Eða öllu heldur bara eitthvað blaður af því ég var í þörf fyrir að skrifa. Hljómar ekki beint líklegt til vinsælda - en það hefur nú heldur aldrei verið markmiðið með mínum bloggskrifum.
Það er föstudagseftirmiðdagur. Ég sit í öðrum nýja gula Ikea stólnum okkar og það fer vel um mig. Okkur langaði í smá tilbreytingu í stofuna og eftir að hafa verið með sama sófasettið í 13 ár (sem við keyptum þar að auki notað á sínum tíma) þá ákváðum við að kaupa þessa gulu stóla til að lífga aðeins uppá stofuna.
En þegar stólarnir voru komnir þá fannst okkur þeir engan veginn passa með gömlu sófunum, svo við notuðum tækifærið í einni Reykjavíkurferðinni og þræddum húsgagnaverslanirnar í leit að hinum eina rétta sófa. Hann fundum við í Epal, en það var síðasta verslunin sem við fórum í. Ekki skemmdi fyrir að hann var á 50% afslætti (ég er alltaf svo ánægð þegar ég geri góð kaup) en það var ekki ástæðan fyrir því að við keyptum hann (þó svo að við hefðum sennilega aldrei keypt hann á fullu verði). Nei okkur fannst hann bara fallegur í laginu, fallegur á litinn og þægilegur að sitja í.
Og til gamans kemur hér ljósmynd af herlegheitunum sem ég smellti af á símann til að senda Hrefnu í Köben svo hún gæti séð hvernig þetta lítur út hjá okkur. Uppröðunin er nú að vísu ekki akkúrat svona núna í augnablikinu en það er nú aukaatriði. Það er svo á dagskránni að láta lækka sófaborðið aðeins þar sem nýi sófinn er töluvert lægri en sá gamli.
Annars segi ég bara allt meinhægt. Þetta sumar hefur verið dálítið skrítið á ýmsan hátt. Það er þó jákvætt að við höfum farið þrisvar sinnum í hjólhýsaferðir :-)
Fyrst fórum við í ferð í Dalina með vinafólki, þar sem hluti hópsins var að hjóla á daginn og svo vorum við tvær „skutlur“ sem sáum um að sækja og senda ... eða þannig. Við sóttum hjólarana t.d. á Stykkishólm (frá Laugum í Sælingsdal þar sem við vorum með tjaldbúðir) svo þau þyrftu nú ekki að hjóla báðar leiðir, enda mjög löng leið að hjóla á miserfiðu undirlagi (þvottabretti sums staðar) og í miklum mótvindi á köflum.
Næst fórum við í Mosfellsdalinn þar sem við gistum í sex nætur. Það var blanda af gamni og alvöru því mamma hans Vals var orðin svo veik og lést á meðan við vorum þarna. Við vorum afskaplega þakklát fyrir að geta verið á staðnum þegar svona bar undir. Við notuðum samt líka tímann í annað, s.s. að fara dagsferð út fyrir borgina, auk þess að fara á hin ýmsu söfn og í heimsóknir.
Þriðja ferðin var á Möðrudal á Öræfum, en síðasta bloggfærsla fjallaði einmitt um þá ferð.
Helst hefðum við viljað fara í fleiri hjólhýsaferðir en slæmt veður og heilsuleysi hefur komið í veg fyrir það. En þar fyrir utan, þá fór ég eina stutta ferð suður í byrjun júní og sótti Hrefnu, Egil og Erik til Keflavíkur þegar þau komu heim í sumarfrí og til að vera viðstödd stúdentsveisluna hans Ísaks. Valur hefur farið þrisvar sinnum í veiði. Við fórum líka til Reykjavíkur í jarðarför tengdamömmu og svo fór ég til Köben og var þar í eina viku eftir jarðarförina. Þannig að við höfum verið á töluverðu flakki.
Ég hef stundum farið af stað og verið drulluþreytt og illa upplögð en einhvern veginn þá næ ég að lifa af ferðalögin og njóta þeirra, þó svo ég detti í nýtt þreytu- og gigtarkast við heimkomuna.
Jæja ég held ég segi þetta gott í dag. Njótið helgarinnar :-)