sunnudagur, 4. nóvember 2012

Öll él styttir upp um síðir


Svona leit gatan okkar út í morgun. Eftir nokkurra daga hríðarbyl sáum við loks til sólar á ný. Og mikið sem það var ljúft. Ég var orðin hálf pirruð á þessu óveðri. Ein ástæðan var reyndar sú að í vondu veðri fer fólk ekki að versla, og mér leiðist svo óskaplega í vinnunni þegar viðskiptavinina vantar.

Á föstudaginn fór ég í kvennaklúbb. Við vorum þrjár sem skelltum okkur á kaffihúsið í Hofi og það var ósköp notalegt að sitja þar inni í hlýjunni og spjalla meðan norðanstórhríð geisaði fyrir utan. Valur hló nú reyndar að mér það kvöld. Þá hringdi bróðir hans að sunnan og ég sagði honum að það væri ekkert sérstaklega mikill snjór hér á Akureyri. Hefði hann hringt í morgun, hefði ég líklega sagt akkúrat hið gagnstæða. Í gær hafði snjóinn fest utan á alla glugga sem snéru í norður og austur, og svona leit orkidean í eldhúsglugganum út með þennan nýja hvíta bakgrunn.



Í gær var ég í fríi en var lúin og gerði ekkert af viti hér heima við. Valur lagaði til í skrifstofunni sinni, auk þess að moka helling af snjó, elda mat og vera á bakvakt í vinnunni. Enginn leti hjá honum frekar en fyrri daginn. Ég hins vegar lufsaðist bara á milli herbergja og horfði á hluti sem mig langar til að gera - en það er víst ekki nóg að horfa á þá ... Til dæmis lopapeysan mín sem ég er búin með ermar og bol, en hef mig ekki í að halda áfram með. Einmitt núna er jú þörf á því að fá nýja hlýja peysu. En ég á nú líka fínu peysuna sem Anna systir prjónaði einu sinni á mig og gaf mér óvænt. Er búin að vera töluvert í henni undanfarið.



Í morgun fórum við Valur svo smá ljósmyndarúnt en eins og svo oft þegar ég hef ekki tekið myndir í einhvern tíma, þá fundust mér allar myndirnar misheppnaðar. Við fórum í Lystigarðinn og klofuðum snjóinn þar og þrátt fyrir allt, þá var alveg dásamlegt að komast út og fá súrefni og sól beint í æð. Það var líka allt svo kyrrt og hljótt þar, enda kaffihúsið lokað vegna snjóa.



Svo fórum við líka í dag og kíktum á ljósmyndasýningu ÁLKU í Hofi. Ætluðum að fá okkur kaffi í leiðinni en þá var kaffivélin biluð, svo ekkert varð úr þeirri fyrirætlan. En kaffið heima  stóð vel fyrir sínu í staðinn og meira að segja til súkkulaðihrákaka síðan í gær (sem við Valur gerðum í sameiningu). Hehe, þarna fattaði ég að ég gerði alveg tvo hluti í gær, þ.e. ég fór og tók bensín á bílinn og gerði köku ;O)

Læt ég hér með þessu kellingabloggi lokið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið er orkideumyndin sérstök og glæsileg. Bestu kveðjur, Þórdís.

Nafnlaus sagði...

Orkídeurnar standa fyrir sínu, sérstaklega á þessari óvenju góðu mynd og líklegast óvenjulega bakgrunni,
Halur

Guðný Pálína sagði...

Takk kærlega, Þórdís og Halur minn kær :)