þriðjudagur, 23. nóvember 2021

Það er alveg spurning að skrifa uppá dánarvottorð fyrir bloggið mitt ...

Þetta er einungis ellefta bloggfærslan á árinu og þar með augljóst að mér hefur mistekist hrapallega að blása lífi í bloggið með því að setja mér markmið um 100 bloggfærslur. 
 
Samt langar mig stundum að blogga og sest jafnvel við tölvuna og byrja að skrifa - en eitthvað heldur aftur af mér með að klára pistil og birta hann.  
 
Kosturinn við að skrifa um persónuleg málefni, er að það hjálpar mér að hugsa og setja hluti í samhengi í höfðinu á mér. En á sama tíma og mér finnst gaman að hafa lesendur (aðra en fjölskyldu og vini) þá er það líka erfitt því mér fer að finnast að ég eigi að skrifa eitthvað "gáfulegt" úr því ég er að því á annað borð.  
 
Og þar stendur hnífurinn í kúnni! Mér finnst ég ekki hafa neitt gáfulegt fram að færa. Mér hefur reyndar dottið í hug að endrum og sinnum gæti ég miðlað heilsutengdum fróðleiksmolum - en það er áhugamál hjá mér að hlusta á heilsutengda hlaðvarpsþætti - og ef ég myndi nú skrifa hjá mér þó ekki væri nema brotabrot af öllum þeim fróðleik sem ég innbyrði þá hefði ég nú aldeilis eitthvað til að blogga um. En þá yrði ég reyndar að fara að hlusta á þessa þætti að deginum til, ekki bara á kvöldin þegar ég ligg uppi í rúmi og er að fara að sofa ;-)  
 
Hvað sem því líður, þá mun ég sennilega ekki hafa brjóst í mér til að "drepa" bloggið mitt eftir öll þessi ár. 

En hei! Eftir langan ljósmyndadoða fékk ég aftur áhuga og löngun til að fara út með myndavélina, og er mjög þakklát fyrir það.  Við Valur fórum til dæmis í ljósmyndaferð Mývatnssveit um síðustu helgi og það var mjög gaman. Myndin sem fylgir er einmitt tekin þar. 

P.S. Þetta er bloggfærsla 11/100 í (misheppnaðri) bloggáskorun ársins 2021