sunnudagur, 30. september 2007

Hvað á maður (kona) að gera þegar letin er að drepa hana?

Er málið að reyna að rífa sig upp og detta í eitthvað dugnaðarkast, þvo bílinn, nýta sér 20% afslátt í snyrtivörudeildinni í Hagkaup, baka brauð, laga til í geymslunni... ?

Eða einfaldlega að láta eftir sér að vera löt?

laugardagur, 29. september 2007

Litadýrð í bakgarðinum

Náttúran breytir ört um svip þessa dagana og það eru eiginlega forréttindi að fá að fylgjast með þessum umbreytingum. Ég tók þessa mynd áður en ég fór í vinnuna í morgun og ætlaði svo að fara eftir vinnu og taka fleiri haustlitamyndir. Þessa þrjá tíma á meðan ég var í vinnunni var glampandi sól og hið fallegasta veður en það stóð á endum að þegar ég var komin í bílinn og ætlaði í myndatökuferð þá dró ský fyrir sólu...

fimmtudagur, 27. september 2007

Súlur með hvíta hettu


Súlur með hvíta hettu, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já svona litu Súlur út á þriðjudagsmorguninn. Hvíti liturinn er nánast horfinn aftur en það er gaman að fylgjast með litabreytingum á haustin. Ef vel er að gáð má líka sjá að lyngið í brekkunum fyrir neðan Fálkafell er komið í haustlitina.

Er ekki frá því að orkan sé mun stöðugri yfir daginn

síðan ég dró stórlega úr sykur- og hveitiáti. Og það sem meira er, mig langar ekkert sérlega mikið í sykur, hélt að þetta yrði miklu erfiðara. En þetta hollustuátak mitt hefur þó ekki komið í veg fyrir að ég næði mér í haustpestina sem herjað hefur á syni mína undanfarna daga. Þeir eru sem sagt báðir heima í dag en ég er í vinnunni en hálf drusluleg eitthvað. Verð vonandi fljót að hrista þetta af mér.

sunnudagur, 23. september 2007

Nýi uppáhaldsstaðurinn hennar Birtu


er þvottakarfa sem áður hýsti dökkan þvott. Lokið brotnaði af henni fyrir langa löngu og ég saknaði þess svo sem ekkert. Hins vegar skildi ég ekkert í því þegar við komum heim frá Spáni og ég var að setja í þvottavél, hvað það var rosalega mikið af kattarhárum í óhreina þvottinum. Það tók mig langan tíma að hreinsa það mesta úr með límrúllu áður en ég gat sett í vélina. En ég komst fljótlega að því hvernig í pottinn var búið. Kannski hefur Birta fundið til notalegrar öryggistilfinningar að liggja ofan á fötum með lyktinni af okkur? Hver svo sem ástæðan er þá er hún svo að segja "flutt" ofan í körfuna, þrátt fyrir að það hljóti að vera vissum erfiðleikum háð að komast ofan í hana því hún er frekar há og mjó og ég er búin að taka öll föt uppúr henni nema vinnubuxurnar hans Andra frá því í sumar. Hrefna sagðist hafa séð í dýraþætti í danska sjónvarpinu að kettir hefðu meiri þörf fyrir að upplifa öryggi þegar þeir yrðu gamlir, og Birta er nú að verða átta ára. Þannig að nú vantar mig nýja þvottakörfu...

fimmtudagur, 20. september 2007

Kvennaklúbbur á döfinni

og ég þarf að upphugsa einhverjar veitingar. Verkefni sem mér reynist alveg nógu erfitt alla jafna en í þetta sinnið er það enn erfiðara. Ég er nefnilega í smá hollustuátaki og er að reyna að sleppa sykri og ýmsum matvörum sem ég veit að fara illa í mig. Þá er það spurningin, á ég að hafa eingöngu hollusturétti í klúbbnum (sem krefst vinnu við að finna hollar uppskriftir og jafnframt er fólgin áhætta í því að vera með nýjungar sem maður hefur ekki smakkað)? Eða á ég að reyna að hafa gamla og þægilega rétti sem ég þarf ekki að hafa alltof mikið fyrir og sleppa því þá bara að borða það versta? Þriðji möguleikinn er að breyta uppskriftum og gera þær hollari, t.d. með því að nota hrásykur í staðinn fyrir hvítan (en þá borða ég samt sykur...). Hm, þetta er flókið. En ég þarf eiginlega að ákveða mig núna svo ég geti farið í búð og keypt inn og helst bakað eins og eina köku áður en ég fer til tannlæknis kl. eitt.

Í gær fékk ég nefnilega þá verstu tannpínu sem ég hef fengið um árabil. Það er einhver tönn að stríða mér, tönnin sjálf er samt ekki skemmd heldur telur tannlæknirinn að rótin sé hugsanlega dauð - ef ég hef skilið hann rétt - en ég skil ekki hvernig dauð rót getur framkallað svona mikla verki. Ég var stödd í heimsókn hjá vinkonu minni þegar fjörið byrjaði en reyndi að láta á engu bera, alveg þar til það var ekki hægt lengur því mér leið eins og hægri hluti kjálkans stæði í ljósum logum. Fór heim og tók tvær verkjatöflur, þar af eina parkódín, og hélt að það hlyti að slá á verkinn. Ekkert gerðist og mér leið bara verr ef hægt var. Tók aðra parkódín og svo enn aðra og var áfram að steindrepast í munninum. Datt í hug að hringja í tannlækninn og biðja hann hreinlega að deyfa mig en hann var þá á leið á fund og gaf mér í staðinn tíma í í dag. Þá settist ég inn í stofu og hlustaði á slökunartónlist og reyndi að slaka á og smám saman minnkaði verkurinn og áhrif allra parkódíntaflanna komu fram. En þetta verkjakast hafði þá staðið í þrjá og hálfan tíma og ég var gjörsamlega búin á því á eftir. Ekki get ég hugsað mér aðra eins verki aftur í bráð, svo ég neyðist víst til að taka boði tannlæknisins um að rótardrepa tönnina. Brr, fæ hroll við tilhugsunina.

sunnudagur, 16. september 2007

Haust-tiltekt

Ég fæ alltaf þörf fyrir að laga til í skápum og skúffum á vorin og haustin. Það er reyndar misjafnt hversu aðkallandi þessi þörf er og hvað ég tek mikið í gegn en ég safna allavega ekki jafn miklu drasli á meðan. Í morgun fór ég í gegnum innihaldið í forstofuskápnum og ýmislegt fékk að fjúka. Vetrarskór og skíðabuxur af Ísak síðan í fyrra og hittifyrra, hvort tveggja orðið of lítið á hann, stakir vettlingar, derhúfur sem enginn notar o.s.frv. Svo var það nú ætlunin að mála forstofuna við tækifæri en það er nú spurning hvenær maður er í stuði... Heyrði í Önnu systur í vikunni og þau eru í dugnaðarkasti að taka í gegn þvottahúsið, verst að ég get ekki skroppið til hennar í kaffi og fylgst með breytingunum en það er víst heldur langt á milli okkar til að það sé mögulegt. Jamm og jæja, best að hætta þessu rausi og halda áfram að vera dugleg :-)

þriðjudagur, 11. september 2007

Komin heim frá Spáníá


Gaman saman, originally uploaded by Guðný Pálína.

og eins og sjá má á þessari mynd þá áttum við virkilega góðar stundir í Barcelona. Veðrið var yndislegt, sól og 22-30 stiga hiti og við bara slöppuðum mest af og höfðum það gott. Kíktum aðeins á Mírósafnið og kirkjuna hans Gaudís, löbbuðum einu sinni niður "Römbluna", heimsóttum heimavöll Barca fótboltaliðsins og rúntuðum pínu í túristastrætó en létum annars hefðbundnar túristaslóðir eiga sig. Vorum mikið á ströndinni sem var ca. 200 metra frá íbúðinni sem við leigðum og þar voru nánast bara Spánverjar fyrir utan okkur. Sem sagt, hið besta frí og við hefðum gjarna viljað vera lengur... :-)