sunnudagur, 13. júní 2010

Sól og sumar



My favorite season, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já það er ekki hægt að segja annað en við hér norðanlands höfum verið lánsöm með veðrið undanfarið. Heimurinn fær á sig annað yfirbragð þegar veðrið er svona gott og allir verða glaðir og kátir.

Við Valur fórum að kaupa plöntur eitt kvöldið í vikunni og ég kippti myndavélinni með mér. Í þetta skiptið keyptum við spergilkál og nokkrar gerðir af salati. Já og einhver sumarblóm sem frúin ætlar að setja niður, ekki seinna en á morgun. Við ákváðum að versla við einyrkja í stað ríkisverslunarinnar í Blómavali og fórum á Réttarhól á Svalbarðsströnd. Það verður að segjast eins og er að þegar maður (kona) er í verslunarrekstri þá spáir maður meira í svona hluti, eins og að versla við heimafólk til að styrkja fyrirtæki í heimabyggð.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég er ekki enn búin að finna lit á húsið sem við Valur erum bæði fullkomlega sátt við. Markmiðið er að fara á morgun og kaupa allra síðustu litaprufuna. Nú nenni ég þessu ekki lengur og við verðum bara að mála með einhverjum af þessum þúsund litum (eða svo...) sem við erum búin að prófa.

Stærstu fréttirnar eru þær að Andri setur upp hvíta kollinn þann 17. júní og tveimur dögum síðar ætlum við að halda veislu í Reykjavík fyrir vini og vandamenn. Það er gaman fyrir hann að vera loks að útskrifast, þó nú taki óvissa varðandi framtíðina við. En fæstir vita nú á þessum aldri hvað þeir vilja læra og starfa við í framtíðinni.

Ísak er kominn í sumarfrí frá skólanum, þar sem hann stóð sig að vanda vel, og byrjaður í vinnuskólanum. Hann er nú ekki sérlega glaður með það, enda var ekkert frí í millitíðinni, en það er hollt og gott fyrir þessa krakka að taka aðeins til hendinni.

Hrefna fer í próf í vikunni ef ég man rétt. Það er nóg að gera hjá henni, líklega vinnur hún í Noregi part úr sumri og fer svo til Afríku í haust. Þangað ætla þær tvær vinkonur og vinna á sjúkrahúsi í Kenya. Ég hugsa að það verði mikil lífsreynsla og vonandi góð.

Valur er að fara í veiði á morgun, fyrstu veiði sumarsins. Hann fer í Mývatnssveit og er kominn hugur í hann. Gaman að því :) Annars er sumarfrí okkar allt afar óljóst í ár. Það er að segja, hann er núna í viku fríi en fer svo í frí í fjórar vikur og byrjar um miðjan júlí. Þannig stendur á að líklega fer Kiddi maðurinn hennar Sunnu í frí á sama tíma, og þar af leiðandi eru sumarfríin okkar Sunnu í hálfgerðu uppnámi. Tja ekki nema Andri fari bara í fulla vinnu á einhverju tímabili. En það dugar samt ekki tl því það þarf að vinna helgarnar líka... Æ jæja, þetta hlýtur að leysast allt saman.

Og nú ætla ég að fara að gera tilraun nr. 2 til að fara að sofa...

Engin ummæli: