sunnudagur, 1. júlí 2012

Fyrsta flugferðin með Andra var til Grímseyjar :)

Já mér tókst loks að safna nógu miklu hugrekki til að fara í flug. Einhverra hluta vegna hafði ég verið pínu stressuð yfir því að fljúga í svona lítilli vél, en hins vegar treysti ég Andra alveg fullkomlega. Svo þegar ég sá Val og Ísak fara með Andra í flug á föstudagskvöldið, þá var ég allt í einu tilbúin til að prófa sjálf daginn eftir.

Þannig að í gær var stefnan tekin til Grímseyjar. Það var nú pínu kitl í maganum á mér framan af degi og alveg þar til ég var sest upp í flugvélina, en þá hvarf kitlið og ég var svona líka sallaróleg :o) Enda er Andri rólegur og yfirvegaður og engin ástæða til að vera stressuð í flugi með honum.

Myndavélin var að sjálfsögðu með í för, og smellti ég af nokkrum myndum í ferðinni. Þær myndir sem eru teknar úr flugvélinni eru ekki í toppgæðum, enda rúðan fremur skítug og rispuð, en gaman samt að eiga þær til minningar um fyrstu flugferðina með syninum.



"Pilotinn" (eins og tengdapabbi kallar hann) búinn að gera vélina klára og við erum tilbúin að leggja í hann.


Ég fékk að vera í framsætinu og Valur var afturí. Við fengum þessi fínu heyrnartól og gátum talað saman í gegnum þau, og hlustað á samskipti Andra við flugturninn.


Komin á loft! Svalbarðseyri þarna næst okkur.


Andri með þetta allt á hreinu.


Skýjum ofar.


Við vorum ekki nema um fjörutíu mínútur að fljúga til Grímseyjar, sem þarna sést í fjarska.


Þar sem önnur vél var að taka á loft um svipað leyti tókum við einn auka hring áður en við lentum.




Þarna sést flugvélin okkar lengst til vinstri og gula húsið er Gistiheimilið Básar.  Maðurinn sem var á vakt í flugturninum fékk þar lánuð prik handa okkur til að verjast kríunum. Hann hafði sjálfur lent í kríuárás skömmu áður, og verið blóðgaður í höfuðið. Sagði að þetta væri bara ansi vont, og var svo almennilegur að fá lánuð prik handa okkur.


Heimskautsbaugur!!


Þarna eru þeir feðgar við öllu búnir, en það var reyndar ótrúlega mikið af kríu þarna, þó ekki sjáist hún á myndinni. Prikin komu sér vel, sérstaklega fyrir Val, en einhverra hluta vegna sóttu þær mest í hann.


Það var líka ógrynni af lunda í eyjunni. Valur var með betri aðdráttarlinsu en ég og náði einhverjum nærmyndum af þeim. Ég er búin að "kroppa" þessa mynd dálítið, svona til að fá fuglinn í aðeins meiri nærmynd.



Hann var hálf lúinn, öku"maður" þessa gamla traktors :)


Þarna sést sundlaugin. Mér finnst alveg frábært að það skuli vera sundlaug þarna. Það hlýtur að hafa mikið að segja fyrir eyjarskeggja að hafa sundlaug.


Höfnin og hraðskreiður bátur að koma inn.


Það er veitingahús í Grímsey, en það er lokað yfir miðjan daginn, akkúrat þegar við vorum þarna. En við höfðum verið forsjál og tekið með okkur nesti, svo það kom ekki að sök. Við settumst bara á klettabrún með dásamlegt útsýni yfir hafið, og borðuðum nestið okkar. 


Það voru ekki mörg gömul hús í eynni, hvað svo sem veldur. En hér er eitt þeirra.



Guli liturinn var talsvert ríkjandi. Mikið af bæði sóleyjum og fíflum. Mér fannst það svo fallegt!



Fallegar klettamyndanir í fjörunni.




Eftir um það bil 2ja tíma stopp var komið aftur að heimferð. Hér sést Andri að tékka á því að allt sé í lagi áður en við lögðum í hann aftur.


Heimferðin gekk eins og í sögu. Þó var aðeins meiri ókyrrð í lofti en ég var samt sallaróleg. Fyrir þá sem þekkja ekki til, þá er það Eyjafjarðará sem hér sést.


Og hér nálgumst við flugbrautina á Akureyri. Lendingin gekk eins og í sögu og ég var svaka glöð með daginn. Ánægð að hafa drifið mig og ekki látið einhverja taugaveiklun taka völdin.

Það hlaut svo að koma að því að þreytan mín næði yfirhöndinni og það gerði hún líka um leið og ég var komin heim. Valur eldaði frábæra humarsúpu og eftir að hafa borðað hana steinsofnaði ég í sófanum, en það var líka allt í lagi.

ATH! Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær ;)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábærar myndir hjá þér Guðný mín.

Bestu kveðju Helga Bergs

Guðný Pálína sagði...

Þakka þér kærlega fyrir Helga :) Mér datt í hug að fólk hefði kannski gaman af því að sjá myndir frá Grímsey.

ella sagði...

Ekki amalegt ferðalag.

Kristín S. Bjarnadóttir sagði...

Vá takk fyrir að deila þessu, flottar myndir og alveg sérstaklega gaman að sjá þær sem eru teknar úr lofti. Og til lukku með flugmanninn flotta!