Þegar ég vaknaði í morgun var vinkona mín vefjagigtin mætt á svæðið, tvíefld. Ekki að hún hafi svo sem farið neitt, hún er bara mis öflug, svona eins og fellibylir hafa misjafnan styrk. Ég fór samt í morgunsundið og sá ekki eftir því, enda dásemdarsólskin úti. Þurfti reyndar að skafa bílrúðuna svo það hefur greinilega fryst í nótt.
Þegar ég kom heim úr sundinu og var búin að borða morgunmat þá var sófinn farinn að kalla ansi hátt á mig. EN - það er ekki á hverjum degi sem sólin skín og ég veit fátt verra en liggja í gigtarkasti í sófanum í fallegu veðri. Þannig að ég tók mig saman í andlitinu, setti makrólinsu á myndavélina og ók í Lystigarðinn.
Fékk reyndar símtal frá vinkonu minni akkúrat þegar ég var að leggja bílnum og spjallaði aðeins við hana áður en ég fór í garðinn. Fann að formið var nú ekkert æðislegt og splæsti á mig kaffibolla sem ég drakk úti í sólinni. Rölti svo um garðinn í leit að myndefni.
Mér finnst skemmtilegast að eltast við birtuna, þ.e.a.s. finna sólargeisla sem ná að brjóta sér leið milli greina og trjáa og skína nánast lárétt á plöntur og blóm. Svo gengur náttúrulega misvel að fanga fegurðina. En ég gleymi mér við þessa iðju og dvel í núvitund á meðan og það er bara dásamlegt :)
P.S. Nú er ég farin í sófann ;)