Já það er eins og ég megi gjörsamlega EKKERT gera, þá fer skrokkurinn á mér að kvarta og kveina. Núna er ég t.d. byrjuð að synda aftur eftir langt letitímabil, og var þess mjög meðvituð að ég þyrfti að fara hægt og rólega af stað til að ofgera mér ekki. Þannig að ég synti bara 6 ferðir til að byrja með, svo 8 í einhvern tíma og er nýlega komin upp í 10 ferðir. Undanfarið hef ég svo smám saman verið að fá meiri og meiri verki í vinstra lærið framanvert. Ég skildi ekkert í því hvað þetta gæti verið og nefndi þetta svo loks við Val. Þá var ég búin að vera að þreifa lærið og fann að ég var með grjótharðan streng í öllum vöðvanum sem liggur framanvert á lærinu, frá hné og upp úr. Valur spurði hvort ég hefði verið að gera spark hreyfingar með fætinum. Fyrst var ég nú ekki að kveikja á perunni, en jú jú þegar ég lyfti fætinum og sparkaði frá mér (svona eins og í bringu- og baksundi) þá áttaði ég mig á samhengi hlutanna.
Annað sem er fyndið (eða þannig) er að ég er stundum að hlusta á slökunardiska og þvíumlíkt þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin. Þetta er þá yfirleitt einhver sem talar/leiðir slökunina og ég reyni að fylgja fyrirmælum. Á það nú til að vera komin á kaf í eigin hugsanir en t.d. ein konan sem ég hlusta á er með svo þægilega rödd að það er mjög notalegt að sofna út frá henni. Sú hin sama er með fyrirmæli í einni upptökunni sem hljóða þannig að maður á að finna stað á líkamanum sem manni líður vel í. Þetta getur t.d. verið hönd, fótleggur eða eitthvað annað. Málið er að þegar ég leggst upp í rúm á kvöldin og er þreytt í skrokknum eftir daginn, þá getur verið afar erfitt að finna verkjalausan stað. Það er ekki óalgengt að mig verki í fæturna, alveg frá tám upp í nára. Í handleggina, alveg frá fingrum upp í axlir. Í bakið frá rassi upp í axlir. Svo er ég oft stíf í hnakkanum og verkjar í augun. Hehe, já þetta er bara fyndið, því eini staðurinn sem mig verkjar þá ekki neitt í, er nefið. Svo það er nú aldeilis ágætt að geta a.m.k. fundið einn stað :-)
Annars er ég bara nokkuð spræk akkúrat í dag. Það er frídagur hjá mér og ég byrjaði daginn á að fara í sund, sem var hressandi að venju. Þarf bara að passa vinstri fótinn núna, að ofgera mér ekki, og það gekk svona sæmilega. Ég hitti líka Ísak eftir sundið. Hann er að vinna í Sundlaugargarðinum núna og ég lét hann hafa sólarvörn, því hann hafði brunnið aðeins í gær.
Hrefna er farin aftur heim til Kaupmannahafnar en sem betur fer er Andri kominn heim og þar að auki styttist í næstu gesti. Það er alltaf svo tómlegt þegar börnin fara aftur eftir að hafa verið heima um stund. En aðal atriðið er jú að það er gaman að fá þau, og að þau hafa það gott þó þau séu staðsett annars staðar.
ÁLFkonur ætla að skella í enn eina ljósmyndasýninguna núna en ég tók þá ákvörðun að vera ekki með að þessu sinni. Það er svo mikið að gera hjá mér í tengslum við vinnuna, og ég ákvað að bæta ekki meiri streitu í líf mitt.
Sunna er í sumarfríi og það munar talsvert um að vera bara ein að gera hluti eins og að panta vörur t.d. Ég hef nú verið að gera það heima líka á kvöldin því þá er meiri friður, en það skilar sér í pínu fyndnum pöntunum, þegar maður er að gera þetta eftir minni (reyna að rifja upp hvort vantar þetta eða hitt). Það var frekar stór helgin síðasta (útskriftir úr HA og MA og brúðkaup) þannig að ég þurfti að passa uppá að nóg væri til af vörum í búðinni fyrir helgina.
Svo eru skil á virðisaukaskatti einmitt þegar ég er í sumarfríi (eða öllu heldur í lok frísins) og mig langar að vera búin að vinna mér í haginn svo ég þurfi ekki að eyða miklu af fríinu í bókhaldsvinnu. Ég var líka að átta mig á því um daginn að við eigum ennþá eftir að skrá vörutalningar-tölurnar inni í Excel skjal svo hægt sé að leggja saman andvirðið, og það er nú töluverð vinna því þetta eru svo mörg vörunúmer sem við erum með.
Já já, bara stuð. En við Valur erum sem sagt ekki ennþá búin að ákveða hvað við ætlum að gera í sumarfríinu. Reynslan frá í fyrra var sú að ég var svo örmagna af þreytu þegar ég fór í frí, að ég gat nú lítið annað gert en hvíla mig. Við fórum samt í stutta ferð austur á land, sem lukkaðist ekki alveg nógu vel sökum þreyttrar konu ... og svo í lok ágúst skelltum við okkur í 3ja daga helgarferð vestur á Strandir, sem var eiginlega bara mjög vel heppnuð. Þannig að nú er spurningin, hvað á að gera í sumar? Ég er að reyna að passa uppá að taka mér reglulega frí í vinnunni svo ég verði ekki alveg úrvinda þegar sumarfríið byrjar, og vonandi lukkast þessi áætlun mín. En já ferðast innanlands eða utan? Valur var búinn að stinga uppá því að við gætum farið eitthvert til útlanda, þar sem væri heitt og ég gæti legið í leti og hvílt mig. Það er í sjálfu sér góð hugmynd, en við erum orðin frekar sein með að panta ferð sýnist mér. Við vorum aðeins að skoða ferðir og það er mjög mikið orðið upppantað, enda fyrirvarinn orðinn frekar stuttur. En já þetta kemur allt í ljós.
Og vá hvað þetta er orðin löng bloggfærsla. Myndin sem fylgir er tekin á Hjalteyri, þegar við Valur skruppum smá bíltúr eftir mat að kvöldi 17. júní.