sunnudagur, 23. maí 2010

Yndislegur dagur

Já það er þvílík veðurblíða hér í dag. Að vísu ekki sérlega hlýtt, en það er sól og í skjóli fyrir norðanáttinni er alveg steikjandi hiti. Valur er búinn að vera í einu af sínum ofvirknisköstum í dag og ætlar að framkvæma allt, helst ekki seinna en strax. Ég er nú líka búin að vera alveg ágætlega dugleg en auðvitað ekkert á við hann.

Eftir framkvæmdina í kjallarnum er minn maður heldur betur kominn í framkvæmdagír og langar núna til að gera nýjan sólpall vestan við húsið, svo hægt sé að njóta kvöldsólarinnar. Ætli yrði þá ekki að rjúfa trjábeðið sem er við núverandi sólpall, til að gera gangstíg meðfram húsinu, að nýja pallinum. Það á þó alveg eftir að koma í ljós hvort af þessu verður. Einnig er mjög brýnt að mála húsið. Valur var búinn að undirbúa húsið fyrir málningu í fyrra en þá kom tvennt til, annars vegar fundum við ekki lit sem við vorum sátt við og hins vegar var veðrið ekki hliðhollt seinni part sumars þegar meiningin var að mála.

Ég hafði voða gott af ferðinni til Köben þrátt fyrir tafir bæði á utanferð og heimferð. Veðrið var alveg bærilegt þó ekki væri lofthita fyrir að fara og engin væri sólin. Líka var mjög gaman að hitta bæði Hrefnu og Önnu. Já og bara vera í öðru umhverfi en þessu venjulega um stund. Það tók mig reyndar smá tíma að venjast fólksfjöldanum og bílamergðinni á götunum þarna á Nörrebro og fyrsta daginn var ég næstum með svima af látunum í kringum mig :) Á uppstigningardag fór Anna aftur heim til Oslóar en við Hrefna fórum með lest til Malmö og eyddum eftirmiðdeginum þar. Mér fannst líka gaman að koma þangað og svo versluðum við pínu pons og fengum okkur að borða um kvöldið á útiveitingastað. Það var nú engan veginn nógu hlýtt til að sitja úti undir venjulegum kringumstæðum, en þeir voru með helling af gashiturum og við vorum að kafna úr hita.

Nú er það bara þetta venjulega líf sem er tekið við aftur, vinna og svoleiðis. Ísak er byrjaður í prófum og Andri var að dimitera á föstudaginn. Svo tekur alvaran við hjá honum, fyrsta prófið á þriðjudaginn. Hrefna er að spá í vinnu í Norður-Noregi í sumar og svo fer hún líklega til Afríku í haust ásamt vinkonu sinni sem líka er í læknisfræði. Kettirnir eru samir við sig en þó er Máni að gera mig brjálaða. Hann tekur alltaf upp á því á vorin að fara að merkja húsið, því þá fer hann að fara meira út og sér ókunnuga ketti útum allt. Ég er ekkert voðalega ánægð með þessa framtakssemi hans og finnst alveg óþarfi að merkja húsið svona. Er reyndar komin með nýtt sprey núna sem eyðir lykt og leysir upp lífræn óhreinindi, og fer bara reglulegar eftirlitsferðir á þessa helstu staði sem verða fyrir barðinu á dýrinu. Það er skömminni skárra en rekast alltaf á þetta að óvörum og verða jafn svekkt í hvert skipti. En samt er þetta svo skrítið, því það geta liðið nokkrir dagar án þess að nokkuð gerist en svo merkir hann nokkra daga í röð.

Engin ummæli: