miðvikudagur, 28. desember 2005

Þá eru jólin liðin hjá

og flestir komnir aftur í vinnu. Ég var nú svo dugleg í gær að fara í sund þegar ég vaknaði um sjöleytið en ekki voru margir í sundlauginni. Slapp þar af leiðandi alveg við baráttu í brautinni... Reyndar hafði ég nú ætlað að vera sem mest í fríi milli jóla og nýárs en ýmislegt ófyrirséð kom í veg fyrir það. Sat á mínum rassi fyrir framan tölvuna frá 8-17 og 19-21.30 og er að drepast í rófubeininu á eftir ;-( Ég var nefnilega orðin eitthvað tæp í bakinu og datt það snjallræði í hug að breyta stillingunni á skrifborðsstólnum mínum. Ákvað að láta setuna halla meira fram - og hætti alveg að finna til í bakinu. Svo í gærkvöldi þegar ég var komin heim og settist fyrir framan sjónvarpið (já ég veit, meiri seta, ekki mjög hollt) þá fann ég að ég var orðin eitthvað skrýtin í rófunni og er það enn í dag. Alveg helaum í rófubeininu - þannig að ég er búin að laga stillinguna á stólnum í fyrra horf. En þar sem ég var búin að panta mér tíma í klippingu kl. 11 þá er víst best að fara að gera eitthvað af viti.

P.S. Við áttum hin notalegustu jól og gerðum eins og allir aðrir: slöppuðum af, borðuðum og fórum í göngutúra til að koðna ekki alveg niður í afslappelsinu öllu. Okkur var meira að segja boðið í skötuveislu á Þorláksmessu en ég verð að játa að ég lét mér nægja að borða bara einn munnbita af skötunni en bætti það upp með saltfiski, gellum og heimabökuðu rúgbrauði. Samskonar rúgbrauð var sent í ábyrgðarpósti til Cuxhaven í Þýskalandi, þannig að sjá má hvílíkt dýrindis rúgbrauð þetta var. Póstafgreiðslumaðurinn hafði víst orðið hálf kindarlegur þegar hann heyrði hvert innihald pakkans var en hafði verið fljótur að jafna sig og spurði hvort viðkomandi vildi ekki fá tvöfalda ábyrgð undir svona dýrmætan farm :O)

Engin ummæli: