föstudagur, 31. mars 2006

Er ekki að nenna þessu!

Mér er orðið illt í rassinum af því að sitja svona mikið - ég hef heldur aldrei haft þann hæfileika sem Bryndís fyrrum samstarfskona mín kallaði "setgírinn", að geta setið nánast endalaust án þess að standa upp. Er örugglega búin að fara milljón ferðir á klósettið og fram að sækja mér vatn að drekka síðan klukkan eitt og klukkan er bara 14.13 þegar þetta er skrifað. Arg!

Það var þó kosturinn við að vinna sem sjúkraliði hérna í den að þegar maður kom heim eftir vaktina þá var maður í fríi. Þó ég fari heim klukkan fjögur þá get ég í mesta lagi tekið mér frí á morgun og svo þarf ég að eyða sunnudeginum í að undirbúa mánudaginn. Björtu hliðarnar eru þær að þetta tekur brátt enda!

Það var hver mínúta nýtt til hins ýtrasta í gær

Byrjaði á því að synda í gærmorgun og var komin í vinnuna um hálf níu. Vann á fullu til hálf tólf en fór þá út og gekk smá hring í góða veðrinu. Keypti mér samloku og var í vinnunni til hálf fjögur en þá fór ég heim. Reif mig úr vinnufötunum og byrjaði á því að ryksuga alla efri hæðina en ákvað svo að skúra líka því mér fundust gólfin vera orðin svo skítug. Að þessu loknu fór ég í kvennaklúbb og borðaði kökur og speltbrauð í skemmtilegum félagsskap. Var komin heim fyrir sjö og eftir að hafa fengið mér smá eggjaköku í boði bóndans ákvað ég að drífa mig aftur út í vinnu. Sem ég og gerði og náði tæpum tveimur tímum í verkefnayfirferð. Heima aftur horfði ég á einn sjónvarpsþátt og fór svo að sofa.

Nú er bara að reyna að vera jafn dugleg í dag! Sem er ekki líklegt því ég hef ekki úthald í miklar vinnutarnir - verð svo þreytt - ætli það sé ekki ellimerki?

mánudagur, 27. mars 2006

Mikið að gera í vinnunni

þessa dagana og enginn tími né orka til að gera nokkuð annað. Reyni samt að komast sem oftast í sund svo vöðvabólgan nái ekki að yfirbuga mig. Var að vinna lungann úr helginni og eftir að ég kom heim í dag en gafst svo upp og eyddi kvöldinu fyrir framan imbakassann. Horfði fyrst á Grey's anatomy og síðan á Huff (ef einhverjir skyldu nú vita hvaða þættir það eru).

Vangaveltur varðandi framtíðina eru enn og aftur farnar að láta á sér kræla. Ég ætla jú að hætta í núverandi starfi í vor/sumar og þá er spurning hvað tekur við. Er ekki enn búin að skrá mig hjá Mannafli og ástæðan er aðallega sú að ég veit ekki hvað mig langar að vinna við. Þarf samt að gera eitthvað, það er það eina sem ég veit!

laugardagur, 25. mars 2006

Hvað skyldu eftirfarandi hlutir eiga sameiginlegt?

- tunguspaðar
- rafhlöður í laser
- heklunál
- spúnn
- tonnatak
- tússlitir
- lúsakambur
- páskahæna
- vængbrotinn engill
- gullpenni til að skrifa á jólakort
- happdrættismiði frá árinu 2001
- strokleður
- perur í jólaseríu
- naglaþjöl


Einhverjar uppástungur?

fimmtudagur, 23. mars 2006

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi

að fá að passa 3ja og hálfs mánaða gamla prinsessu í dag meðan mamma hennar fór að versla. Ekkert smá gaman! Hún var líka svo einstaklega góð, hjalaði, hló og var hin ánægðasta hjá mér. Mér tókst meira að segja að svæfa hana og fékk að upplifa þetta klassíska augnablik þegar börnin hafa sofnaði í fanginu á manni og svo þegar maður ætlar að leggja þau frá sér þá glaðvakna þau og láta óánægju sína í ljós. En hún sofnaði fljótt aftur og þá gat ég lagt hana niður. Mér finnst alveg ógurlega gaman að börnum og viðurkenni að það fer að "hringla í eggjastokkunum" þegar ég kemst í svona nána snertingu við eitt lítið - en það var nú líka gott að geta bara skilið hana eftir hjá mömmu sinni og þurfa ekki að vakna til hennar í nótt... Svo ég bíð bara eftir barnabörnunum - þó það geti nú orðið bið þar á. Býð mig bara fram sem barnapíu fyrir Mörthu Mekkin þangað til.

þriðjudagur, 21. mars 2006

Ég er svo (ó)heppin

að allir fjölskyldumeðlimir (nema ég) eru brjálaðir í Brynjuís. Í upphafi var það Valur og ég á myndir af honum borðandi Brynjuís í Furulundi 8k en þar áttum við heima fyrir einum 18 árum síðan. Hrefna komst líka fljótt upp á lagið í ísnum og hið sama gildir um Andra og Ísak. Mér finnst Brynjuís reyndar góður en ég þarf ekki að fá hann helst vikulega eins og sumir... Og þar sem þetta er mjólkurvara þá verður mér sjálfsögðu illt í maganum eftir að hafa borðað hann. En haldið þið að það dugi til að ég sleppi því að borða ís þegar hinir eru að fá sér? Onei, að sjálfsögðu ekki. Það er aðeins í undantekningartilfellum að ég hef nægan viljastyrk til að segja "nei takk" við Brynjuís - og mér tókst það sem sagt ekki í kvöld. Fékk mér reyndar bara eina kúfaða matskeið en það er engu að síður nægjanlegt magn til að koma maganum á mér í uppnám. Sterkur leikur svona rétt fyrir nóttina!

föstudagur, 17. mars 2006

Hversu vitlaus getur maður eiginlega verið?

Er búin að vera að drepast úr súkkulaðilöngun í 2-3 daga núna og "datt í það" núna áðan. Keypti mér 100 gr. poka af súkkulaðirúsínum frá Nóa-Síríus (ísköldum og góðum úr sjálfsala) og er búin að vera að háma þær í mig síðasta klukkutímann eða svo. Árangurinn lætur ekki á sér standa, ég er að drepast í maganum ;-( Þoli mjólkurvörur illa og auðvitað er þetta mjólkursúkkulaði sem er utan um rúsínurnar! Það sem verra er, ég vissi það auðvitað fyrir fram að ég myndi ekki þola þær í maga. Græðgin gjörsigraði gáfurnar í þessu tilviki.

Tilviljanir eru skondnar

Í gærmorgun þegar ég var að keyra í sundlaugina stoppaði ég við innkeyrsluna að planinu hjá Íþróttahöllinni til að hleypa tveimur stelpum yfir götuna. Þetta voru systur, önnur á unglingsaldri og hin ca. 6-7 ára, og sú eldri hélt í hendina á yngri systur sinni.

Núna áðan var ég aftur á leiðinni í sund og stoppaði fyrir sömu systrunum, á sama stað, og aftur leiddi sú eldri þá yngri.

Þetta væri auðvelt að skýra með því að ég færi alltaf á nákvæmlega sama tíma í sund - en ég var sem sagt ekki á ferðinni á sama tíma í dag og í gær.

miðvikudagur, 15. mars 2006

Táp og fjör og frískir menn...

Einhverra hluta vegna dettur mér þessi ljóðlína í hug þegar ég hlusta á hávaðann sem berst til mín að utan. Ísak átti 11 ára afmæli í gær og það er verið að halda upp á það núna. Úti eru 16 frískir strákar að leika sér, sumir eru í eltingaleik á meðan aðrir lemja á húðirnar í bílskúrnum (nágrönnunum til ómældrar ánægju líklega..). Valur og Andri fóru að sækja pítsur handa strákahópnum og ég - ég reyni að njóta lognsins á undan storminum ;-) Veit að það verður mikið fjör þegar þeir koma inn, örugglega orðnir sársvangir eftir öll hlaupin í "Löggu og bófa". Þá þurfa helst allir að fá pítsu og gos samstundis og ég reikna með að það verði handagangur í öskjunni. Best að fara að gera klárt...

þriðjudagur, 14. mars 2006

Mikið sem ég er orðin þreytt á þeirri gróðahyggju

og fjármagnsdýrkun sem einkennir íslenskt samfélag um þessar mundir. Er ekki kominn tími til að snúa þessu við og huga aðeins að mýkri gildum og því sem virkilega skiptir máli í lífinu?

mánudagur, 13. mars 2006

Er alveg hrikalega pirruð

akkúrat í augnablikinu en get víst ekki gefið upp ástæðuna fyrir því hér á almennum vettvangi. Nú er bara spurningin hvað ég á að gera til að ná þessum pirringi úr mér? Þarf að ryksuga + þrífa + þvo þvott + taka úr uppþvottavélinni, ég ætti sennilega að setja góða tónlist í spilarann og ráðast til atlögu við heimilisverkin... en fyrst þarf ég að skutla Andra á æfingu og skila bókum á bókasafnið sem eru komnar fram yfir skiladag.

sunnudagur, 12. mars 2006

Helgin hefur verið býsna annasöm

en fjörið byrjaði strax á föstudaginn. Þá var opnunarhátíð hjá Læknastofum Akureyrar milli fimm og sjö, freyðivín, snittur og fullt af fólki. Um kvöldið fóru síðan eigendurnir fimm ásamt eiginkonum út að borða á Friðrik V. og þar sátum við fram á nótt við margrétta gourmet máltíð. Á laugardeginum var Ísak að keppa á Goðamótinu í fótbolta ásamt félögum sínum í KA og það var eiginlega full vinna að fylgja honum eftir á mótinu. Þeir spiluðu þrjá leiki og fóru í ísferð í Brynju að deginum til og í gærkvöldi var svo kvöldvaka. Í morgun var síðasti leikurinn hjá þeim og þar á eftir drifum við okkur í fjallið á skíði í glampandi sól og blíðu. Fótboltamótinu var svo slúttað kl. 15.30 og þá var öllum boðið í grillaðar pylsur og kók. Síðan fór ég í Bónus að versla fyrir vikuna og er eiginlega sprungin á limminu akkúrat núna... Ætlaði að fara að klára að undirbúa kennslu morgundagsins en fór að blogga í staðinn - ætli sé ekki best að hætta því og gera eitthvað af viti ;-)

fimmtudagur, 9. mars 2006

Minnið er merkilegt fyrirbæri

Það er ótrúlega fyndið hvað í raun er lítið hægt að treysta á eigið minni. Sérstaklega vegna þess að fólk leggur svo ólíka hluti á minnið þó það hafi upplifað sama hlutinn. Sálfræðin hefur efalaust skýringar á þessu fyrirbæri og ég ætla ekki að reyna að útskýra þetta á neinn hátt. En ég hef t.d. tekið eftir því að við systir mín munum mjög ólíka atburði úr barnæskunni, hún man ýmislegt sem ég man ekki (en rifjast upp þegar ég heyri það) og ég man sumt sem hún man ekki (eða það held ég allavega...). Þetta var sem sagt langur formáli að því sem ég ætlaði að segja í dag.

Þegar ég var í sundi í gær voru konurnar í búningsklefanum að tala um Finna og þá venju þeirra að fara í ísbað (í vatni eða sjó) í 15 stiga frosti og svo í gufu á eftir. Þetta á víst að vera allra meina bót og þeir sem þetta stunda fá hvorki kvef né aðrar pestar. Þá spurði ein konan mig hvort ég myndi ekki eftir því að í gamla daga (þegar ég var krakki/unglingur) þá tíðkaðist að hólfa grynnið í sundlauginni af á veturna til að spara kostnað við að kynda upp laugina og vatnið í þessu hólfi var alltaf ískalt. Þessu hafði ég alveg verið búin að gleyma - en rifjaðist upp fyrir mér þegar hún fór að tala um það. Það var sport hjá okkur krökkunum og sumu fullorðna fólkinu líka að fara stundum í köldu laugina og synda nokkrar ferðir. Þetta kom blóðinu svo sannarlega á hreyfingu og maður þóttist nú aldeilis svalur! Þeir allra svölustu lögðust svo í snjóinn á eftir og veltu sér aðeins - ég var örugglega aldrei í þeim hópi. Að minnsta kosti rekur mig ekki minni til þess ;-)

þriðjudagur, 7. mars 2006

Mikið sem er gott

þegar daginn er farið að lengja aftur. Mér finnst það algjör munaður að vakna á morgnana og það er ekki lengur svartamyrkur úti. Þegar ég kem í sundlaugina um áttaleytið er orðið alveg bjart. Algjör snilld!

Annars er eitthvað stórundarlegt við mánudagskvöldin hjá mér en þá gengur mér alltaf svo illa að sofna. Sem gerir það að verkum að ég er drulluþreytt á þriðjudagsmorgni, sem lofar ekki góðu svona í upphafi vinnuvikunnar. Í morgun var ég hræðilega þreytt þegar ég vaknaði en viti menn - var bara hress í allan dag - alveg þar til núna. Sem er náttúrulega hið besta mál, mér finnst svo hrikalega leiðinlegt að vera þreytt í vinnunni. Á tímabili var ég farin að nota kaffi og súkkulaði sem vopn í baráttunni við þreytuna marga daga í röð. Og mér sem finnst kaffi alveg hræðilega vont! Annað en mínum heittelskaða sem er mikill kaffidrykkjumaður. Hann kannski drekkur ekki svo mikið kaffi en nýtur þess í ystu æsar þegar hann fær gott kaffi. Þá er nú aldeilis heppilegt að hann á réttu græjurnar!

sunnudagur, 5. mars 2006

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli séð úr bænum


Hlíðarfjall, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ákvað að hvíla mig á skíðunum í dag en leyfa lesendum síðunnar að sjá af hverju ég er að missa... Tók þessa mynd uppi á hól fyrir aftan húsið okkar. Myndgæðin eru kannski ekkert sérstök en með góðum vilja má greina skíðahótelið og brekkurnar ;-)

laugardagur, 4. mars 2006

Fórum aftur á skíði í dag

og ég var bara alveg púnkteruð eftir það. Lagðist upp í sófa og flutti mig svo þaðan inn í rúm - var algjörlega ónothæf í tvo tíma eða rúmlega það. Meiri auminginn! En Ísak stóð sig eins og hetja á brettinu og er bara farinn að svífa um brekkurnar. Akureyrarbær bauð uppá skíða- og brettakennslu á skólatíma fyrir fimmtubekkinga og þegar Ísak var búinn að fara tvisvar þá var hann greinilega kominn með góðan grunn. Valur lét sér nægja að dóla sér í Fjarkanum með okkur hinum og fór ekkert upp í Strýtu í þetta sinnið. Nú sit ég sem sagt fyrir framan tölvuna (ætti að vera öllum ljóst) og ætla að kíkja á nokkur verkefni sem ég tók með mér heim. Hvað er betra en eyða laugardagskvöldi í að fara yfir verkefni?

föstudagur, 3. mars 2006

Þá eru umsóknirnar hennar Hrefnu

um skólavist í Danmörku farnar af stað í ábyrgðarpósti. Þetta er búin að vera töluverð vinna hjá henni að safna saman öllum nauðsynlegum gögnum, vottorðum frá skólum og atvinnurekendum, skrifa umsóknarbréf og ferilskrá o.s.frv. Nú er bara að vona það besta :-)

fimmtudagur, 2. mars 2006

Synirnir eru í vetrarfríi

og því var alveg upplagt að skella sér í fjallið í dag. Því miður komst Andri ekki með okkur þar sem hann er tognaður í nára en við Valur og Ísak fórum. Veðrið var alveg yndislegt, sól og ca. fimm stiga frost og við renndum okkur stanslaust í nærri tvo tíma. Það voru fáir á skíðum og engin biðröð í lyftuna. Ég er nú ekki neitt rosalega góð á skíðum en fer mér bara hægt og nýt þess að vera úti.

Prufa

Er að prófa að blogga eftir nýjum leiðum, beint gegnum vafrann sem ég nota flock.com