miðvikudagur, 30. október 2013

Fröken fótafúin

Já það er óhætt að segja að ég hafi notað fæturnar ansi mikið undanfarið. Við Valur skruppum nefnilega til Dublin í langa helgarferð (5 dagar) með vinnunni hans, og það vill nú verða þannig að maður gengur býsna mikið í borgarferðum. Þetta verður endalaust stapp einhvern veginn, en skemmtilegt samt, sem betur fer :-)

Við gistum á hóteli í miðborginni og það var alveg einstaklega vel staðsett. Aðal verslunargöturnar/hverfin í þægilegu göngufæri og allt morandi í kaffihúsum og veitingahúsum. Ekki skemmdi fyrir að maturinn á flestum stöðum var mjög góður. Veðrið var líka alveg ágætt, það gekk á með rigningarskúrum en svo skein sólin inn á milli. Hitinn var 10-14 stig svo þetta var ágætis sumarauki. Þeir sögðu Írarnir að það væri óvanalega heitt miðað við árstíma. Fólk var alls staðar mjög almennilegt og það væri gaman að fara aftur seinna til Írlands, stoppa lengur og ferðast meira.

Það sem við gerðum mest af í ferðinni var einfaldlega að rölta um götur og stræti, virða fyrir okkur mannlífið, kíkja aðeins í búðir og fara á kaffi- og veitingahús. Við versluðum nú frekar lítið, en sumir Íslendingarnir voru mun duglegri við það heldur en við. Við heyrðum af fólki sem hafði keypt allar jólagjafir og aðrar mögulegar gjafir fyrir allt næsta ár. Ég hafði ekki einu sinni verið búin að punkta hjá mér hluti sem mig vantaði, eins og ég hef þó yfirleitt alltaf gert áður en ég fer í utanlandsferðir. Kannski „simple living“ hugmyndafræðin sé búin að ná svona miklum tökum á mér ;-)

Einn daginn var veðrið ansi leiðinlegt og þá keyptum við okkur miða í útsýnis-strætó og fórum einn hring með honum. Stoppuðum samt bara á einum stað því tíminn var orðinn frekar naumur þann daginn. Það var á Museum of Modern Art  en listasafnið er gömlu húsi sem áður hýsti hersjúkrahús. Það var gaman að koma þangað en sýningarnar sem voru í gangi höfðuðu nú mis mikið til mín. Það var reyndar ein sýning (um listakonuna og arkitektinn Eileen Gray) sem hefði ábyggilega verið áhugaverð, en við höfðum ekki tíma til að sjá hana. Fengum okkur bara grænmetissúpu á kaffihúsinu og Valur fékk besta kaffibollann í ferðinni líka þar.

Ástæðan fyrir því að við vorum svona tímabundin, var sú að hópurinn sem við vorum í, ætlaði að hittast kl. 17:15 og eyða kvöldinu saman. Sem við og gerðum. Ferðinni var heitið í Jameson viský-verksmiðjuna (sem er núna safn) og þar var skoðunarferð um safnið og svo matur og skemmtiatriði. Írar leggja greinilega mikla áherslu á tvennt þegar kemur að því að skemmta ferðafólki. Í fyrsta lagi er það írsk þjóðlagatónlist og í öðru lagi „riverdancing“. Þetta er hvort tveggja mjög skemmtilegt en kannski í það mesta að fara á svipaða skemmtun tvö kvöld í röð, eins og við gerðum, en það var nú eiginlega óvart.

Daginn sem við fórum heim löbbuðum við Valur svo yfir í Trinity College háskólann, en hann er staðsettur í 5-10 mín. fjarlægð frá hótelinu. Það var alveg dásamlegt að koma þangað, maður gengur í gegnum hlið og er allt í einu kominn í allt annan heim, laus við skarkalann frá umferð og mannmergð. Við ætluðum nú eiginlega ekki að gefa okkur tíma til að skoða gamla bókasafnið (sem er víðfrægt) en fórum samt inn í minjagripaverslunina sem er þar inni, og þá sá ég glitta í bókasafnið uppi á næstu hæð og eftir það var ekki annað hægt en kíkja þangað upp, þó örstutt væri. Það var eiginlega eins og að stíga inn í bíómynd, þetta var svo flott en hálf óraunverulegt á sama tíma. Allar bækurnar í margra metra háum hillum og lykt af gömlum tímum sveif í loftinu, þrátt fyrir alla túristana.

Við flugum út snemma á fimmtudagsmorgni. Þetta var beint flug héðan frá Akureyri og það var þvílík dásemd. Við lentum síðan á Akureyrarflugvelli um tíuleytið á mánudagskvöldi, og vorum komin heim í hús 15-20 mínútum síðar.

Ég tók ekki með mér myndavélina mína út. Valur var með litla vél sem ég hefði vel getað tekið myndir á, en ég var greinilega ekki í þannig stuði. Tók samt örfáar myndir á farsímann og set þær hér með, þó ég hafi nú reyndar verið búin að setja þær á facebook líka.












þriðjudagur, 22. október 2013

Dásamleg upplifun


Hehe, já það vantar ekki fyrirsögnina, efniviðurinn er hins vegar kannski ekki alveg jafn dramatískur eins og hún segir til um. Málið er að:

1) Ég steinsvaf í alla nótt (sem gerist nánast aldrei), núorðið vakna ég yfirleitt a.m.k. einu sinni og stundum tvisvar á nóttu.

2) Ég vaknaði af sjálfsdáðum kl. 7 í morgun og fannst ég vera úthvíld (nokkuð sem gerist aldrei, í alvöru talað, ALDREI nokkurn tímann!).

3) Þetta tvennt til samans var alveg frábært. Þegar við bættist að ég var EKKI undirlögð af verkjum í skrokknum, þá var nú aldeilis tilefni til að fagna.

Full af ánægju yfir þessum góða degi, dreif ég mig í sund og synti níu ferðir án þess að hvíla mig og tíunda ferðin var flugsund, og svo synti ég tvær ferðir í viðbót. Hefði getað synt meira en ætlaði ekki að fara fram úr sjálfri mér. Á tímapunkti var ég alein í lauginni og það var notalegt á vissan hátt en ekki vildi ég nú hafa það þannig á hverjum degi samt.

Eftir sundið kom ég heim og fékk mér morgunmat. Síðan braut ég saman þvott, tók úr uppþvottavélinni og tók smá rispu með klútinn í eldhúsinu. Svo dreif ég mig í vinnuna um tíuleytið. Þar fékk ég þá ágætis hugmynd að vinna mér í haginn í bókhaldinu (næstu virðisauka-skil eru jú 5. desember og þá hef ég allt annað við tímann að gera). Eftir ca. klukkutíma bókhaldsvinnu var svo skyndilega allur vindur úr mér. Það var engu líkara en einhver hefði tekið nál og stungið á orku-blöðruna mína og púff! nema hvað það kom enginn hvellur. Þetta hefði eiginlega verið fyndið ef þetta hefði ekki valdið mér jafn miklum vonbrigðum og það gerði.

Hófst þá hið hefðbundna þreytutengda ferli, sem felst meðal annars í því að ég fer að leita mér að einhverju sem gefur mér skjótfengna orku. Ég átti 85% súkkulaði og byrjaði á því að gúffa í mig tveimur molum. Það dugði samt ekki til og þá var krukkan með hnetublöndunni opnuð og tvær stórar lúkur hurfu ofan í ginið á mér. Svo reyndar þurfti ég aðeins að sinna viðskiptavinum og gat þá ekki troðið í mig á meðan ;-) En gaman að segja frá því að hún Ella bloggari kom og heilsaði uppá mig í eigin persónu, svona af því hún var á ferðinni þarna framhjá.

Einhvern veginn tókst mér nú að komast í gegnum vinnudaginn. Þurrka af ryk (í fjórum áföngum), laga aðeins til, afgreiða og já borða meira ... Ég var reyndar óvenju lengi í vinnunni því við Sunna vorum að skoða nýjar vörur sem við erum að fara að panta, og það er alltaf smá höfuðverkur að ákveða hvaða vörur á að taka, sérstaklega þegar maður sér þær ekki nema á mynd í tölvunni.

Eftir vinnu fór ég að klára að gera upp ferð sem við erum að fara í um helgina, og erindaðist eitthvað meira í leiðinni. Það var slydda úti og ég berhöfðuð, svo akkúrat núna er hárið á mér alveg gasalega smart ... Það breytir því ekki að ég þarf að skreppa og kaupa í matinn í Nettó með mitt klessta hár. Já og sækja Val niður á bílaleigu, en hann var á Sauðárkróki að vinna í gær og í dag. Og að því sögðu, þá er best að drattast af stað svo hann þurfi nú ekki að bíða eftir frúnni.

sunnudagur, 6. október 2013

Það jafnast ekkert á við náttúruna sjálfa

þegar kemur að fallegum listaverkum. Þetta munstur er að finna á gamalli marmarasúlu sem stendur við leiði í kirkjugarðinum.


miðvikudagur, 2. október 2013

Afeitrun að ljúka?


Já þessar tvær vikur síðan ég byrjaði í „Earthing“ hafa verið frekar skrautlegar, svo ekki sé meira sagt. Allra fyrst leið mér voða vel en Adam var ekki lengi í Paradís, og í ca. viku - tíu daga var ég gjörsamlega að drepast. Undirlögð af verkjum í nánast öllum skrokknum en þó sýnu verri í mjöðmum/fótum einhverra hluta vegna. Að ekki sé minnst á veikindatilfinningu, sljóleika, höfuðverk, tannverk og s.l. laugardag var ég með þvílíka verki í augunum að það var eins og þau ætluðu hreinlega út úr höfuðkúpunni.

Á sunnudag var ég ekki með eins mikla verki en rosalega þreytt og kannski ekki skrítið að vera þreytt eftir öll þessi átök. Á mánudaginn leið mér nógu vel til að fara í leikfimi og var nokkuð hress fyrst á eftir en svo dró nú af kellu eftir því sem leið á daginn.

Í gær var ég svona la la. Hafði sofið (mjög vel) 10 tíma um nóttina og var hálf drusluleg til að byrja með en dreif mig svo út með myndavélina, og hresstist eitthvað við það. Náði svo dásamlegri slökun úti við Krossanes, þar sem kyrrðin var algjör og enginn á ferli nema ég. Fór svo að vinna kl. 14 og hafði ætlað að vinna í bókhaldi en hafði enga eirð í mér til þess, en var bara á stöðugu flandri um búðina, fyllti á vörur og breytti eitthvað smávegis til. Það er reyndar óvenjulegt hjá mér að vera svona „aktíf“ þegar ég er á seinni parts vakt, venjulega er ég svo lúin að ég geri ekki mikið meira en ég nauðsynlega þarf, þannig að ætli þetta sé ekki bara góðs viti.

Í morgun fór ég svo í sund og synti 10 ferðir og fannst ég hafa betra úthald en oft áður. Tók eina flugsundsferð (er aðeins að reyna að ögra sjálfri mér) og tók bara eina pásu. Hehe, einhvern tímann hefði ég nú hlegið að því að þurfa að stoppa og hvíla mig í 10 ferðum, en já svona hefur það nú samt verið hjá mér undanfarna mánuði/ár. Í dag var ég svo reyndar að vinna í tölvu allan tímann í vinnunni, fyrst að panta vörur og svo í bókhaldinu, og það verður að viðurkennast að ég var eiginlega alveg búin á því þgar ég kom heim. En ég svaf nú líka ekki vel í nótt, svo það hefur áreiðanlega haft sitt að segja.

Ég held samt að þessi svokallaða afeitrun sé að klárast og þá er spennandi að sjá hvernig framhaldið verður :-)