessa sömu mynd á facebook, svo þeir sem eru vinir mínir þar þurfa víst að þola að horfa enn og aftur á sömu myndina ;-)

3 ummæli:

Anna systir sagði...

Gott að komi nokkrir sumardagar á Akureyri eftir þennan langa vetur!! Spuring hvort Akureyri getur boðið mér upp á gott veður nú í lok júní :-) Og litirnir í blómunum eru æðislegir!!

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Ég vona svo sannarlega að veðrið sýni sínar bestu hliðar þegar þið Sigurður komið. Var farin að stressa mig yfir því um daginn að úr því við höfum svona gott veður núna þá hlyti það að verða leiðinlegt bráðum ... En já Akureyringar njóta þessa snemmbúna sumars svo sannarlega :-)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Og þarna tóks mér að nota orðið „sannarlega“ tvisvar sinnum í sömu málsgreininni ;-)