Æ, ég hef eiginlega ekkert að segja núna, held að ég bloggi frekar bara seinna :-)
laugardagur, 31. október 2009
Rólegheit á laugardegi
Æ, ég hef eiginlega ekkert að segja núna, held að ég bloggi frekar bara seinna :-)
þriðjudagur, 20. október 2009
Tiltektaræðið hefur hlaupið með frúna í gönur
Núna áðan komu svo tveir krakkar frá Fjölsmiðjunni og sóttu gamalt tölvuborð og fatahengi í forstofu. Fjölsmiðjan er með vinnusetur fyrir unga krakka sem ekki hafa fundið sig í skóla eða vinnu annars staðar (ef ég skil þetta rétt). Þar er líka nytjamarkaður og alveg frábært að geta gefið hluti sem annars taka bara pláss í geymslunni eða enda á haugunum. Svo bíður fullur svartur plastpoki af dóti sem ég ætla með í Hertex, þannig að ég er ekki alveg hætt ennþá. Já og svo fann ég brennisteinssýru (eða eitthvað álíka eitur) í geymslunni í kjallaranum og þarf að fara með það í Endurvinnsluna. Nú, svo mér leiðist örugglega ekki á næstunni þá þarf líka að fara með kettina í sprautu, fara með bílinn í þjónustuskoðun og flíspeysuna hans Andra í viðgerð. Sem sagt nóg að gera!
sunnudagur, 18. október 2009
Dugnaðardagur í dag
miðvikudagur, 14. október 2009
Ekki-þreytublogg :-)
Þegar hér var komið sögu var kominn tími til að fara á foreldrafund í skólanum. Ég bauð mig nefnilega fram sem bekkjarfulltrúa í haust og við ákváðum að hóa foreldrunum saman til að ræða ýmis málefni tengd unglingunum okkar, s.s. útivistartíma, tölvutíma, hjálmanotkun ofl. Ég veit nú ekki alveg hve margir foreldrar mættu, kannski 25 fulltrúar þeirra 50 barna sem í árganginum eru, en ætli það megi ekki bara teljast nokkuð gott. Það nennir enginn að mæta á svona fundi, fólk mætir það ekki af því það búist við að verði svo gaman, heldur af skyldurækni. Stundum hef ég slaufað svona fundum af því ég hef hreinlega ekki nennt að mæta, en það er nú reyndar afar sjaldan.
Jamm og jæja, þegar við ætluðum heim aftur kom í ljós að ekki var hægt að skella skólanum í lás og við þurftum að ræsa út húsvörðinn til að læsa. Hann hló nú þegar hann sá mig þarna og var alveg viss um að þetta væri allt saman mér að kenna. Alltaf jafn stríðinn! Markús húsvörður, kallaður Krúsi hér á árum áður, var nefnilega sundlaugarvörður hérna í den þegar ég var að æfa sund, þannig að við höfum þekkst lengi.
Nú svo fór ég heim og fékk ljómandi góðan fisk að borða hjá eiginmanninum. Hið sama fékk Ísak, en Andri er að vinna hjá Gallup í kvöld og slapp við fiskinn (ekki hans uppáhaldsmatur). Að baki er svo frágangur í eldhúsinu og framundan er prjónaskapur :-)
Meiriháttar svefnsýki hrjáir frúna þessa dagana
Vaknaði í morgun rúmlega sjö eins og lög gera ráð fyrir og vakti Ísak um hálf átta. Var samt svo þreytt eitthvað og syfjuð að ég nennti ekki í sund - og lagði mig aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Já og svaf til hálf tólf!! Geri aðrir betur. Nú er klukkan hálf þrjú og sól og blíða úti en ég er svooo þreytt eitthvað og langar mest uppí rúm. Þetta gengur náttúrulega ekki. Eftir tvo tíma er foreldrafundur í Lundarskóla og ég verð nú að minnsta kosti að reyna að halda mér vakandi þangað til...
P.S. Hrefna mín, ég biðst innilega afsökunar á þessu þreytubloggi ;-)
mánudagur, 12. október 2009
Prjónablogg
laugardagur, 10. október 2009
Jæja þá er víst útséð með að Rósa komi á skátafund
því ekkert flugveður hefur verið sökum veðurs og þó hún kæmist norður um miðjan dag þá tekur það því hreinlega ekki að koma fyrir svo stuttan tíma. Mér finnst mjög leiðinlegt að hún kemst ekki. En þar sem búið var að skipuleggja þetta allt saman þá mun víst áætlun okkar hinna standa. Ég var nú reyndar svo sniðug að stinga uppá að við tækjum kvöldið snemma og hittumst kl. 17.30 - en tók svo að mér að vinna í dag þar sem ein þurfti að fá frí. Það þýðir að ég verð að vinna til kl. 17... tja, nema Andri væri til í að koma síðasta hálftímann fyrir mig. Það var nú kona í sundinu að hrósa honum þvílíkt í gærmorgun. Sagði að hann væri svo einstaklega kurteis og almennilegur. Það er bara algjörlega dottið úr mér hvaða kona þetta var - en ég var samt hissa á að hún vissi að Andri væri sonur minn svo ekki þekki ég hana sérlega vel.
Ég hélt nú áfram að prjóna peysuna þrátt fyrir þessi mistök sem ég hafði gert en ánægjan er einhvern veginn ekki sú sama. Svo bætist við að munsturliturinn átti að vera fölgrár en hann var ekki til svo ég keypti bara hvítt - og nú er ég sem sagt farin að velta því fyrir mér hvort hún hefði kannski verið fallegri með gráa litnum... Já, það er ekki tekið út með sældinni að prjóna! Á það ekki annars að vera svo róandi?
Veðrið úti er ekki beint spennandi, rok og rigningarsuddi, grár himinn. Snjórinn er nánast farinn hér í bænum en ennþá allt grátt í hlíðinni fyrir neðan Fálkafell. Lengra upp sést ekki. Máni hefur ekki einu sinni gert tilraun til að fara út í dag og það segir nú ýmislegt.
Ísak svaf hjá vini sínum í nótt og Andri hjá vinkonu sinni, Valur er í vinnunni og við kettirnir ein hér heima í bili. Ætli Valur fari ekki bráðum að skila sér heim og þá fáum við okkur morgunkaffi saman og kíkjum í blöðin.
Myndin hér að ofan er tekin í sumar þegar við Valur og Ísak fórum með Önnu og Sigurði í smá ferðalag. Þetta er einhver eyja á Skjálfanda og eins og sést voru birtuskilyrðin mjög sérstök þetta kvöld.
föstudagur, 9. október 2009
Kapp er best með forsjá
Ég er að vinna seinnipart í dag og hef sem sagt setið með prjónana í morgun og hlustað á rás 1 í Ríkisútvarpinu. Greinilegt ellimerki:) En núna er ég bara orðin svo syfjuð en hef eiginlega ekki tíma til að leggja mig fyrir vinnu því ég á eftir að erindast aðeins fyrir vinnuna og svo borða og taka mig til.
Á morgun er ég líka að vinna en um kvöldið ætlum við að hittast gamlar skátasystur og rifja upp góðar minningar. Það er bara verst að ein okkar er að vinna og önnur er í Reykjavík og því miður lítur ekki út fyrir gott flugveður í kvöld.
sunnudagur, 4. október 2009
Vetur konungur
Síðustu árin hef ég alltaf tekið mynd af fyrsta snjónum - og alltaf frá þessu sama sjónarhorni. Í þetta skiptið var ég reyndar stödd í Noregi þegar fyrsti snjórinn féll, svo að ég smellti bara af mynd í morgun í staðinn. Myndefnið er raunar aðeins breytt þetta árið því þessi kofi var reistur á lóð nágrannans í sumar. Það sést ekki á myndinni en veggirnir eru skreyttir með hlöðnu torfi og einnig er torf á þakinu.
Þá erum við Ísak komin heim í snjóinn,
Ég var að maula eitthvað óhollt meira og minna alla leiðina til að halda mér betur vakandi og hafði líka keypt mér orkudrykk (sem ég geri annars aldrei) til að hafa til öryggis ef mér fyndist ég vera að verða skuggalega syfjuð og þreytt. Það var nú í og með vegna þess að ég hef verið að fara frekar snemma að sofa á norskum tíma og hélt að það myndi kannski segja til sín. Það stemmdi nú reyndar, þegar ég var að fara að leggja í Vatnsskarðið var klukkan um ellefu að norskum tíma og þá fór ég að verða pínu syfjuð. Svo ég skellti orkudrykknum í mig og hristi af mér syfjuna í einum grænum.
Annars höfðum við Ísak það ósköp gott hjá Önnu og Kjell-Einari. Ég hafði keypt mér garn í peysu áður en við fórum út og hefði sjálfsagt náð að klára peysuna ef ekki hefði mig vantað einn lit sem ekki var til þegar ég keypti garnið. En ég er a.m.k. búin með bol og ermar, þannig að ég ætti nú að geta klárað restina á tiltölulega skömmum tíma - ef ég gef mér tíma til þess.