miðvikudagur, 1. september 2021

Hvað eru margir dagar eftir í árinu?

 

Já það hefur ekki gengið vel með 100 daga bloggáskorunina mína. Búin að blogga sjö sinnum - "bara" 93 skipti eftir ... Veit ekki alveg hvort ég á að hlægja eða gráta. 

En nú er ég hætt í vinnunni (held ég hafi reyndar aldrei skrifað um vinnuna mína fyrir Heilsubankann hér, geri það kannski seinna) og hef allan tíma í heiminum til að blogga. Svo nú duga engin vettlingatök!! 

Akkúrat núna er ég reyndar á leiðinni í höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun (skemmtilega langt heiti á íslensku yfir það sem heitir craniosacral therapy á ensku). Þetta meðferðarform hentar mér afskaplega vel og ég hlakka mikið til að fara, enda fyrsti tíminn minn í tvo? mánuði. 

Í gær byrjaði ég í nýrri leikfimi hjá Gaman saman. Ég hef stundum áður daðrað við tilhugsunina um að prófa þetta en ekki fundist ég í nógu góðu formi held ég. Hins vegar þarf ég að gera eitthvað annað en fara í sund á morgnana, styrkja mig betur og svo er stór plús að æfingarnar fara fram utandyra. Þá valdi ég að vera í tíma kl. 12, til þess að geta verið úti þegar bjartast er að deginum í myrkasta skammdeginu í vetur. Þetta var hress hópur kvenna og mér líst mjög vel á þjálfarana. Ekki er verra að allir eru hvattir til að gera bara eins og þeir geta, ekki fara fram úr sér. 

Jæja ég þarf víst að drífa mig svo ég komi ekki of seint í tímann. Myndin sem fylgir var tekin í sumarfríinu okkar, þetta eru Valur og Erik á göngu í Skaftafelli. 

        P.S. Þetta er bloggfærsla 8/100 í bloggáskorun ársins 2021

Engin ummæli: