Atvik nr. 1 átti sér stað á fimmtudaginn þegar ég var að versla inn fyrir kökubaksturinn, þá fór ég í Hagkaup og Hrefna var svo (ó)heppin að vera með mér. Eitt af því sem mig vantaði voru sólþurrkaðir tómatar og þegar ég teygði mig í eina krukku þá rak ég mig í leiðinni í krukkustaflann og önnur krukka datt í gólfið með háum hvelli því um glerkrukku var að ræða. Hún brotnaði að sjálfsögðu og tómatar og olía slettust út um allt + allir sem voru í nærliggjandi radíus litu við til að athuga hvað gerst hafði. Karlmaður sem var við hliðina á mér sló á létta strengi og sagði "Heyrðu, þú misstir eitthvað". Góður!
Atvik nr. 2 gerðist næsta dag. Ég var búin að vinna í kaffinu á árshátíðinni og var á heimleið þegar ég mundi að mig vantaði jarðarber til að hafa ofan á ostaístertunni. Kom við í 10-11 og þá var búið að endurskipuleggja alla búðina. Ég fann nú samt grænmetis og ávaxtahilluna en sá engin jarðarber. Fór og spurði afgreiðslustúlkuna og viti menn, jarðarberin voru náttúrulega beint fyrir framan mig þó frú sjónlaus hefði ekki séð þau. Ég greip eina öskjuna - en hvað skeði - jú ég missti hana beint á gólfið og öll jarðarberin skoppuðu út og rúlluðu víðsvegar um gólfið. Mér fannst þetta nú ekki einleikið, ég man aldrei eftir að hafa misst nokkurn skapaðan hlut í verslunum áður og nú gerðist það tvo daga í röð.
Atvik nr. 3 átti sér svo stað í gærkvöldi. Merkilegt nokk gerðist ekkert slíkt á laugardaginn en nægt tilefni gafst nú því ég málaði heilt herbergi þann dag (hm, ruglaðist aðeins, málaði í gær, lá í leti allan laugardaginn). En í gærkvöldi komu tvær vinkonur mínar í heimsókn og mér datt í hug að kveikja á kertum í stofunni og hafa það svolítið huggulegt. Þegar ég teygði mig ofan í skúffuna sem eldspýturnar eru geymdar í og greip eldspýtnastokkinn vildi ekki betur til en ég missti hann út úr höndunum á mér (NB! eftir að hafa verið búin að opna hann uppá gátt) og allar eldspýturnar hrundu í gólfið - og þetta var sem sagt stór eldspýtnastokkur. Mér féll nú bara allur ketill í eld og fór alvarlega að íhuga hvaða áður óþekkti sjúkdómur þetta væri. Verður kannski skýrt "Guðnýjar syndrome"...