- Öööö, það fer nú eftir því hvernig á það er litið. Ég er ekki í launaðri vinnu eins og er en hins vegar hef ég nú kannski ekki beint verið að chilla heldur.
Og svo kemur sagan af því hvernig mamma brotnaði rétt eftir að Pottar og prik hættu starfsemi, og svo framvegis ...
Það er sennilega ekkert skrítið þó fólk velti því fyrir sér hvað ég sé að fást við þessa dagana og mér finnst svo sem ekkert óþægilegt heldur að fá svona spurningar. En þá fer ég samt aðeins að velta því fyrir mér hvað framtíðin beri í skauti sér. Á sama tíma hef ég ákveðið að vera ekki í neinni atvinnuleit eins og er, þar sem markmiðið var jú að reyna að safna smá orku og komast til betri heilsu. Þannig að þetta er allt dálítið svona „haltu mér - slepptu mér“ dæmi. Ég fékk nú reyndar tilboð um smá atvinnu um daginn, eða verkefni öllu heldur. Það var á vegum Háskólans á Akureyri og hefði í sjálfu sér örugglega getað verið allt í lagi. Hins vegar dreymir okkur Val um að fara eitthvert til útlanda í haust og þá vorum við aðallega að hugsa um októbermánuð og það er einmitt sá mánuður sem aðalþunginn í verkefninu á að vera. Svo ég gaf það bara alveg frá mér.
Annars eru það nú ekki atvinnumálin sem hvíla þyngst á mér þessa dagana, heldur þetta mál með mömmu allt saman. Ég er að reyna að dvelja í núinu og hafa ekki áhyggjur af öllu en það gengur frekar treglega. Nú er samt allt á uppleið hjá henni, ég komin norður í land í bili og Anna systir kemur jú á morgun og stoppar í Keflavík í 5 daga, svo ég ætti að geta slakað aðeins á. Það breytir því samt ekki að ég hef sofið mjög illa þessar tvær nætur síðan ég kom heim (skil það ekki!) og er eitthvað svo búin á því. Ég skil heldur ekki hvernig mér tókst að halda mér gangandi (eða svona næstum því) í þennan tíma sem ég var í burtu, til þess eins að hrynja svo þegar ég kem heim... Þetta er svona eins og börnin sem eru voða þæg á leikskólanum og taka svo út alla óþægðina heima hjá sér ;-) En já já ég veit jú að þetta líður hjá. Ætti að vera farin að þekkja ferlið. Þreytt, verð pirruð á því að vera þreytt, langar að gera svo margt en líkaminn vill ekki. Ég synti t.d. engar 20 ferðir í morgun, held þær hafi orðið 14. Samt alltaf gott að fara í sund og ég hreinlega elska að fara í sund þegar sólin skín og ég get farið í útiklefann.
Hm jæja og mín komin með munnræpu ... það kom að því.
Ljósmyndaklúbburinn minn verður með sýningu í Lystigarðinum þriðja sumarið í röð. Ég tók að vísu ekki þátt í fyrra en ákvað að vera með í ár til að detta nú ekki alveg út úr þessu. Þannig að í gærkvöldi fórum við og settum upp sýninguna. Valur og tveir aðrir eiginmenn/sambýlismenn hjálpuðu til. Erfiðasti hlutinn er yfirleitt að ákveða uppröðun myndanna og sýnist hverjum sitt, en allt hefst þetta þó að lokum. Þemað í ár er „Óður til fánans“ í tilefni af 70 ára lýðveldisafmæli Íslands. Þannig að myndirnar eru í fánalitunum. Ég valdi mynd sem er í rauðum litum (sjá hér að ofan) en flestar hinna voru með hvíta og bláa litinn sem aðalliti. Blár himinn eða sjór og hvít fjöll. Ég átti líka meira af þannig myndum og var meira að segja búin að taka mynd með bláum aðallit til að hafa á sýningunni, en ákvað svo að hafa rauðu myndina því það var eiginlega meiri skortur á rauðum lit. Rauða myndin er líka hlýrri og vekur kannski upp jákvæðari tengingar hjá þeim sem á horfa. Mér finnst þessi bláa samt svolítið skemmtileg líka ;)