mánudagur, 14. ágúst 2006

Ikke ble det noe blogg ifra Norge

en nú erum við Ísak komin heim aftur og hér kemur eitt stykki blogg:

Ég heyrði það strax í flugvélinni á útleið að ég var farin að stirðna í norskunni - fékk það betur staðfest þegar ég fór að tala við mág minn og vantaði alveg hrikalega mikið af orðum, a.m.k. fyrst í stað. Hófst handa við að lesa norsk tímarit hjá systur og smám saman skánaði ástandið. Var orðin nokkuð sleip í lok heimsóknarinnar og var þá jafnvel farin að hugsa á norsku - sem aftur gerði það að verkum að ég mundi ekki einföldustu íslensk orð... ekki einfalt mál sem sagt. Ég verð að segja að ég dáist að henni systur minni fyrir það hvað hún talar enn góða íslensku eftir ca. 25 ára dvöl í Noregi.

Annars var þetta afskaplega notaleg ferð og það besta var að sjálfsögðu að hitta Önnu og geta spjallað við hana. Ég vorkenni mér stundum hálfpartinn fyrir það hvað fjölskyldan er sundruð um allar jarðir (ég á Akureyri, mamma í Keflavík, Anna í Noregi og Palli bróðir í Danmörku) en svona er þetta bara - og fyrir vikið verður bara enn skemmtilegra að hittast!

Það eina sem plagaði mig var hitinn, sem var í kringum 30 gráður megnið af tímanum. Þrátt fyrir óhemju vatnsdrykkju þjáðist ég af svima (sem eiginmaðurinn segir mér að sé einkenni vökvaskorts) og var bara alveg að kafna úr hita til að byrja með. Þetta er eiginlega hálf tragískt, hér á Íslandi dreymir mann um hlýrra loftslag en svo þegar maður fær þá ósk sína uppfyllta þá nær maður ekki að njóta þess heldur verður bara slappur og aumingjalegur. Ég gerði amk. tvær tilraunir til að sitja úti í sólinni og lesa, svona til að fá smá lit á kroppinn, en gafst fljótlega upp í bæði skiptin og flúði inn í hús.

Dagskráin í Noregi einkenndist af því að gera eitthvað fyrir synina s.s. að fara í Askim badeland og Tusenfryd skemmtigarðinn + út að borða á pítsustað. En við fórum líka á Notodden bluesfestival og hlýddum þar á tónleika með Gary Moore og smá verslunarleiðangur í Ski storsenter (þó ekki "shop till you drop" í þetta sinnið) og ég rölti um á Karl Johann meðan Anna skrapp í vinnu á miðvikudeginum.

Heima á ný tekur síðan dagsdagleg tilvera við aftur með öllum þeim viðfangsefnum sem henni fylgja. Þessa dagana ber þó hæst sú staðreynd að einkadóttirin er að flytja utan til náms og er það tregablandin tilhlökkun. En þetta er víst gangur lífsins - og nútíma samskiptamöguleikar s.s. skype gera fólki kleift að vera í daglegu sambandi ef því er að skipta - svo við hljótum að lifa þetta af öll sömul :-)

Engin ummæli: