laugardagur, 28. febrúar 2015

Amma Guðný

Það er pínu óraunverulegt að vera orðin amma, en engu að síður mjög gaman og gefandi. Erik Valdemar Egilsson fæddist 24. júlí og ég er búin að skreppa nokkrar ferðir til Danmerkur síðan. Fyrst fór ég í byrjun ágúst, síðan fórum við Valur í október (í tengslum við Spánarferðina), svo skrapp ég seinni partinn í nóvember og loks núna. Þau komu líka heim og voru hjá okkur í þrjár vikur um jólin, og svo bjargar Skype ótrúlega miklu. Erik er sprækur ungur herramaður sem finnst lífið svo spennandi að það megi ekki vera að sofa of mikið því þá missir maður jú af öllu fjörinu. Það er gaman hvað hann virðist þekkja mig og ömmuhlutverkið á vonandi bara eftir að verða betra og betra eftir því sem hann stækkar.  
Ég gisti hjá mömmu eina nótt á leiðinni út og það var virkilega ánægjulegt að sjá hvað hún er orðin frískleg eftir allar hremmingar síðasta árs. 



Útsýnið af svölunum hjá þeim. Það er að koma vor í Danmörku.  



miðvikudagur, 11. febrúar 2015

Blogg í andarslitrunum?


Ég er alveg ráðalaus varðandi það hvað ég á að gera við þetta blogg mitt. Reyna að rífa mig upp úr aumingjaskapnum, eða hreinlega hætta þessu? 
Það kemur ennþá yfir mig annað slagið að langa til að blogga en hugsanlega er þátttaka mín á blipfoto að ganga af blogginu dauðu. Ekki ætla ég að kenna manninum mínum um eitt né neitt, en honum finnst t.d. skemmtilegra að lesa það sem ég skrifa á blippinu, líklega vegna þess að ég hef ekki „misst mig“ jafnmikið í að skrifa þunglyndislegar færslur um vefjagigt, þreytu og örmögnun.
Samt finnst mér hálfgerð synd að láta þetta veslast svona upp, eftir að hafa bloggað í rúm tíu ár. Gallinn við blippið er líka að þar er bara hægt að birta eina mynd á dag, en hér get ég t.d. sett inn margar myndir í einu úr ferðalagi eða ljósmyndaferð, svo dæmi sé nefnt. Ég ætlaði alltaf að setja inn smá ferðasögu um Spánarferðina okkar núna í haust, en hef ekki haft mig í það. 
Það hefur náttúrulega ekki hjálpað til að ég hef verið hálf týnd eitthvað undanfarna mánuði, en svei mér þá ef það er ekki aðeins að byrja að rofa til hjá mér aftur ;-) Það er bara svo rosalega skrítið að sitja skyndilega ein heima alla daga, á meðan annað heimilisfólk fer í skóla og vinnu. Eins gott að ég hef Birtu hjá mér, hehe, veit ekki hvernig færi fyrir mér annars. Reyndar fer ég nú aðeins út úr húsi. Ég fer í sund flesta virka morgna, ég fer út að ganga með myndavélina, ég fer og kaupi inn, ég fer á fundi í ljósmyndaklúbbnum mínum, ég fer á kaffihús ... 
Sko! Nú er ég byrjuð á einhverju niðurdrepandi væli ;-) Alveg ótrúlegt hvernig mér tekst þetta. En ég kem víst bara til dyranna eins og ég er klædd hverju sinni. 
En já ætli ég segi þetta þá ekki bara gott í bili, svona áður en ég missi mig í meira volæði. Sem er engin ástæða til. Ég er bara eitthvað illa sofin og þreytt í augnablikinu. Yfirhöfuð, þá hef ég það ósköp gott og er þakklát fyrir svo ótal margt. Var ég búin að segja ykkur frá konunni sem fór að halda þakklætis-mynda-dagbók? Haily Bartholomew var óhamingjusöm, þrátt fyrir að ekkert sérstakt væri að hjá henni, og fór í kjölfarið að taka ljósmynd á hverjum degi af einhverju sem hún var þakklát fyrir þann daginn. Þetta gerði hún í heilt ár og líf hennar gjörbreyttist í kjölfarið. Hér er heimasíðan hennar og þar er m.a. að finna TED fyrirlestur þar sem hún lýsir þessu verkefni sínu.