Hehe, já það vantar ekki fyrirsögnina, efniviðurinn er hins vegar kannski ekki alveg jafn dramatískur eins og hún segir til um. Málið er að:
1) Ég steinsvaf í alla nótt (sem gerist nánast aldrei), núorðið vakna ég yfirleitt a.m.k. einu sinni og stundum tvisvar á nóttu.
2) Ég vaknaði af sjálfsdáðum kl. 7 í morgun og fannst ég vera úthvíld (nokkuð sem gerist aldrei, í alvöru talað, ALDREI nokkurn tímann!).
3) Þetta tvennt til samans var alveg frábært. Þegar við bættist að ég var EKKI undirlögð af verkjum í skrokknum, þá var nú aldeilis tilefni til að fagna.
Full af ánægju yfir þessum góða degi, dreif ég mig í sund og synti níu ferðir án þess að hvíla mig og tíunda ferðin var flugsund, og svo synti ég tvær ferðir í viðbót. Hefði getað synt meira en ætlaði ekki að fara fram úr sjálfri mér. Á tímapunkti var ég alein í lauginni og það var notalegt á vissan hátt en ekki vildi ég nú hafa það þannig á hverjum degi samt.
Eftir sundið kom ég heim og fékk mér morgunmat. Síðan braut ég saman þvott, tók úr uppþvottavélinni og tók smá rispu með klútinn í eldhúsinu. Svo dreif ég mig í vinnuna um tíuleytið. Þar fékk ég þá ágætis hugmynd að vinna mér í haginn í bókhaldinu (næstu virðisauka-skil eru jú 5. desember og þá hef ég allt annað við tímann að gera). Eftir ca. klukkutíma bókhaldsvinnu var svo skyndilega allur vindur úr mér. Það var engu líkara en einhver hefði tekið nál og stungið á orku-blöðruna mína og púff! nema hvað það kom enginn hvellur. Þetta hefði eiginlega verið fyndið ef þetta hefði ekki valdið mér jafn miklum vonbrigðum og það gerði.
Hófst þá hið hefðbundna þreytutengda ferli, sem felst meðal annars í því að ég fer að leita mér að einhverju sem gefur mér skjótfengna orku. Ég átti 85% súkkulaði og byrjaði á því að gúffa í mig tveimur molum. Það dugði samt ekki til og þá var krukkan með hnetublöndunni opnuð og tvær stórar lúkur hurfu ofan í ginið á mér. Svo reyndar þurfti ég aðeins að sinna viðskiptavinum og gat þá ekki troðið í mig á meðan ;-) En gaman að segja frá því að hún Ella bloggari kom og heilsaði uppá mig í eigin persónu, svona af því hún var á ferðinni þarna framhjá.
Einhvern veginn tókst mér nú að komast í gegnum vinnudaginn. Þurrka af ryk (í fjórum áföngum), laga aðeins til, afgreiða og já borða meira ... Ég var reyndar óvenju lengi í vinnunni því við Sunna vorum að skoða nýjar vörur sem við erum að fara að panta, og það er alltaf smá höfuðverkur að ákveða hvaða vörur á að taka, sérstaklega þegar maður sér þær ekki nema á mynd í tölvunni.
Eftir vinnu fór ég að klára að gera upp ferð sem við erum að fara í um helgina, og erindaðist eitthvað meira í leiðinni. Það var slydda úti og ég berhöfðuð, svo akkúrat núna er hárið á mér alveg gasalega smart ... Það breytir því ekki að ég þarf að skreppa og kaupa í matinn í Nettó með mitt klessta hár. Já og sækja Val niður á bílaleigu, en hann var á Sauðárkróki að vinna í gær og í dag. Og að því sögðu, þá er best að drattast af stað svo hann þurfi nú ekki að bíða eftir frúnni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli