fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Hvað er í gangi hjá gömlu?

Í gærkvöldi ætlaði ég aldrei að geta sofnað en hef sennilega verið sofnuð milli hálf eitt og eitt. Nema hvað, hrekk svo upp úr fastasvefni klukkan tvö og var glaðvakandi skömmu síðar. Var illt í maganum, með hraðan og óreglulegan hjartslátt, þreytuverki í fótunum, höfuðverk og verki "innaní" augunum, svo eitthvað sé nefnt. Ég sá fljótt að eina ráðið í stöðunni væri að fara fram og taka verkjatöflur, sem ég og gerði, en það tók samt kroppinn á mér u.þ.b. klukkutíma að róa sig niður.

Þegar hér var komið sögu var ég reyndar orðin glorhungruð, og skrölti fram í eldhús þar sem ég smurði mér brauð og borðaði það, en fór svo fljótlega aftur inn í rúm. Þá var heilinn á mér hins vegar kominn á fullt og engin ró og friður þar á bæ.

Ég tók það til bragðs að hlusta á slökun sem ég er með á ipod (svo leiðinleg og svæfandi karlmannsrödd sem talar að ég taldi að það hlyti að virka) og það bar árangur fyrir rest, en samt ekki fyrr en einhvern tímann um hálf fimm leytið. Vá hvað ég var samt orðin pirruð og leið á því að liggja í rúminu og bylta mér.

Svo vaknaði ég næst um hálf átta. Ísak átti að mæta í skólann kl. 8.30 og ég fór fram til að tékka á því hvort hann væri vaknaður. Sá ljós inni hjá honum og spurði hvort hann væri vaknaður. Jú jú hann var það. Þar sem ég hafði nú ekki sofið nema ca. fjóra tíma í allt í nótt, ákvað ég að leggja mig aftur. Sofnaði en hrökk upp klukkutíma síðar og fannst þá undarlegt að ég hafði ekkert heyrt meira í Ísaki. Hann hafði náttúrulega steinsofnað aftur, svo ég vakti hann og skutlaði honum svo í skólann.

 Næst á dagskrá hefði átt að vera leikfimi kl. 9.30 en mér leið eins og ég hefði orðið undir valtara, svo ég gat ekki hugsað mér að fara. Var samt lengi að ákveða hvað ég ætti að gera, en þar sem hjartsláttartruflanir eru enn að hrjá mig, ákvað ég að vera heima. Í fyrravetur fékk ég einu sinni hálfgert aðsvif í leikfiminni, þegar ég var í svipuðu ástandi og núna, og ég hef engan áhuga á svoleiðis uppákomu aftur. Ekki þar fyrir, það var ekki nein svakaleg uppákoma, ég bara settist mjúklega á gólfið þegar ég fann að ég var að verða eitthvað skrítin.


En já, vá hvað þetta var nú eitthvað leiðinlegur pistill hjá mér. Til að lífga aðeins uppá hann kemur hér litadýrð mikil... Ég fór nefnilega með myndavélina með mér í vinnuna í gær og reyndi að taka myndir af litríkum vörum sem fást hjá okkur. Þær eru reyndar miklu miklu fleiri, en hér er smá sýnishorn.










4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var hrekkajavaka í nótt og þá sveima um draugar og vættir og angra fólk og halda fyrir því vöku :-)
Vonandi verður næsta nótt betri.
kv
Sunna

Guðný Pálína sagði...

Takk Sunna mín :) Kannski það hafi þá fleiri en ég átt skrítna nótt ... En talandi um hrekkjavöku, þá seldi ég síðasta graskers-útskurðar-settið nú í vikunni. Var mjög ánægð með það :)

Nafnlaus sagði...

Þegar horft er á alla litina, kemur upp í hugann hversu litlausir landar mínir eru, mest hvítt eða kannske svart, varla sauðkindarlitir nema í lopaæðinu og einhvers staðar.....,
Halur

Guðný Pálína sagði...

Já það væri gaman ef húsin hérna væru t.d. eins litrík og húsin á Grænlandi. Þá væri skemmtilegra um að lítast utandyra á veturna.