sunnudagur, 9. júlí 2006

Hús hafa alltaf heillað mig

og þegar við bjuggum í Bergen fyrir löngu síðan fékk ég þá hugmynd að taka ljósmyndir af húsum sem höfðuðu til mín á einhvern hátt. Þau þurfa ekki að vera "flott", bara höfða til mín. Ekki hefur nú  orðið neitt úr þessari hugmynd ennþá en mér finnst fátt skemmtilegra en virða fyrir mér hús - og glugga - þegar ég er úti að ganga. Í síðustu viku gekk ég í vinnuna (alveg tvisvar sinnum held ég... en það er aukaatriði í þessu samhengi) og gerði mér þá far um að ganga aðrar leiðir en ég geri dags daglega. Sá þá mörg hús sem ég hef ekki tekið eftir áður og líka hús sem ég hef séð, en í þetta sinn frá nýju sjónarhorni. Og gluggarnir eru alveg sér kapítuli. Í einum glugga voru gamlar kaffikönnur, kókdósir úr áli þöktu heilan glugga í öðru húsi og í enn einu húsi voru pelargóníur í öllum gluggum sem snéru að götunni. Svo eru það gömlu húsin sem bera það með sér að þar býr eldra fólk, út frá skrautinu í gluggunum. Og gömlu húsin sem ungt fólk er búið að gera upp og minimalisminn ræður ríkjum. Já það er af nógu að taka - og þetta er bara svo gaman - að sjá allan fjölbreytileikann!

Engin ummæli: