mánudagur, 31. júlí 2006

Loks kom að því

að dóttirin fékk svar við umsókn sinni um háskóla. Þetta er búið að vera langt ferli og biðin var orðin frekar taugatrekkjandi undir það síðasta. En í dag kom bréfið langþráða, þar sem henni var boðið pláss við Læknadeild Kaupmannahafnarháskóla. Það var mikil gleði á heimilinu þegar þetta kom í ljós og fórum við út að borða á Greifann til að halda upp á þetta. Nú situr hún sveitt og skoðar húsnæðisauglýsingar á netinu - enda ekki nema tæpur mánuður til stefnu að finna sér húsnæði og flytja út. Best að drífa sig að kaupa málningu, hún ætlaði að mála baðherbergið niðri áður en hún færi... (reyna að nýta sem mest út úr henni meðan hún er hér ennþá, eða þannig :-) En fyrst þarf hún víst að fara í hjartaþræðingu, fer suður á morgun og í þræðingu á miðvikudaginn. Vonandi tekst betur til núna en síðast svo hún losni við þessar hjartsláttartruflanir fyrir fullt og allt.

Í fæðuöflun


lundi.jpg, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já það var brjálað að gera hjá lundanum í fæðuöflun fyrir ungviðið þegar við litum við í Hafnarhólma á fimmtudagsmorgni.

laugardagur, 29. júlí 2006

Ætla ekki

að gera alla brjálaða með því að þylja upp ferðasöguna í smáatriðum. Las yfir það sem ég hafði þegar skrifað og sá að þetta yrði þvílík langloka sem enginn hefði gaman af. Hér koma því í staðinn nokkrir punktar úr ferðalaginu:

- Að koma í Fellabakarí á Egilsstöðum er sérstök upplifun. Ekkert út á bakkelsið að setja samt.

- Þoka á Seyðisfirði kom í veg fyrir að við sæum til fjalla meðan á veru okkar þar stóð.

- Hótel Aldan er nýuppgert og í gömlum húsum en virkilega fínt og ef fólk tímir að eyða peningum í gistingu (ein nótt í tjaldi var nóg fyrir mig og þetta var eina gistiplássið sem var laust) þá er virkilega hægt að mæla með gistingu þar.

- Við gengum út að Skálanesi og sáum m.a. seli og fuglabjarg. Þar hjá er líka stærsti lúpínuskógur sem ég hef séð - og hundurinn Bjartur sem Ísak vingaðist fljótt við.

- Á Seyðisfirði var nýlokið listaviku unga fólksins og við borðuðum í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli, þar sem Valur keypti meðal annars póstkort af "íslenskri gleði" - en á kortinu er mynd af tveimur (frekar útlifuðum) mönnum að djúsa og spila á gítar.

- Á Seyðisfirði fórum við líka á kakjak, Ísaki til mikillar ánægju og svei mér þá ef ég hafði ekki bara nokkuð gaman af því líka...

- Þar fannst okkur við vera stödd í súrrealískri bíómynd þegar við ókum fram á tvíbura sem stóðu á gangstétt nálægt fiskvinnslufyrirtæki staðarins. Þeir voru alveg eins klæddir - báðir í ljósum buxum og ljósum jökkum, gott ef skórnir voru ekki hvítir, hárið farið að grána en andlitin sólbrún. Aldurinn óræður - líklega á milli sextugs og sjötugs!

- Á Borgarfirði eystri keyptum við okkur mat í félagsheimilinu Fjarðarborg en þar ræður mamma hans Magna (eina sanna) ríkjum. Steikti hún ofaní okkur hinar ágætustu lambakótilettur. Annars var allt á fullu í húsinu við að undirbúa breiðtjald og hljóð fyrir útsendingu kvöldsins frá Rockstar Supernova (er það ekki nokkuð rétt nafn á þættinum, er ekki alveg inn í þessu...).

- Þar fórum við líka í fuglaskoðun um kvöldið og vorum alein að fylgjast með ótalmörgum lundum og fleiri bjargfuglum í alveg yndislegu veðri.

- Við höfnina er vefmyndavél og stóðst ég ekki mátið að hringja heim í Andra (sem var í tölvunni aldrei þessu vant) og segja honum að hann gæti fylgst með okkur í beinni útsendingu :-)

- Um nóttina gistum við í farfuglaheimili staðarins og þar var ekkert fyllerí og engin læti heldur hinn besti svefnfriður enda flest útlendingar þar fyrir utan okkur.

- Álfasteinn býður upp á úrval hluta sem búnir eru til úr íslensku grjóti og þar fengum við okkur líka afbragðsgóða fiskisúpu með heimabökuðu brauði áður en við lögðum í hann heim aftur.

- Borgarfjörður eystri er með fallegri stöðum á landinu, þar er mikil friðsæld og fólkið með afbrigðum almennilegt.

föstudagur, 28. júlí 2006

Komin heim aftur

úr frábærri ferð austur á land. Ekki var nú farið sérlega víða enda var það ekki tilgangur ferðarinnar en þetta var sem sagt afskaplega ljúf og góð ferð. Til að gleðja lesendur síðunnar (eða þannig) fylgir hér hóflega löng ferðalýsing og þeir sem ekki hafa áhuga á slíkum lýsingum geta hætt að lesa hér með...

Mánudagur:

Vöknuðum heima í Vinaminni og tókum okkur til í rólegheitum. Meiningin var að tjalda í Atlavík um kvöldið en langt var um liðið síðan tjaldið hafði verið notað síðast. Fannst það þó, ásamt svefnpokum og vindsængum, á vísum stað í bílskúrnum. Lögðum við svo af stað austur um eittleytið en fyrst þurfti frúin að koma við í 66 gráður norður og kaupa sér létta peysu því heitt var í veðri og ljóst að þykka flíspeysan væri "too much" í hitanum.

Fyrsta stopp var á Skútustöðum í Mývatnssveit en þar var keyptur ís til að halda upp á það að við værum í sumarfríi saman fjölskyldan. Reyndar aðeins þrír fimmtu hlutar hennar því Hrefna og Andri voru bæði í vinnu og komust þ.a.l. ekki með.

Áfram var ekið en ekki svo lengi því við höfðum ákveðið að á og borða nestið okkar á Möðrudal á Fjöllum. Þar var yfir 25. stiga hiti og ég var að kafna úr hita en á sama tíma var alveg yndislegt að vera þarna og horfa á tilkomumikla fjallasýnina.

Við hefðum í raun alveg getað hugsað okkur að vera þarna áfram en Atlavík beið... svo við héldum áfram og komum til Egilstaða um fimmleytið. Fórum í Bónus og Kaupfélagið og versluðum í kvöldmatinn + einnota grill til að elda á. Brunuðum svo í Atlavík og eftir að hafa beðið árangurslaust eftir tjaldverði fundum við okkur stað til að tjalda á.

Ég þurfti nú aðeins að horfa á tjaldið og rifja upp hvernig á að setja það saman en Valur (sem hefur mun meira verkvit en ég) þurfti ekkert að rifja upp. Þá var komið að því að elda en þegar til átti að taka kviknaði ekki í einnota grillinu. Það varð okkur til happs að rétt hjá okkur var kona sem ég hafði verið með í konuklúbbi fyrir mörgum árum síðan og þau hjónin lánuðu okkur sitt ferðagasgrill og björguðu þannig máltíðinni.

Næsta mál á dagskrá var að blása upp vindsængurnar. Byrjað var á þeirri minni og í fyrstu leit þetta ágætlega út en svo sáum við að loftið lak allt úr henni. Ástæðan var sú að stærðar rifa var þvert yfir vindsængina en við höfðum ekki tekið eftir henni þegar við pökkuðum í bílinn. Þannig að vindsængin sú fór í tunnuna ásamt einnota grillinu.

Það gekk betur að blása upp vindsæng númer tvö og að því loknu fórum við í gönguferð upp að Ljósárfossi sem er þarna skammt frá. Komin til baka aftur fórum við að taka okkur til í háttinn og fann ég þá fljótt að rassinn á mér nam við tjaldbotninn, þ.e.a.s. vindsængin var ekki alveg að virka. Valur tók að sér að sofa á einangrunardýnu sem var með í för, í stað vindsængurinnar sem lenti í ruslinu.

Ekki leið þó á löngu þar til við gerðum okkur grein fyrir því að ekki yrði um svefn að ræða alveg á næstunni. Fólkið í nágrenni við okkur hafði verið að drekka öl og vín frá því fyrir kvöldmat og ekkert lát var á þeim gleðskap þó á mánudagskvöldi væri. Fór það svo að Ísak sofnaði fljótt en við Valur vöktum lengur og ég gat ekki sofnað fyrr en um þrjúleytið en þá hætti fjörið.

Framhald síðar...

mánudagur, 24. júlí 2006

Á leið austur á bóginn

Það stóð alltaf til að ferðast smávegis í sumarfríinu. Við Valur fórum reyndar suður í síðustu viku til að heimsækja mömmu hans sem fékk kransæðastíflu og fór í hjartaþræðingu - en þar fyrir utan höfum vð að mestu (eða alfarið) verið heima. Það er hið besta mál að slappa af heima í sumarfríinu, sérstaklega ef veðrið er gott. Við borðuðum t.d. úti í fyrrakvöld í sólskini og hita og hefðum ekki verið ánægðari þó við værum á Ítalíu eða öðrum suðrænum stað. Í gærkvöldi vorum við boðin í dýrindis máltíð, hreindýrahrygg, hjá vinafólki okkar sem er því miður að flytja suður (eins og svo margir aðrir...). En í dag verður líklega kvöldmatur á Egilsstöðum eða í Atlavík þar sem ætlunin er að gista í tjaldi að beiðni Ísaks. Svo er meiningin að kíkja á Seyðisfjörð og Borgarfjörð eystri en aldrei að vita nema það breytist og við spilum þetta af fingrum fram.

Þetta var skýrsla dagsins, sérstaklega skrifuð fyrir ættingjana svo þeir viti hvar okkur er að finna á næstunni :-)

fimmtudagur, 20. júlí 2006

Ég sé á teljaranum enn eru einhverjir sem heimsækja síðuna

þrátt fyrir dugleysi mitt við að blogga. Ég á erfitt með að ákveða hvort ég á að halda áfram að blogga, hætta þessu eða bara taka pásu. Upphaflega var þetta hugsað sem eins konar leið til að æfa mig í að koma hugsunum mínum á blað, sem sagt að skrifa á bloggið í stað þess að skrifa fyrir skúffuna, en mér finnst það ekki vera að virka sem skyldi. Svo breyttist þetta í hálfgerða skýrslugerð til vina og ættingja, með smá vangaveltum í bland, en mér finnst það heldur ekki vera að virka sem skyldi. Þannig að ég veit ekki alveg hvert framhaldið verður. Samt finnst mér bloggið sem samskiptamáti alveg frábær uppfinning og ég hef haft gaman af því að "kynnast" nýju fólki í gegnum bloggið. Mér finnst líka alveg frábært hvernig þessi bloggheims-kynni hafa leitt til kynna í raunheimum hjá mörgum s.s. Baun, Fríðu, Önnu.is, Lindublindu, Hugskoti og Hörpu og örugglega fleirum. Sem sagt, er bara að velta þessu öllu fyrir mér... fer örugglega á fullt að skrifa næst þegar ég dett í blogg-stuð!

miðvikudagur, 12. júlí 2006

Og eiginmaðurinn stunginn af i veiði...

að fengnu leyfi frúarinnar :-) Ég er mjög hlynnt því að fólk sinni sínum áhugamálum og hvað er betra en standa á bakkanum í norðanátt og rigningu (svo fremi sem viðkomandi hefur gaman af því að veiða)? "Not my cup of tea" svo ég fái aðeins lánað úr engilsaxneskunni. Fínt samt að fara út að ganga í roki og rigningu, mig vantar bara betri regnfatnað. Gerði tilraun í fyrra til að kaupa mér regnjakka en þeir voru allir svo stuttir, náðu bara niður að rassi, ekki niður fyrir hann. Einhverra hluta vegna langar mig til að halda botninum á mér svona nokkurn veginn þurrum þó leggirnir megi blotna.

En svo ég hverfi nú aftur að málefninu sem varð kveikjan að þessum pistli þá hafði Valur verið búinn að ákveða (áður en hann fékk þetta fína tilboð um veiði) að hafa heimatilbúnar pítsur í kvöldmatinn og eitt það síðasta sem hann sagði áður en hann fór var að þær yrðu þá bara á morgun í staðinn. Hér sit ég svo eftir með sárt ennið og veit ekkert hvað ég á að hafa í matinn - fæ nánast kvíðakast þegar ég stend frammi fyrir því að þurfa að elda sjálf. Er búin að reyna að kasta boltanum til Andra (hann tók heimilisfræði sem valfag í vetur í skólanum og ég veit að þau voru alltaf að elda eitthvað fínt og flott í tímum...) en hann sendi boltann strax tilbaka til mín. Hm, spurning að bíða með frekari ákvarðanatöku þar til dóttirin kemur heim úr vinnunni, kannski hún hafi einhverjar brilljant hugmyndir :-)

Þá er eldri sonurinn endurheimtur frá Svíþjóð

eftir góða ferð þangað. Þetta hefur verið skemmtileg upplifun fyrir krakkana en alls fóru ríflega fimmtíu krakkar frá Akureyri á handboltamótið. Og mér skilst að um 400 hundruð íslenskir krakkar hafi verið á mótinu í allt. Þau fengu gott veður nánast allan tímann og það spillir nú aldrei fyrir.

Þau komu í gærkvöldi með Iceland Express frá Kaupmannahöfn og lentu á Akureyrarflugvelli. Ekki er nú beint hægt að segja að aðstaðan þar sé góð til að taka á móti farþegum úr millilandaflugi. Búið var að loka komusalnum svo við þurftum annað hvort að bíða á gangi við innganginn - eða úti. Við völdum seinni kostinn enda var veðrið yndislegt en það er kannski ekki jafn spennandi yfir vetrartímann...



mánudagur, 10. júlí 2006

Trip down memory lane

Ég er enn að laga til og henda gömlu dóti sem ekki hefur verið notað í ár og öld. Sem dæmi má nefna skólabækur í heimspeki og sálfræði frá 1991-1994, gamla skátabakpokann minn, gömul ónýt leikföng, gömul föt, glósur úr viðskiptafræðinni og margt margt fleira. Því miður verður þetta til þess að sorpið á ruslahaugunum eykst töluvert og minnir mig á það í hvílíku ófremdarástandi sorpmál Akureyringa eru. Það er ófögur sjón sem mætir fólki sem ætlar að ganga á Súlur og þarf að fara fram hjá sorphaugunum á þeirri ferð sinni.

En kosturinn við svona tiltekt er líka sá að við að fara í gegnum dótið (ég grandskoða þetta allt og geymi margt þó ég hendi mörgu) þá rifjast upp svo margar góðar minningar. Áðan fór ég t.d. í gegnum kassa með leikföngum og fann m.a. dúkkur og dúkkuföt sem Hrefna átti þegar hún var lítil. Í pokanum með dúkkufötunum voru föt sem Anna systir hafði prjónað, ég hafði saumað og prjónað, og til að kóróna það, föt af Hrefnu sjálfri frá því hún var pínu pons. Ef þetta kveikir ekki minningar þá veit ég ekki hvað!


sunnudagur, 9. júlí 2006

Er að laga til og henda ýmsu dóti

en eins og einhverjir lesendur muna eflaust eftir þá er það mín þerapía þegar ég þarf að koma skipulagi á hugsanir mínar. Í þessari tiltekt fann ég herðatré - úr tré - með verðmiðanum ennþá á því, en á honum má sjá að herðatréð kostaði 8 krónur og var keypt í Amaro. Sú verslun er ekki til lengur sem slík, einungis sem heildverslun. Gaman væri að vita hvenær herðatréð var keypt... en þess ber að geta að ég fékk það (ásamt ýmsu öðru smálegu) með húsinu þegar við keyptum það af mömmu.

Hús hafa alltaf heillað mig

og þegar við bjuggum í Bergen fyrir löngu síðan fékk ég þá hugmynd að taka ljósmyndir af húsum sem höfðuðu til mín á einhvern hátt. Þau þurfa ekki að vera "flott", bara höfða til mín. Ekki hefur nú  orðið neitt úr þessari hugmynd ennþá en mér finnst fátt skemmtilegra en virða fyrir mér hús - og glugga - þegar ég er úti að ganga. Í síðustu viku gekk ég í vinnuna (alveg tvisvar sinnum held ég... en það er aukaatriði í þessu samhengi) og gerði mér þá far um að ganga aðrar leiðir en ég geri dags daglega. Sá þá mörg hús sem ég hef ekki tekið eftir áður og líka hús sem ég hef séð, en í þetta sinn frá nýju sjónarhorni. Og gluggarnir eru alveg sér kapítuli. Í einum glugga voru gamlar kaffikönnur, kókdósir úr áli þöktu heilan glugga í öðru húsi og í enn einu húsi voru pelargóníur í öllum gluggum sem snéru að götunni. Svo eru það gömlu húsin sem bera það með sér að þar býr eldra fólk, út frá skrautinu í gluggunum. Og gömlu húsin sem ungt fólk er búið að gera upp og minimalisminn ræður ríkjum. Já það er af nógu að taka - og þetta er bara svo gaman - að sjá allan fjölbreytileikann!

miðvikudagur, 5. júlí 2006

Engin þreyta í dag - bara léttleiki tilverunnar

Vildi bara láta vita...

Annars er Essomótið í fótbolta byrjað og Ísak búinn að spila einn leik og er að gera sig kláran í þann næsta. Hann er nokkuð heppinn með tímasetningar á sínum leikjum en það er verið að spila frá átta á morgnana til tíu á kvöldin, á tíu völlum, svo það er aldeilis hamagangur í öskjunni. Svona stór mót takast ekki án sjálfboðavinnu foreldra og foreldrar í 5. flokki sjá um matinn á mótinu. Ég bauð Val fram í að aðstoða við morgunmatinn og þarf hann að mæta klukkan 6.30 næstu fjóra morgna og vera til kl. 10. En hann kvartar ekki heldur mætir örlögum sínum með sóma ;-)

Svo hringdi Andri í dag frá Gautaborg, þar sem hann er staddur á handboltamóti. Helstu fréttir voru þær að fullt væri af sætum stelpum... greinilegt hvað skiptir mestu máli... eða þannig. Mikilvægast var auðvitað að þeir voru búnir að spila tvo leiki og vinna þá báða. Og hann var sæll og glaður með þetta allt saman enda líka gott veður til að kóróna allt saman.

Ég er búin að panta flugmiða fyrir mig og Ísak til Noregs þann 4. ágúst. Það eru tvö ár síðan við fórum síðast og þá í júnimánuði. Þá fengust ekkert nema sumarföt í búðunum svo núna stílaði ég á að fara í ágúst þegar haustfatnaðurinn væri farinn að streyma í verslanir :-) Segið svo að maður sé ekki praktískur!

þriðjudagur, 4. júlí 2006

Ísak og Sigurður að horfa eftir hvölum

Sit við tölvuna

og skamma sjálfa mig fyrir letina sem er að drepa mig. Er í einhverju óskaplegu þreytukasti og var dagurinn í gær nánast ónýtur fyrir þær sakir. Tókst þó að standa mig í stykkinu í vinnunni en hrundi saman um leið og ég kom heim. Fór m.a. með Val í búðarleiðangur en beið í bílnum meðan hann fór í Hagkaup - og sofnaði í bílnum!! Kom heim og sofnaði með köttunum á meðan Valur eldaði kvöldmatinn og sofnaði aftur í klukkutíma eftir matinn. Var alveg viss um að ég gæti örugglega ekki sofnað um kvöldið (hafði nefnilega ekki getað sofnað síðustu tvo kvöld þar á undan og var þess vegna orðin svona þreytt) en viti menn, ég steinsofnaði og svaf í alla nótt. Var mun hressari í morgun og á meðan ég var í vinnunni en svo kallaði sófinn svo hátt á mig að ég varð að hlýða... Afrekaði þó að ryksuga fyrir matinn, vá dugleg! en það er ennþá eftir að skúra eldhúsgólfið og þrífa klósettin. Mér datt í hug að það gæti verið hressandi að fara út að ganga en hef ekki komist lengra í þeirri fyrirætlan en horfa út um gluggann...

Nú er ég búin að vinna í búðinni í einn mánuð og það var fyrst í gær sem ég fékk pínulítið fúlan viðskiptavin. Fólk er yfirhöfuð kurteist og geðgott og í heildina hefur þetta bara verið mjög gaman. Í vikulokin kemur Sunna verslunarstjóri heim úr sumarfríinu og ætli ég fari þá ekki í frí með mínum manni. Hins vegar er ekkert planað - svo það er fullkomin óvissa sem tekur við. Ætli við reynum ekki bara að slappa af og hafa það gott. Eitthvað hefur reyndar heyrst um að húsið þarfnist málningar en ætli það bíði ekki næsta sumars.

Blogged with Flock