Þannig er mál með vexti að ég er í svo slæmu formi að ég hreinlega kemst ekki hjólandi heim úr vinnunni. En mér finnst gaman að hjóla í vinnuna, enda er það niður í móti. Heimleiðin er því miður nánast ein brekka. Ég hef prófað að hjóla mismunandi leiðir, svona í tilraun til að finna þá brekku sem er síst bröttust, en það breytir því ekki að alls staðar er að minnsta kosti ein snörp brekka sem ég hreinlega neyðist til að leiða hjólið upp. Og það finnst mér náttúrulega hin mesta hneisa! En það er eins og stórhveli sé á ferð þegar ég er á ferðinni upp brekkurnar, þvílíkt más og blás sem heyrist. Og mér fannst ég nú bara vera komin með annan fótinn í gröfina eftir að hjóla upp Byggðaveginn á föstudaginn, þrátt fyrir að leiða hjólið smá spotta. Ég lak niður á stól þegar heim kom og stóð varla í lappirnar það sem eftir lifði kvölds. Jamm og jæja, ætli þetta komi nú ekki hjá mér. Væri kannski ekki úr vegi að æfa sig aðeins meira á jafnsléttu líka...
Við Valur fórum Eyjafjarðarhringinn (keyrandi, best að taka það fram þar sem sumir hjóla og aðrir hlaupa jafnvel þessa vegalengd) í gærmorgun. Það er gaman að sjá hvernig vorið er að koma og já styttist í sumarið en innst innfrá var nú ansi mikil sina ennþá fannst mér. Og þrátt fyrir að hitamælirinn sýndi 14 gráður fannst mér kalt þegar við settumst út í grasið og fengum okkur nesti.
Hér má sjá mynd úr ferðinni. Valur stoppaði til að taka mynd af einhverju sem greip athygli hans og ég smellti af út um bílgluggann á meðan. Hámark letinnar að nenna ekki einu sinni að standa upp ;-)