föstudagur, 30. desember 2005

Það er orðið ansi stutt eftir af árinu,

einn sólarhringur eða svo. Og hvort sem það er vegna þessara tímamóta eða einhvers annars þá er höfuðið á mér fullt af alls kyns pælingum. Ég þarf m.a. að finna mér nýja vinnu á árinu því ég hef ákveðið að hætta því sem ég er að gera í dag - og þá byrjar víst fjörið... Ætli sé ekki bara best að hugsa sem minnst, bara "go with the flow" og treysta því að mín bíði eitthvað spennandi ;-) Stundum finnst mér það ansi hart að vera komin yfir fertugt og vera ekki ennþá búin að finna minn sess, minn stað í lífinu, a.m.k. hvað atvinnu snertir en það þýðir víst lítið að ergja sig yfir því. Punktur og basta.

miðvikudagur, 28. desember 2005

Þá eru jólin liðin hjá

og flestir komnir aftur í vinnu. Ég var nú svo dugleg í gær að fara í sund þegar ég vaknaði um sjöleytið en ekki voru margir í sundlauginni. Slapp þar af leiðandi alveg við baráttu í brautinni... Reyndar hafði ég nú ætlað að vera sem mest í fríi milli jóla og nýárs en ýmislegt ófyrirséð kom í veg fyrir það. Sat á mínum rassi fyrir framan tölvuna frá 8-17 og 19-21.30 og er að drepast í rófubeininu á eftir ;-( Ég var nefnilega orðin eitthvað tæp í bakinu og datt það snjallræði í hug að breyta stillingunni á skrifborðsstólnum mínum. Ákvað að láta setuna halla meira fram - og hætti alveg að finna til í bakinu. Svo í gærkvöldi þegar ég var komin heim og settist fyrir framan sjónvarpið (já ég veit, meiri seta, ekki mjög hollt) þá fann ég að ég var orðin eitthvað skrýtin í rófunni og er það enn í dag. Alveg helaum í rófubeininu - þannig að ég er búin að laga stillinguna á stólnum í fyrra horf. En þar sem ég var búin að panta mér tíma í klippingu kl. 11 þá er víst best að fara að gera eitthvað af viti.

P.S. Við áttum hin notalegustu jól og gerðum eins og allir aðrir: slöppuðum af, borðuðum og fórum í göngutúra til að koðna ekki alveg niður í afslappelsinu öllu. Okkur var meira að segja boðið í skötuveislu á Þorláksmessu en ég verð að játa að ég lét mér nægja að borða bara einn munnbita af skötunni en bætti það upp með saltfiski, gellum og heimabökuðu rúgbrauði. Samskonar rúgbrauð var sent í ábyrgðarpósti til Cuxhaven í Þýskalandi, þannig að sjá má hvílíkt dýrindis rúgbrauð þetta var. Póstafgreiðslumaðurinn hafði víst orðið hálf kindarlegur þegar hann heyrði hvert innihald pakkans var en hafði verið fljótur að jafna sig og spurði hvort viðkomandi vildi ekki fá tvöfalda ábyrgð undir svona dýrmætan farm :O)

sunnudagur, 18. desember 2005

Bloggið hefur verið heldur neðarlega

á forgangslistanum undanfarið. Það hefur verið nóg annað að gera s.s. ýmis konar jólaundirbúningur og vinna. Við erum reyndar að setja nýtt met held ég barasta, mér sýnist að við verðum tilbúin með allt svo tímanlega í ár... Hefur ekki alltaf verið þannig, t.d. árið sem við tókum efri hæðina á húsinu í gegn, þá kom eldhúsinnréttingin í húsið á Þorláksmessu ef ég man rétt og fyrsta máltiðin sem var elduð í nýja eldhúsinu var jólamáltíðin. Hins vegar var bara nýbúið að parkettleggja stofuna og átti eftir að mála hana þannig að við tókum upp pakkana inni í herberginu sem þá var sjónvarpsherbergi en er núna hjónaherbergið okkar. Ekki tókst okkur heldur að hafa allt klárt klukkan sex (ætli hálf átta sé ekki nær lagi) og Hrefna, sem þá var 12 ára, var alveg að tapa sér yfir þessum seinagangi á sjálfum jólunum. Á jóladag fórum við svo að mála stofuna...já, það er mikið basl að standa í svona framkvæmdum og jólin svo sannarlega ekki besti tíminn til þess. En það var þá eins og svo oft áður, búið var að lofa að allt yrði klárt um miðjan nóvember - sem stóðst náttúrulega ekki.

Núna er sem sagt búið að kaupa flestallar jólagjafirnar, kaupa jólatréð og hangikjötið, baka smákökur (að vísu bara þrjár sortir, ætla að gera eina í viðbót) og þrífa það sem þarf að þrífa. Valur tók nú aldeilis á því í dag, þreif bæði hina margumtöluðu eldhúsinnréttingu og gluggana að utan ;-) Það eru bara fáeinir lausir endar sem þarf að hnýta en mikið sem er gott að vera búin með það mesta.

sunnudagur, 11. desember 2005

Við vorum í veislu á föstudagskvöldið

hjá hjónum sem voru að halda upp á 25 ára brúðkaupsafmælið sitt. Þau höfðu reyndar ekki sagt neinum fyrir fram hvert tilefnið væri en létu það uppi í veislunni. Það athyglisverða við þetta er að hjónin eru indversk og þau sáu hvort annað í fyrsta sinn 30. nóvember og giftust þann 5. desember. Brúðurin hafði ekki einu sinni séð mynd af væntanlegum brúðguma sínum áður en þau hittust og nánast strax eftir brúðkaupið flugu þau til Íslands, í myrkrið, kuldann og snjóinn. Við höfum náttúrulega engar forsendur til að skilja aðra menningarheima og hér áður fyrr tíðkaðist það víst að ungu brúðhjónin sáust í allra fyrsta sinn í brúðkaupinu sjálfu. En það varð mér hins vegar mikið umhugsunarefni hvað hún hefur verið hugrökk, ekki aðeins að giftast manni sem hún þekkti ekki neitt, heldur einnig að flytja með honum nánast hinum megin á hnöttinn og takast á við líf í nýju landi langt í burtu frá ættingjum og vinum. Hún var heimavinnandi lengst framan af og mér finnst í raun ótrúlegt hvað hún og þau bæði reyndar hafa aðlagast íslensku samfélagi fullkomlega, t.d. tala þau nánast óaðfinnanlega íslensku. Já, það er ekki hægt annað hægt en bera virðingu fyrir svona fólki ;o)

föstudagur, 9. desember 2005

Svipmynd úr skóginum


Svipmynd úr skóginum, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór sem sagt í gönguferð í Kjarnaskóg fyrr í þessari viku og smellti af nokkrum myndum. Gallinn var bara sá að klukkan var orðin aðeins of margt, þ.e. byrjað var að skyggja, eins og sjá má. Ég birti þetta nú samt til gamans, bara svona til að gefa smá hugmynd um fegurðina, þó myndin geri henni reyndar ekki góð skil. Nú er hins vegar komin asahláka og snjórinn á hröðu undanhaldi.

Hefur einhver týnt toyota lykli?


Skilti, originally uploaded by Guðný Pálína.

Sumt er meira orginalt en annað...

miðvikudagur, 7. desember 2005

Frost á Fróni


Frost á Fróni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hm, þetta átti að vera tilraun til listrænnar ljósmyndunar ;o) Spurning að láta Val bara um þetta...

Fór í sund í morgun í frostinu

en það er einhvern veginn mun kaldara úti heldur en hitastigið segir til um. Það er svo mikill raki í loftinu og hann gerir það að verkum að 7 stiga frostið virkar frekar eins og 17 stiga frost...jæja nú ýki ég kannski aðeins... en það er a.m.k. freistandi að standa bara áfram undir sturtunni og sleppa því að fara í laugina. En ég er náttúrulega gallhörð og læt mig hafa það ;o) Nema hvað, þegar ég kom uppúr sá ég að ég hafði gleymt snyrtiveskinu heima og það þýðir bara eitt: ég þarf að fara heim og "setja á mig andlitið" því ekki fer ég "andlitslaus" í vinnuna. Já, það er ótrúlegt hvað við kvenfólkið (eða sumar okkar öllu heldur) erum orðnar háðar meiki, varalit og maskara... Sem betur fer í þessu tilviki, því þegar ég kom heim þá sá ég að útihurðin var opin og var orðið býsna kalt í forstofunni og eldhúsinu. Ísak minn hefur greinilega ekki lokað hurðinni nógu vel og blaðberanum hefur augljóslega ekki dottið í hug heldur að loka en hafði stungið Fréttablaðinu inn um opnar dyrnar í staðinn. Þannig að þegar öllu var á botninn hvolft þá var það aldeilis heppilegt að ég skyldi gleyma snyrtiveskinu heima í dag ;o)

mánudagur, 5. desember 2005

Fyrir nokkrum vikum

fékk ég nýjan félagsskap hérna í vinnunni. Kínversk kona kom þá á skrifstofuna gegnt mér á ganginum og strax fyrsta daginn kom hún og heilsaði mér, sem var afar fallega gert af henni. Næsta dag var hún í vandræðum með tölvuna og kallaði í mig til að athuga hvort ég gæti hjálpað henni. Það gat ég reyndar ekki en hringdi í Gagnasmiðjuna og Óskar kom að vörmu spori og reddaði málinu. Síðan hef ég verið henni innan handar með ýmislegt smálegt en ekki staðið í neinum stórræðum þó. Þess vegna kom það mér fullkomlega í opna skjöldu þegar hún kom í morgun og færði mér gjöf. Ég vissi varla hvað ég átti að segja en þar sem ég var nýlega búin að vera á fyrirlestri um kínverska menningu þá vissi ég að það væri hin mesta ókurteisi að neita að taka við gjöfum frá kínverja, þannig að ég þakkaði bara kærlega fyrir mig. Þetta voru þá tveir hálsklútar úr silki með myndum af andlitsgrímum sem notaðar eru í óperunni í Bejing. En jafn gaman og það er að fá gjafir þá er ég núna í hinum mestu vandræðum - ég veit nefnilega ekki hvort kínverskar hefðir gera ráð fyrir því að ég eigi að gefa henni eitthvað til baka...

Og þar sem ég er farin að tala um menningu og menningarmun þá var sú kínverska um daginn að spyrja mig hvernig maður ætti að bera sig að ef maður væri óánægður með þjónustuna á einhverjum stað. Ég sagði að hún ætti endilega að tala aftur við þann sem hefði afgreitt hana og ef hann myndi ekki greiða úr málunum þá væri sjálfsagt að tala við hans yfirmann. Hún var nú heldur treg til að gera þetta og ég skildi ekki af hverju. Það kom þá í ljós að ef það er kvartað undan starfsfólki í Kína þá er dregið af launum þeirra við næstu útborgun!

föstudagur, 2. desember 2005

Dóra á móti kom færandi hendi í dag

með nýbakaðar kleinur og soðið brauð með kúmeni sem þau hjónin höfðu verið að baka. Mikið sem það er nú gott að eiga svona góða granna ;o) Í þessu sambandi rifjuðust upp fyrir mér æskuminningar um að hafa fengið nákvæmlega sama bakkelsi í gamla daga þegar ég var í heimsókn hjá henni Rósu vinkonu minni (sem er dóttir hennar Dóru svo þetta sé nú allt á hreinu). Líka man ég eftir því að hafa borðað ristað fransbrauð með rabarbarasultu á sama stað... Já, það er ekki síður gott að eiga góðar minningar en góða granna ;o)

fimmtudagur, 1. desember 2005

Ég sat inni í stofu með handavinnu

og hlustaði á Merle Haggard þegar ég stóð á fætur einhverra hluta vegna - er búin að steingleyma hvað ég ætlaði að fara að gera - og endaði fyrir framan tölvuna. Hingað hef ég samt ekkert sérstakt erindi en þar sem ég er komin er best að skrifa nokkrar línur..

Ég hef tekið því rólega í vinnunni þessa vikuna því kennslu er lokið og prófið er ekki fyrr en 9. des. þannig að ég má alveg drolla svolítið. Var búin að sjá það fyrir mér að ég myndi fara í brjálað dugnaðarkast hérna heima, baka og skreyta, en það eina sem hefur gerst á þeim vettvangi er að aðventuljósið er komið í eldhúsgluggann. Jú, svo er ég búin að fletta jólablaði Moggans og Fréttablaðsins en ólíkt því sem stundum hefur verið áður þá kom jólaandinn bara alls ekki yfir mig við lestur þessara blaða. Og þrátt fyrir jólalög í útvarpinu, skreytingar um allan bæ og í flestum búðum, þá kemst ég bara ekki í gírinn. Keypti samt eina jólagjöf í dag svo mér er kannski ekki alls varnað ;o)