Já þvílíkur dýrðardagur! Ekki nóg með að ég vaknaði í sól og sumaryl í morgun, heldur var þetta fyrsti laugardagurinn í langan tíma þar sem ég var ekki ónýt af þreytu. Fyrir það var ég alveg óendanlega glöð og þakklát. Ég ákvað að byrja daginn á því að fara í sund í góða veðrinu og greip með mér myndavél á leiðinni út úr dyrunum.
Í sundinu hélt ég uppá það að vera svona spræk, með því að synda heilar 16 ferðir. Sem er nýtt met hjá mér. Ég setti mér það sem markmið þegar ég fór heim af Kristnesi að vera farin að synda 16 ferðir í september, svo ég er nú bara nokkuð ánægð með sjálfa mig, þó það sé nú reyndar alls ekki víst að ég komist þennan sama fjölda á morgun, en það er nú annar handleggur. Ég var reyndar að hugsa um að synda 18 ferðir og hefði alveg komist það, en ákvað að vera skynsöm og fara ekki framúr sjálfri mér.
Eftir sundið fór ég síðan smá myndarúnt, enda var veðrið til þess. Var að hugsa um að kíkja í Lystigarðinn þar sem var opið hús í nýja kaffihúsinu, en ákvað að eiga það inni.
Þessi mynd er tekin efst í Spítalaveg og sést út á himinbláan Pollinn.
Þessi er tekin frá klassísku sjónarhorni, af veginum við Skautahöllina.
Þarna siglir einhver inn ... ofurlítil duggan. Nei annars, ekki lítil heldur stór!
Næst lá leið mín niður á Torfunesbryggju. Þarna sést í stefnið á Húna II og í fjarlægð er "alvöru" lítil dugga.
Þarna er svo verið að lóðsa skemmtiferðaskipið Ventura að bryggju. Með því komu tæplega 3.000 farþegar. Er þetta skemmtiferðaskip nr. 2 í röðinni af þeim 65 skipum sem munu koma í sumar.
Var aðeins að leika mér, þetta er kannski fremur óvenjulegt sjónarhorn á menningarhúsið okkar.
Þarna sést vel hvað Ventura er stórt skip. Skil samt ekki alveg af hverju litirnir í myndinni eru svona skrítnir hjá mér...
Þegar hér var komið sögu var ég orðin svöng og dreif mig heim. Þar snöggsteikti ég glás af grænmeti og beikon á pönnu og settist svo út í garð og borðaði í sólinni. Ísak sat með mér í smá stund, en annars er hann ekkert sérstaklega hrifinn af sólinni, eða finnst hann að minnsta kosti ekki vera að missa af neinu þó hann sé inni heilan sólardag.
Eftir matinn setti ég í þvottavél en dreif mig svo aftur út. Í þetta skiptið í miðbæinn. Myndavélin var aftur með í för, enda gaman að smella af nokkrum myndum í bænum. Sérstaklega þar sem það leit út fyrir að velflestir farþegar af skemmtiferðaskipinu hefðu ákveðið að sleppa hinni hefðbundnu ferð til Mývatns, og rölta frekar um miðbæinn. Það er ekki oft sem svona margt fólk er samankomið í miðbænum, svo mikið er víst!
Hér sést nýja kaffihúsið í Skátagilinu - Kaffi Ilmur.
Og hér sést annað nýtt kaffihús, en það er í nýuppgerða gamla Hótel Akureyri, nú Akureyri Backpackers.
Hér má sjá fleiri myndir þaðan (af facebook síðu þeirra).
Eftir að hafa rölt um í dágóða stund og kíkt inn í nokkrar fatabúðir (vantar sumarlegar buxur sem passa á mig, þessar gömlu eru allar orðnar of stórar) þá fór ég aftur heim, og fékk mér te og brauð úti í garði. Tók enga mynd af því...
Svo fór ég aftur niður í bæ og mátaði og keypti einar buxur sem ég hafði séð í bæjarferð nr. 1. Að því loknu skellti ég mér í heimsókn til hennar Dóru sem bjó á móti okkur hér í Stekkjargerði en er núna flutt í bleiku og bláu blokkirnar, en það eru blokkir með þjónustukjarna fyrir aldraða. Það var mjög gaman að koma til hennar og sjá hvað hún er búin að koma sér ljómandi vel fyrir í nýju íbúðinni sinni og er með frábært útsýni.
Næst fór ég aftur heim og lá í sólbaði og las í smá stund. Það var þó ekki lengi því nú var ég orðin svöng. Þar sem kokkurinn er ekki heima þarf ég að elda ofan í mig sjálf ... en átti reyndar afgang af grænmetissúpu. Skrapp í Hrísalund og keypti mér eina sneið af hrefnukjöti sem ég steikti, skar í bita og skellti út í súpuna. Með þessu drakk ég smá rauðvínstár (kláraði nú ekki einu sinni þetta eina glas sem sést hér á myndinni). Já og borðaði að sjálfsögðu úti í þriðja skiptið í dag :-)
Á morgun stefnir allt í fulla dagskrá hjá mér, eða svona næstum því. Ég ætla pottþétt í sund í fyrramálið (vona að það verði sól) og svo er mér boðið í afmælisbröns hjá Kidda. Á morgun koma líka Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans og gista eina nótt. Ég þarf að láta mér detta eitthvað í hug til að elda ofan í þau - og já laga aðeins til í húsinu og svona.
Og nú segi ég þessu maraþon-mynda-bloggi lokið.